05.03.1951
Efri deild: 83. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í B-deild Alþingistíðinda. (2776)

192. mál, mótvirðissjóður

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur athugað þetta frv. á fundi sínum í dag. Á fundinum mættu 4 nm., og lögðu þeir eindregið með því, að frv. yrði samþ., og hv. 1. landsk. (BrB), sem ekki var viðstaddur á fundinum, hefur tjáð mér, að hann í höfuðatriðum sé ekki mótfallinn frv.

Í frv. því, sem hér liggur fyrir, er gengið inn á að lána fé úr mótvirðissjóði til hinna nauðsynlegustu fyrirtækja, eins og virkjana, bæði Sogs- og Laxárvirkjunarinnar, og áburðarverksmiðjunnar. Munu ekki vera deildar skoðanir um það, að sjálfsagt sé að styðja að því, að þær framkvæmdir nái fram að ganga. Frekar munu geta verið skiptar skoðanir um hitt, hvort taka eigi þetta fé til þess að borga ríkisskuldir, en meiri hl. nm. var ákveðið með því að gera það. N. leggur sem sagt til, að frv. þetta verði samþ., og geri ég ráð fyrir, að ekki þurfi langar umr. um það atriði nú.