09.11.1950
Neðri deild: 18. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1343 í B-deild Alþingistíðinda. (2783)

76. mál, áfengislög

Flm. (Pétur Ottesen):

Eitt af þeim mörgu vandamálum, sem við horfumst hér í augu við í sambandi við hina miklu vínneyzlu hér í landinu, er það, hversu það hefur mjög færzt í vöxt, að óleyfileg vínsala hefur farið fram í leigubifreiðum. Það hefur nú um alllangt skeið borið mjög mikið á því og í vaxandi mæli nú upp á síðkastið, að bifreiðarstjórar leigubifreiða leggi þetta fyrir sig sem nokkurs konar atvinnuveg, þ.e.a.s. að kaupa áfengi í Áfengisverzlun ríkisins, safna saman miklum birgðum í bifreiðunum og selja þetta svo víðs vegar um landið. Mér er sagt, að það sé orðið mjög algengt, að við skemmtistaði hér í bænum að næturlagi, eftir að Áfengisverzlun ríkisins hefur verið lokað, bíði bílaraðir þar í námunda við með sínar miklu birgðir og mikil áfengiskaup fari þannig fram. Það er einnig alkunnugt, að þeir bifreiðarstjórar, sem þennan atvinnuveg stunda, neyta hvers færis, sem gefst, til þess að reka þessa verzlun á skemmtistöðum víða úti um landsbyggðina, og hópast þeir þar saman, sem þeir heyra auglýst, að fara eigi fram skemmtun, og bíða þar færis. Þetta er orðin svo mikil plága víða úti um landsbyggðina, að á samkomum, sem stofnað er til í skemmtunarskyni, verður mjög mikill drykkjuskapur, og allur sá skemmtibragur, sem ætlazt er til, að hvíli yfir þessum samkvæmum, hverfur alveg í skuggann fyrir áflogum og hvers konar óreiðu. Þetta er þess vegna sú höfuðplága, sem ekki verður lengur við unað án þess að gera ráðstafanir til, eftir því sem fært er, að slá eitthvað á þetta. Að vísu er það svo samkv. núgildandi lögum, að ef þessir menn verða uppvísir að óleyfilegri áfengissölu, má vitanlega draga þá fyrir lög og dóm og gera þá ábyrga fyrir sínum afbrotum, en þetta verður ekki gert nema því aðeins, að mennirnir verði staðnir að því að hafa selt vín ólöglega, en í mörgum tilfellum fer þarna saman ásóknin í það að fá vínið og sú hagnaðarvon, sem felst í því fyrir seljandann að koma víninu út. Er því leitað allra bragða til þess að fara laumulega með þetta, og er þess vegna ekki hægt að komast nema örskammt eftir þeim leiðum, sem nú eru lögleyfðar, til þess að slá á þennan hættulega ófögnuð. Hér er þess vegna lagt til í þessu frv., að bifreiðarstjórum á leigubifreiðum og eigendum þeirra sé bannað með öllu að hafa nokkurt vín eða geyma nokkurt vin í bifreiðunum, og jafnframt er löggæzlumönnum heimilað að rannsaka bifreiðarnar, þegar þeim þykir ástæða til, til þess að komast að, hvort þessu máli, ef að lögum yrði, er hlýtt eða ekki. Þetta er auðvitað mjög mikill aðstöðumunur fyrir lögregluna, að komast fyrir slík afbrot á þennan hátt eða eftir þeim leiðum, sem heimilaðar eru í núgildandi löggjöf um þetta efni. — Jafnframt eru í þessu frv. sektarákvæði allverulega hækkuð frá því, sem nú er í l., og kveðið á um það, að það áfengi, sem ólöglega er geymt í bifreiðunum, skuli gert upptækt.

Ég vildi þess vegna mega vænta þess, að hæstv. Alþ. vildi leggja því lið að slá á þennan ófögnuð, sem hér á sér stað, því að það er alkunnugt, að mikill fjöldi manna og þá ekki hvað sízt hin uppvaxandi æska liggur mjög flöt fyrir þeim tálsnörum, sem lagðar eru fyrir hana með þeirri óleyfilegu sölu áfengis, sem nú á sér stað. Vildi ég því mega vænta þess, að Alþ. vildi leggja því lið, að sú breyt. næði fram að ganga, sem í þessu frv. felst, því að með því móti mætti vissulega þess vænta, að slegið væri að verulegu leyti á þennan ófögnuð. — Að lokinni þessari umr. vænti ég, að þessu máli verði vísað til hv. allshn., því að þar mun það eiga heima, ætla ég.