03.03.1951
Efri deild: 82. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1340 í B-deild Alþingistíðinda. (2773)

192. mál, mótvirðissjóður

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er komið frá Nd. Eins og um getur í grg. frv., er það samkomulag í ríkisstj. á milli þeirra flokka, sem að henni standa, að þingmeirihlutinn vinni að því, að verulegt fjármagn verði lánað úr mótvirðissjóði til Sogs- og Laxárvirkjana og Áburðarverksmiðjunnar h.f., og hefur það verið hugsað þannig, að lán úr mótvirðissjóði ásamt Marshalllánum verði hlutfallslega jafnhá til þessara þriggja fyrirtækja, miðað við stofnkostnað. Nú þarf samþykki þeirra, sem hafa lagt féð til í mótvirðissjóð, til þess að ráðstafa honum, og einnig þarf samþykki Alþ. til þess, sbr. 3. gr. laga nr. 47 frá 1949. Það var áður orðið mjög aðkallandi að útvega lán til Sogs- og Laxárvirkjana, og höfum við því sótt um 15 millj. kr. lán til Marshallstofnunarinnar. Fregnir hafa borizt um, að sú umsókn hafi verið samþ., en enn hefur ekki verið gengið formlega frá þeirri ákvörðun, en gera má ráð fyrir, að það verði næstu daga. Þessar 15 millj. voru miðaðar við tímann fram að 1. jan., en á þessu ári þarf mikið fé til þessara fyrirtækja. Nú er ráðgert, að þingið ljúki störfum innan skamms og komi ekki saman aftur fyrr en í október, og því hefur stj. lagt þetta frv. fram nú, þar sem hún mælist til, að þingið veiti henni heimild til að verja fé úr mótvirðissjóði til þessara fyrirtækja. Þessi fjárupphæð, 120 millj. kr., er ríflega tiltekin, miðað við það, sem þyrfti á næstunni, en hún er þó langt í frá að vera nóg til þess að fullgera þessar stofnanir. Áætlaður stofnkostnaður þeirra mun vera um 300 millj. kr., og því er augljóst, að meira fé en þetta, sem hér er farið fram á heimild til að verja, þyrfti til þessara stofnana, þótt allar vonir um aðra fjáröflun rættust. — Ég get ekkert um það sagt að sinni, hvernig þessi fjárupphæð mundi skiptast á milli fyrirtækjanna, því að það verður að ákveðast á hverjum tíma eftir því, sem fjárþörf fyrirtækjanna segir til sín, en þessi leið er fullkomlega innan þess ramma, sem stj. hafði hugsað sér að vinna að.

Þá er þess einnig að geta, að hér er líka borin fram till. um, að ríkisstj. verði heimilað að verja allt að 50 millj. kr. úr mótvirðissjóði til greiðslu á skuldum ríkissjóðs við Landsbankann. Stjórnin tók ákvörðun um það fyrir nokkuð löngu síðan að vinna að því, að þetta gæti orðið. Hún hefur þó ekki gert beinlínis till. um þetta til Marshallstofnunarinnar, en hefur þó rætt um þetta við fulltrúa hennar hér. Þykir því stjórninni rétt að leita heimildar til þessa nú. Ef þessi heimild fengist, þá yrði reynt að taka af því fé, sem hefur safnazt á árinu 1950, svo að það fé, sem mundi koma hér eftir, yrði ekki bundið. En þetta mál er sem sagt á því stigi, að stj. taldi rétt að afla þessarar heimildar. — Einhver vildi nú máske spyrja, hvað þessi mótvirðissjóður væri stór. Því er til að svara, að í dag mun hann vera 130–140 millj. kr., og sennilega á hann eftir að verða meira en tvisvar sinnum stærri, þótt ekki sé hægt að segja neitt um það með vissu. Það er ekki heldur hægt að segja með neinni vissu um það, hve mikilla útlána megi vænta úr sjóðnum. Það fer að sjálfsögðu eftir því, hvernig tekst með fjármálin í heild. Ef það verða mistök með fjárlög eða útlánastarfsemi bankanna dregst óeðlilega saman eða fjárfesting verður of mikil, þá þýðir það, að hærri fjárupphæðir úr mótvirðissjóði festast. Gæti það þá orðið til þess, að við lentum í vandræði með þessi stóru fyrirtæki, sem nú á að fara að reisa. Þetta er ein ástæðan fyrir því, að ríkisstj. hefur nú lagt mikið kapp á að ganga vel frá fjárl., þannig að greiðslujöfnuður náist.

Að lokum legg ég svo til, að þessu máli verði vísað til hv. fjhn. að lokinni umr.