02.03.1951
Neðri deild: 77. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1331 í B-deild Alþingistíðinda. (2758)

192. mál, mótvirðissjóður

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Hér er um að ræða mjög merkilegt mál, og það getur reynzt býsna afdrifaríkt, hvernig haldið verður á framkvæmd þess. Hæstv. fjmrh. sagði, að sótt hefði verið um það til þeirrar stofnunar, sem um þetta á að fjalla, að ríkisstj. yrði heimilað að ráðstafa öllum mótvirðissjóði, en svar væri ekki komið. Ég vil leyfa mér að vekja athygli á því, að ef þannig yrði að farið, þ.e.a.s. að 120 millj. af fé mótvirðissjóðs verði varið til framkvæmda innan lands, þá er um að ræða stefnubreytingu frá því, sem boðað var, þegar Ísland gerðist aðili að Marshallsamstarfínu, og frá því, sem haldið hefur verið fram af hálfu ríkisstjórnar og þjóðbanka til skamms tíma. Þegar Ísland gerðist aðili að Marshallsamstarfinu, þá var þeirri stefnu lýst af hálfu þeirra, sem með fjármálin fóru, að mjög verulegan hluta mótvirðissjóðs ætti að nota til þess að greiða ríkisskuldir, og því var þá lýst yfir af hálfu sérfræðinga, sem voru hér á vegum Marshallstofnunarinnar, að það væri þeirra skoðun, að fé mótvirðissjóðs ætti að nota allt til að greiða niður ríkisskuldir; ástandið í fjárhagsmálum Íslendinga væri þannig, að ekki væri verjandi að nota þetta fé að neinu verulegu leyti til framkvæmda innanlands. Nú hefur hæstv. fjmrh. skýrt frá því, að von sé á samþykki Marshallstofnunarinnar á þessari ráðstöfun fjárins, og er í sjálfu sér ekki nema gott um það að segja, að ríkisstj. hafi heimild til þess að gera það, sem henni sýnist í þessu máli, en þá ríður á því, að ríkisstj. geri það, sem skynsamlegt er og rétt. En ég leyfi mér að draga í efa, að það sé skynsamleg fjármálastefna að nota mestan hluta mótvirðissjóðsins, eins og hann nú er orðinn, til þess að kosta innlendar framkvæmdir, en fjmrh. sagði, að hann mundi ef til vill leggja fram till. um að nota 50 millj. til þess að greiða niður ríkisskuldir.

Það er og annað, sem mig langar til að spyrja hæstv. fjmrh. um, og það er, hvort ríkisstj. hafi haft samráð við Landsbankann um það að kosta þessar framkvæmdir á þennan hátt, og enn fremur hvort þeir sérfræðingar, sem ríkisstj. hefur einkum stuðzt við í álitsgerðum á undanförnum árum séu einnig sammála þeirri stefnu, sem hér um ræðir. Öllum má vera ljóst, að fé mótvirðissjóðs er nokkuð sérstaks eðlis. Með því skapast ekki aðstaða til þess að hrinda í framkvæmd öllum þeim hugsanlegum fyrirtækjum, sem menn telja æskilegt að framkvæma, eins og virtist vera skoðun hv. þm. Borgf. (PO). Þegar fé mótvirðissjóðs er varið til að greiða kostnað innlendra framkvæmda, þá er það að ýmsu leyti svipað og um væri að ræða beinar lánveitingar af hálfu bankanna.

Hvort fjárhagskerfið þolir slíka ráðstöfun á fé mótvirðissjóðs, er undir líkum atriðum komið og það mundi þola auknar lánveitingar bankanna. Mér kemur það nokkuð á óvart, ef ríkisstj. er þeirrar skoðunar, að ástandið í fjármálum þjóðarinnar hafi breytzt svo undanfarið, að fjárhagskerfið mundi þola 120 millj. kr. ráðstöfun á fé mótvirðissjóðs eða 120 millj. kr. aukin útlán bankanna. Mér er sérstök forvitni á að vita, hvort sú stefna, sem fram kemur í þessu, er stefna þjóðbankans og þeirra sérfræðinga, sem ríkisstj. undanfarið hefur haft við hlið sér. Ég óttast mjög, að þessi stefna leiði til aukinnar verðbólgu, og hvort hún gerir það eða ekki, verður undir því komið, hvaða ráðstafanir eru gerðar samhliða þessum mikilvægu ráðstöfunum. Þess vegna saknaði ég þess, að hæstv. fjmrh. skyldi ekkert geta um það í ræðu sinni, hvaða fyrirætlanir ríkisstj. hefði á prjónunum um aðrar ráðstafanir í fjárhagsmálum, því að undir því eru afleiðingar þessara lagasetninga komnar. Þess vegna væri æskilegt að heyra eitthvað um það frá hæstv. ríkisstj., a.m.k. við síðari umr. þessa máls.