02.03.1951
Neðri deild: 77. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1337 í B-deild Alþingistíðinda. (2762)

192. mál, mótvirðissjóður

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það er nokkuð til í þessum síðustu orðum hv. 3. landsk. (GÞG) um það, að erfitt sé að átta sig á, af þeim upplýsingum, sem fyrir hendi eru, hvaða afleiðingar þessi ráðstöfun á fé mótvirðissjóðs hefur. Það má því segja, að þegar stj. leggur fram svona frv., þá sé erfitt að samþ. það fyrir aðra en þá, sem standa að stjórninni. Það er því hætt við, að stjórnarandstaðan muni ekki samþ. að gefa stj. þessa heimild, og við því er ekkert að segja.

Hv. 3. landsk. ræddi hér um hættu af verðbólgu, og lít ég á það tal sem varnaðarorð frá hans hálfu, enda kom það fram í ræðu hans. Það getur verið, að þetta valdi verðbólgu, og getur verið ekki. Og mér finnst undarlegt af hv. þm. að segja, að ég beiti mér fyrir aukinni verðbólgu, sem ég hef alltaf verið á móti. Ég vil engan þátt eiga í aukinni verðbólgu, og ég vona, að hv. 3. landsk. þm. geri sér grein fyrir því, að ef mótvirðissjóður er ákaflega stór, þá veldur það óeðlilegum samdrætti í atvinnulífinu. Það er því ekki hægt að hafa mjög stóran mótvirðissjóð og hafa samt eðlilega fjármálastjórn, og ef svo er, veldur það samdrætti og atvinnuleysi með þjóðinni. Þess vegna er það stefna okkar að lána út úr sjóðnum, og þeir, sem samþ. slíka heimild, gera það í trausti þess, að ríkisstj. hagi þessu þannig, að það verði ekki að tjóni.

Ég vil svo taka fram út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, að í fyrsta lagi er ekki gert ráð fyrir því, að þessar 120 millj. kr. fari allar út fyrir næsta þing, og í öðru lagi þá hef ég ekki sundurliðaða áætlun um þetta og þetta er allt flokkað niður, og væri hv. þm. jafnnær og við báðir, þó að við hefðum þennan eina lið, enda ekki kostur á að gefa slíkar upplýsingar að svo stöddu. Menn verða því að taka afstöðu til málsins eins og það liggur nú fyrir, en það er ekki hægt að gefa meiri upplýsingar um málið nú, þó að það væri æskilegt. Ég skal viðurkenna, að það er erfitt fyrir hv. þm. að átta sig til fulls á málinu án frekari upplýsinga. Ég skal játa það, en kerfi okkar er ekki fullkomnara enn sem komið er, en það þarf að batna. Það er stefna ríkisstj. að beita sér fyrir því, að sá háttur verði á hafður, að fé það, sem tekið verður að láni úr mótvirðissjóði, verði ekki notað sem eyðslufé, heldur verði það bundið í ýmsum fyrirtækjum, og geri ég ráð fyrir, að ríkisstj. hafi tilbúnar till. um það fyrir næsta þing.

Út af því, sem hv. þm. Borgf. (PO) sagði, vil ég taka það fram, að þessi þrjú fyrirtæki hvíla nú svo þungt á mótvirðissjóði, að ekki mun vera hægt að lána meira úr honum í bili.

Ég vil að lokum taka það fram, af því að ég held, að það hafi verið misskilið, sem ég sagði um það efni, að ekki er búið að sækja um leyfi til Efnahagssamvinnustofnunarinnar í Washington á ráðstöfun á meira fé úr mótvirðissjóði en 15 millj. kr., svo að hér er um að ræða samþykkt fram fyrir sig, og þetta er samþykki Alþ. á þessu fyrir sitt leyti, og er málinu nú ekki lengra komið enn þá, og mun ég gera nánari grein fyrir því í næstu umræðu.