01.03.1951
Neðri deild: 76. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1326 í B-deild Alþingistíðinda. (2742)

156. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Helgi Jónasson):

Herra forseti. Mig furðar á því í þessum umr., að forsvarsmenn bæjarfélaganna á Alþ. virðast líta svo á, að Tryggingastofnunin eða ríkisstjórnin hafi sérstaka löngun til að koma á einhverju „straffi“ á bæjarfélögin, það sé einhvers konar illkvittni af þeim að vilja koma þessum ákvæðum í lögin. Þetta finnst mér hafa skinið hér út úr hverri ræðu, en þetta er hinn mesti misskilningur. Ég veit ekki til, að Tryggingastofnunin hafi á neinn hátt komið harkalega fram, hvorki við einstaklinga, bæjarfélög né ríkið, heldur reynt að sýna fulla sanngirni og lipurð við alla þessa aðila. Það er hreinn misskilningur, að það sé löngun hjá stofnuninni til að lítilsvirða eða traðka á rétti sveitarfélaga eða bæjarfélaga. Það kemur mér ekki til hugar. Þetta er borið fram af illri nauðsyn. Við vitum mjög vel, sem eitthvað höfum fylgzt með þessum málum, að síðan 1947 hafa verið vanhöld á greiðslum hjá bæjarfélögum úti um land, og þeim heldur enn áfram, og vangreiðslur þessar munu nú nema 7–8 millj., kr., eingöngu hjá stærstu bæjarfélögunum. Ég tek alls ekki undir það, að þau eigi verst með að standa í skilum. Hitt er svo annað mál, að vitað er, að þessi bæjarfélög hafa notað féð til annars. Það er lagt á og innheimt, það sjáum við í skýrslum, en það hefur verið notað til annarra þarfa bæjarfélagsins. Hv. 7. þm. Reykv. lýsti því yfir, að það stafaði af því, að ríkið skuldaði bæjarfélögunum svo og svo mikið fé vegna framkvæmda. Það kann vel að vera, en það kemur þessu máli ekki við. Við vitum ósköp vel, að Alþ. veitir á hverjum tíma vissa upphæð til slíkra framkvæmda, skólabygginga o.s.frv., bæjarfélögin vita, hvað þarna er mikið fé í skiptum árlega, og verða að haga sínum framkvæmdum eftir því, — framkvæmi þau meira, þá þau um það. Alþ. ákveður þessa upphæð í fjárlögum hverju sinni, og henni er svo skipt hlutfallslega til hinna eiristöku bæjarog sveitarfélaga. Framkvæmi þau meira, eiga þau um það við sjálf sig.

Ég vil benda á, að meðan það er í lögum, að Tryggingastofnunin fái sitt gjald frá bæjarfélögunum, verður það að greiðast, það er ekki hægt annað. Mig furðar á, að ýmsir hv. þm., sem hér hafa talað á móti þessu, hafa alltaf greitt atkv. með auknum útgjöldum, sem stofnunin hefur átt að inna af hendi, en þegar svo á að reyna á mildan hátt að tryggja, að stofnunin fái þær lögboðnu tekjur, sem hún þarf og á að hafa, rísa þeir öndverðir á móti og segja, að það geri ekkert til, þó að stofnunin fái þær ekki. Ég býst við, að ýmsum mundi bregða í brún, ef Tryggingastofnunin lokaðist, eins og hún hlýtur að gera, ef þessu heldur áfram, og gæti ekki lengur innt af hendi sínar greiðslur. Eins og hv. þm. Borgf. tók fram, fær svo að segja hvert sveitar- og bæjarfélag meira fé úr stofnuninni en það greiðir í hana. Ég vona, að hv. þm. sé ljóst, að ef stofnunin á svo ekki að fá sínar lögboðnu tekjur, kemur það af sjálfu sér, að hún getur ekki innt af hendi þær skyldur, sem henni ber skv. lögum, og ég vona, að þm. athugi, að svo hlýtur að fara, ef þessu heldur áfram. Að vísu segja þm.: „Ríkið er í ábyrgð fyrir þessu öllu saman og á að greiða það.“ — Það má náttúrlega segja svo, en ég býst við, að það yrði dálítið erfitt að koma því fyrir. Á síðustu fjárlögum voru erfiðleikar að fá frá ríkinu það, sem stofnuninni raunverulega bar. Það yrði erfitt að bæta mörgum millj. kr. við það framlag. En það er sá háttur, sem ég kann ekki við, að það er alltaf verið að læða því inn í umr., að Tryggingastofnunin hafi löngun til að traðka á rétti bæjarfélaganna. Þessu mótmæli ég algerlega fyrir hönd Tryggingastofnunar ríkisins, og ég hygg, að sama megi segja fyrir hönd fjmrn.

Það er merkilegt, að þessir hv. þm. eru alltaf að tala um, að ef sveitarfélög standa ekki í skilum, þá verði að taka upp opinbert eftirlit. Það yrði enn meiri skerðing á rétti sveitar- og bæjarfélaga en þó að þau ættu að greiða vissan hluta af útsvörum sínum eitt ár til að lækka þessar skuldir, — ég tel það miklu minni réttarskerðingu en hitt, og til þess megi ekki grípa fyrr en í síðustu lög, og ég tel rétt sveitarfélaga til sjálfstjórnar það mikinn, að það verði að vera alveg sérstakar ástæður fyrir hendi, ef taka mætti upp opinbert eftirlit.

Ég hef heyrt það nú, að þetta mál muni eiga nokkuð erfitt uppdráttar í þessari hv. deild og tvísýnt um framgang þess, og tel ég það mjög illa farið. Ég býst við, að það verði að leita nýrra ráða áður en langt um líður. Þegar smærri sveitarfélög vita, að þau stærri komast upp með það ár eftir ár að skulda sín framlög til Tryggingastofnunarinnar, þá koma þau á eftir og hætta að inna sín gjöld af hendi, og þá sjá allir, hvert stefnir.