02.03.1951
Neðri deild: 77. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1329 í B-deild Alþingistíðinda. (2756)

192. mál, mótvirðissjóður

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, þá er verið að byggja ný orkuver við Sog og Laxá, og fyrirhugað er að hefja byggingu áburðarverksmiðju á þessu árí. Þessi fyrirtæki öll saman kosta mikið fé, um 300 milljónir samtals. Ætlunin er að afla fjár til þeirra með ýmsu móti, sumpart með lánum erlendis til vélakaupa og sumpart með lánsútboðum innan lands og loks með því að nota verulegan hluta mótvirðissjóðs til þess að kaupa skuldabréf þessara fyrirtækja, eða réttara sagt lána þessum fyrirtækjum.

Samkomulag er um það milli stjórnarflokkanna og ríkisstj., eins og áður hefur verið skýrt frá á Alþ., að vinna að því, að þessi lán gangi til fyrirtækjanna í sem réttustu hlutfalli við stofnkostnað þeirra. Eins og menn vita, þá verður Marshallstofnunin að samþykkja, hvort það er þannig ástatt í landinu, að forsvaranlegt sé að lána út fé mótvirðissjóðs. Nú hefur verið gerð till. til þessarar stofnunar um að verja mótvirðissjóði, eins og hann var orðinn í fyrra, 15 milljónir, til Sogs og Laxár, og það er vitað, að þetta verður samþ., en formlegt samþykki er ekki komið. Jafnframt er unnið að því að fá meira lánsfé fram að næsta þingi, og þess vegna stingur ríkisstj. upp á því við Alþ., að það veiti henni lánsheimild, allt að 120 millj. kr., til þessara þriggja fyrirtækja. Hins vegar þarf ekki á svo miklu fé að halda fram í október, það er ekki alveg sjáanlegt enn, á hvað miklu fé þarf að halda.

Það er til löggjöf frá 1949 um, að það megi ekki ráðstafa fé mótvirðissjóðs nema með lagaheimild. Því er nauðsynlegt, að málið fái þinglega meðferð og líka fáist heimild fyrir því, sem þarf að gera á milli þinga, og þess vegna er þetta gert fyrir sig fram. Ég vil taka það fram, að ætlun ríkisstj. var að sækja um það, að 50 millj. af fé mótvirðissjóðs yrði notað til að greiða niður ríkisskuldir, en umsókn um það hefur ekki verið send enn þá, en málið er í athugun. Vil ég taka það fram strax, að það getur verið, að ég muni leggja fram brtt. við þetta mál um það að fá slíka heimild inn í þetta frv., og mun það verða ákveðið nánar í dag eða á morgun, hvort það verður gert. Mótvirðissjóður var 127 millj., þegar skýrsla var gefin um fjáreignina 1950. Hann fer vaxandi daglega, en ég get ekki gefið hv. þm. áætlun um það, hvað hann muni verða á þessu ári, en hann mun vaxa verulega á árinu, því að ekki er búið að nota nærri því allt framlagið frá því í fyrra, og svo er framlag yfirstandandi Marshallláns, sem mun koma inn á þessu ári.

Þetta mál er flutt af nefnd, og ég sting ekki upp á, að því verði vísað til nefndar.