11.01.1951
Neðri deild: 47. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1344 í B-deild Alþingistíðinda. (2785)

76. mál, áfengislög

Frsm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Allshn. hefur athugað þetta frv. gaumgæfilega og sent það á meðan á athuguninni stóð til umsagnar lögreglustjóra og sakadómara, sem manna mest fjalla um framkvæmd þeirra mála, er það um ræðir. Flm. gera grein fyrir aðaltilgangi frv. í þskj., en hann er að bæta úr því vandræðaástandi, sem viðgengizt hefur að almannavitorði og fer í vöxt, að svo og svo mikil ólögleg áfengissala fer fram í bifreiðum í landinu, ekki sízt við samkomustaði úti um sveitir, þar sem mannfagnaði er oft stórlega spillt af þeim sökum. — Allir nm. voru sammála hv. flm. um það, að hér væri um slíkt ófremdarástand að ræða, að nauðsyn bæri til að bæta þar úr. Enn fremur fellst n. á það, að með breytingum á áfengislöggjöfinni muni verða unnt að bæta þar verulega úr. Hins vegar taldi n., að nokkurra breytinga væri þörf á frv. eins og það liggur fyrir.

Samkv. frv. er það út af fyrir sig gert að saknæmu athæfi að geyma áfengi í leigubifreiðum, og telja hv. flm. svo mikla áhættu samfara því, að fyrir það verði að girða með ströngum ákvæðum. Varðandi þetta hefur n. borizt ,erindi frá bifreiðastjórafélaginu Hreyfli, þar sem m.a. er bent á, að með þessu sé of nærri gengið bifreiðarstjórum almennt, að leggja hálfpartinn á þeirra herðar þá skyldu að ábyrgjast það, að farþegar þeirra hafi ekki áfengi meðferðis. Í erindi þessu segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Í frv. yðar er gert ráð fyrir því, að leigubifreiðarstjórar beri ábyrgð á meðferð farþega á áfengi, svo og að þeim sé skylt að færa sönnur á, hvernig farþegar hafa komizt yfir áfengi, sem þeir kunna að hafa undir höndum í leigubifreiðum. Þetta ákvæði teljum vér alveg fráleitt, í fyrsta lagi vegna þess, að vér teljum þetta ákvæði andstætt almennum og viðurkenndum réttarfarsreglum, og í öðru lagi vegna þess, að með þessu eru bifreiðarstjórum lagðar á herðar skyldur um almenna löggæzlu, sem mundi jafngilda því að banna almenningi notkun leigubifreiða. Því ekki er hægt að gera ráð fyrir því, að viðskiptamenn vorir mundu almennt sætta sig við það, að leitað yrði á þeim, þegar þeir taka bifreið á leigu. En á annan hátt geta bifreiðarstjórar ekki uppfyllt ákvæði þessi.“

Þannig líta bifreiðarstjórar á þetta mál. Að mínu áliti er það nokkuð þröngur skilningur, sem fram kemur í þessu. En að hinu leytinu er það staðreynd, að það er nokkuð langt gengið að gera það að saknæmu athæfi að geyma og flytja áfengi í bifreiðum eins og frv. gerir ráð fyrir, með tveimur undantekningum þó: í fyrsta lagi þegar um er að ræða áfengi, sem farþegi hefur keypt í áfengisverzlun ríkisins og flytur með sér til heimilis síns eða dvalarstaðar, og í öðru lagi áfengissendingar frá ríkisverzluninni. Þessi flutningur er ekki saknæmur, enda séu færðar sönnur á, að um slíkan flutning sé að ræða. — Enda þótt telja megi skilning bifreiðarstjóranna nokkuð þröngan, þá eru nm. sammála um það, að erfitt muni verða að framkvæma þessi ströngu ákvæði 1. gr. eins og þau eru, og þannig hætt við, að þau næðu ekki heldur tilætluðum árangri. Þannig tekur flutningabannið aðeins til bifreiða, sem notaðar eru til mannflutninga gegn borgun. Í erindi bifreiðarstjórafélagsins Hreyfils er bent á, að ýmsir aðrir en leigubílstjórar séu sekir um ólöglega áfengissölu, eins og t.d. menn, sem hafa verið sviptir ökuréttindum og hafa þá gripið til þessa óyndisúrræðis. Þar er bent á, að réttara væri að hafa ákvæðin almenn, og á það hafa nm. fallizt og vænta þess, að hv. flm. geti einnig goldið því samþykki. Sakadómari og lögreglustjóri gerðu n. grein fyrir niðurstöðum sínum, er þeir höfðu komizt að og voru að ýmsu leyti hliðstæðar áliti n., og féllst hún á till. þeirra í aðalatriðum, eins og fram kemur á þskj. 373. Þar er fyrst og fremst gert ráð fyrir, að 1. gr. verði umorðuð þannig, að í stað þess að gera flutning áfengis saknæman út af fyrir sig, verði tekin upp ákvæði, sem geri það mjög torvelt að stunda óleyfilega sölu þess. Er þar um að ræða breytingu á 16. gr., sem fjallar um ólöglega sölu áfengis. En þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Láti nokkur viðgangast ólöglegan tilbúning áfengis, ólöglega sölu eða geymslu þess í húsum sínum eða á landi sínu, skal hann sekur samkv. 36. gr. Sama refsing liggur við, ef skip, bátar eða flutningatæki eru með vitund og vilja eigandans notuð til geymslu, flutnings eða sölu ólöglegs áfengis.“ — M.ö.o., samkv. gr. er heimilt að hefja lögreglurannsókn gegn þeim, sem staðinn er að broti á áfengislöggjöfinni, og að rannsaka skip, báta eða flutningatæki, þar sem geymt er ólöglegt áfengi, en hún mundi ekki gefa heimild til að hefja slíka rannsókn, þar sem um er að ræða flutning á löglegu áfengi í þeim tilgangi að selja það ólöglega. Því er lagt til af n., að við gr. bætist, með leyfi forseta: „Enn fremur er þeim heimilt að rannsaka, hvort bifreiðar hafi áfengi meðferðis, þó að það sé löglega keypt, enda liggi fyrir rökstuddur grunur um, að áfengið sé ætlað til ólöglegrar sölu.“ — Og önnur málsgr.: „Nú finnst áfengi í bifreið, og skal þá eiganda þess refsað sem hann væri sekur um óleyfilega áfengissölu, nema sannað sé, að áfengið sé ætlað til löglegra nota.“

Hvað ákvæði þessarar fyrri brtt. snertir, þá er það svo, að það er löngum erfitt að hafa hendur í hári þeirra, sem selja áfengi ólöglega. Segjum t.d., að á einhverri sveitaskemmtun væri löggæzlumönnum ljóst, að gestir í aðvífandi bifreið ætluðu að selja áfengi ólöglega. Þó þeir gerðu nú leit í bifreiðinni og fyndu þar áfengi, þá hefðu þeir samt ekki staðið neinn að ólöglegri áfengissölu þar með. En með þessum tveimur málsgr. er farið inn á þá braut að snúa sönnunarskyldunni við og leggja hana hinum ásakaða á herðar. Slíkt er auðvitað mjög varhugavert, en þó ekki einstætt í löggjöf. Í þessu tilfelli yrði það þá skylda bifreiðarstjórans að færa sönnur á, að áfengið væri með eðlilegum hætti í bifreiðina komið og ekki ætlað til sölu. Ef bifreiðarstjórinn væri t.d. að flytja það fyrir einhvern mann, sem hefði keypt það til samkvæmis- eða veizluhalds, þá gæti hann fært sönnur á sakleysi sitt. Hins vegar ef hann gæti ekki gert fyrir því neina slíka grein, yrði hann sekur fundinn. — Ég sagði, að þessi tilfærsla á sönnunarbyrðinni væri varhugaverð, og vitanlega má ekki fara inn á þá braut nema í undantekningartilfellum, þar sem líkt stendur á og hér, að ella er mjög örðugt að hafa hendur í hári hinna seku. Þannig hefur t.d. verið sett sambærilegt ákvæði inn í lögin um lax- og silungsveiði í 88. gr. Refsiákvæðin í 2. málsgr. hljóða þar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Nú hittist maður með veiðarfæri við veiðivatn annars manns fyrir utan venjulega vegi, og skal þá sekta hann sem hann væri sekur um ólöglega veiði, nema sannað sé, að hann hafi haft þar lögmætt erindi.“ — Í þessu tilfelli er slíkum manni þannig lögð á herðar sönnunarbyrðin fyrir sakleysi sínu, eins og gert er ráð fyrir varðandi bifreiðarstjórana í fyrri brtt. allshn.

Um 2. brtt. er það að segja, að hún er í samræmi við tilgang frv. og ákvæði 2. gr. og fjallar um breytingu á 36. gr. l., og held ég, að þar sé ekkert, sem máli skiptir, sem þörf sé að gera sérstaka grein fyrir.

Ég held þá, að ég hafi í aðalatriðum gert grein fyrir niðurstöðum n., og það er von hennar, að með þessu náist sá tilgangur, sem stefnt er að með flutningi þessa frv.