15.01.1951
Neðri deild: 49. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1350 í B-deild Alþingistíðinda. (2798)

76. mál, áfengislög

Finnur Jónsson:

Allshn. varð ekki sammála um þetta mál. Meiri hl. n. leggur á móti brtt. hv. þm. V-Húnv., en ég og hv. þm. Siglf. viljum samþykkja hana. Ég skal ekki draga í efa, að það er mikil þörf á endurskoðun áfengislöggjafarinnar í heild, og er sala áfengis komin út í öfgar. Svo er komið, að ekki er hægt að fá húsnæði til samkomuhalds, a.m.k. hér í bæ, nema að hafa jafnframt leyfi til að selja áfengi. Meira að segja íþróttafélögin hafa sölu áfengis á hendi sér til framdráttar. Þau verða að hafa áfengi um hönd á skemmtistöðum. Nú vita allir, hve illa fer saman áfengi og íþróttir. Það er orðið greinilegt hættumerki, þegar íþróttafélögin stunda áfengissölu. — Ég hygg, að vakað hafi fyrir hv. flm. þessarar brtt., að koma mætti í veg fyrir ósóma í sambandi við áfengissölu, og viljum við styðja hann í því. Það er alkunna, að þessi mál eru komin í óefni, svo að ekki er við unandi, og auðvitað þarf að endurskoða áfengislöggjöfina, en á meðan sú endurskoðun fer ekki fram, held ég, að rétt sé að fara þá leið, sem hv. þm. V-Húnv. leggur til, og mæli ég með því að till. verði samþ.