26.02.1951
Sameinað þing: 47. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1414 í B-deild Alþingistíðinda. (28)

Almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður)

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. „Og á þeim degi urðu þeir Heródes og Pílatus vinir“, stendur þar. Þann 14. marz 1950 sórust þeir Hermann Jónasson og Ólafur Thors í fóstbræðralag um að lækka verðgildi íslenzku krónunnar nálega um helming. Um það gátu þeir sameinazt, illu heilli. Þann dag mynduðu Framsókn og íhald nefnilega ríkisstj. þá, sem enn fer með völd. Þetta átti sér þann aðdraganda, að minnihlutastjórn sú sem Ólafur Thors kom á laggirnar í desember í fyrrahaust og hvorki naut hlutleysis né stuðnings nokkurs flokks og gat engu máli fram komið, varpaði þann 25. febr. 1950 fram frv. um gengislækkun. Óburðurinn átti þannig eins árs afmæli í gær, og var að engu minnzt.

Þann 1. marz var samþykkt vantraust á stjórn Ölafs Thors, og baðst hún lausnar daginn eftir. Þar með var hún úr sögunni við lítinn orðstír. Var nú ekki annað sýnna en að þetta íhaldsútsæði — gengislækkunin — mundi aldrei skjóta rótum, heldur visna og deyja. En þá fékk Ólafur Thors sjálfan búnaðarmálastjóra landsins, Steingrím Steinþórsson, hv. 1. þm. Skagf., og skógræktarmanninn Hermann Jónasson, hv. þm. Str., til þess að taka að sér að hlúa að íhaldsillgresinu og ala það upp, og hefur það verið þeirra aðalstarf og höfuðvegsemd síðan. Hefði bæði ég og margir fleiri getað unnt þeim góðu mönnum betra hlutskiptis.

Íhaldið fékk tögl og hagldir í hinni nýju ríkisstjórn. Það fer með utanríkismálin, með dómsmálin, með sjávarútvegsmálin, með landhelgismálin, með símamálin, með útvarpsmálin, með menntamálin, og siðast en ekki sízt fer íhaldið með verzlunar- og viðskiptamálin. Með því að Framsókn átti á að skipa íhaldssamari fjármálamanni en finnanlegur var innan íhaldsflokksins, þar sem Eysteinn Jónsson var, hlaut hann að sjálfsögðu sæti fjmrh., og var það íhaldinu útlátalaust, eins og á stóð, enda ekki líklegt til vinsælda að taka við tómum kassa eftir samfellda 11 ára forsjárlitla fjármálastjórn íhaldsmanna. Steingrímur búnaðarmálastjóri hlaut forsætið og Hermann landbúnaðarmálin, auk þess sem hann var settur sem eins konar tryggðarpantur og tengimerki í stjórnina af hendi Framsóknar. Stjórnin varð því, eins og sést af þessu, íhaldsstjórn á ábyrgð Framsóknar. Af því á Framsfl. áreiðanlega eftir að súpa seyðið, áður en lýkur, eins og aðrir frjálslyndir flokkar, sem gengið hafa til samstarfs með höfuðandstæðingi sínum, íhaldinu.

Eins og hv. 3. landsk., Gylfi Þ. Gíslason, sýndi rækilega fram á hér áðan, gekk Framsfl. til seinustu kosninga undir merki frjálslyndis og umbóta. Aumlegt húsnæðisástand fátæklinganna í höfuðborginni skyldi bætt, atvinnulífið stutt, dýrtíðinni haldið í skefjum, viðskiptamálum komið í heilbrigt horf og allri fjárplógsstarfsemi sagt stríð á hendur. Valkyrja flokksins, Rannveig Þorsteinsdóttir, hv. 8. þm. Reykv., gekk fram undir merki frjálslyndis í Rvík, en Hermann Jónasson bar gunnfána frjálslyndisins hátt á Ströndum, og voru lúðrar hans þeyttir um land allt. Felldi Hermann þar aðalmerkisbera forréttindaheildsalanna, sem frægt er orðið. — Því er ekki að neita, að margir treystu Hermanni Jónassyni sem traustum íhaldsandstæðingi, sem aldrei mundi ganga afturhaldi og heildsölum á hönd, og út á það traust fékk Framsókn mikið fylgi, bæði á Ströndum og víða um land, í sveitum og við sjó. En svo bregðast krosstré sem önnur tré.

Ég get ekki stillt mig um að rifja upp fyrir þjóðinni nokkra kafla úr áramótagrein, sem Hermann Jónasson ritaði í árslok 1948. Þar er hann á sömu bylgjulengd og á framboðsfundunum á Ströndum fyrir seinustu kosningar. Þar kennir hann þjóðinni með vídalínskum þrótti margt um eðli íhaldsins og varar við öllu samneyti við það. Í upphafi greinar sinnar spurði Hermann Jónasson: „Hvar ertu stödd, þjóð mín?“ Og nú spyr ég: „Hvar ert þú staddur nú, Hermann Jónasson?“

Næst kom svo greinarkafli, er Hermann gaf fyrirsögnina: „Heiðnaberg Sjálfstæðisflokksins.“ Þar segir frá vígslu Guðmundar góða í Drangey á þessa leið:

„En þegar á þeirri hættulegu vígslu stóð, kom grá og loðin loppa út úr berginu, hélt á sveðju og skar á sigtaugina. En Guðmund sakaði ekki, því að á einn þátt taugarinnar, sem var vígður, beit ekki eggjárn loppunnar. En Guðmundur fór um bergið og vígði það, svo að lokum varð hinn vondi andi að fara bónarveg til Guðmundar. „Einhvers staðar verða vondir að vera“, sagði hann við Guðmund, sem sá aumur á anda þessum og skildi honum eftir dálítinn skika í berginu, sem síðan er Heiðnaberg kallað. — „Mundi þessi sögn,“ hélt Hermann Jónasson áfram í áramótahugleiðingu sinni, „ekki vera líkingamál lífsreyndrar og gáfaðrar þjóðar? Mun þetta eigi vera íhaldsloppan, sem Jón Sigurðsson átti í höggi við, sú sem Skúli fógeti barðist gegn í gervi einokunarkaupmanna, loppan, sem reyndi að skera á líftaug samvinnu- og verkamannasamtakanna í byrjun og æ síðan með margbreytilegum bardagaaðferðum? — Þess vegna var samið við þann, sem loppuna og sveðjuna átti, um samstarf.“ Já, einmitt það. Og hver gerði nú það? „Og ýmsum virðist sem Sjálfstfl., íhaldsloppan í núverandi mynd, hafi í þessari viðureign fengið næstum allt bergið og gert það að sínu Heiðnabergi.“ Ekki er það síður sannmæli nú. — „Í hvert sinn sem átt hefur að gera umbætur viðvíkjandi verzlun, okri og braski, virðist mönnum sem loppan úr berginu komi í ljós og beri egg sveðjunnar að líftauginni.“ Jú, og því verður heldur lítið úr herferðinni gegn okri, braski og fjárplógsstarfsemi.

Í framhaldi af þessu sagði Hermann Jónasson: „Væri ekki réttara að leggja til baráttu við íhaldsloppuna, í stað þess að láta hana stjórna með því að ógna?“ Já, hvað finnst hæstv. landbrh. um það í dag? — „Sumir telja“, sagði Hermann Jónasson enn fremur, „að þjóðin þurfi að reyna hörmungar atvinnuleysis og fjárkreppu, til þess að vitkast, en ég hygg, að þeir, sem þannig hugsa, hafi ekki hugsað málið til enda.“ Þó bendir nú margt til þess, að þeir, sem trúa á nauðsyn hörmunga atvinnuleysis og fjárkreppu, ráði einmitt starfi og stefnu núv. hæstv. ríkisstj.

Síðan tjáði Hermann Jónasson trú sína á það, að það hefði verið hægt og sé enn mögulegt að fá þjóðina til þess að taka á sig byrðar viðreisnarinnar, ef byrðunum er aðeins jafnt skipt milli manna. „Misrétti þolir engin upplýst þjóð,“ sagði hann. Þessi seinustu orð Hermanns Jónassonar vil ég sérstaklega undirstrika nú og minna hæstv. ríkisstj. á þau. Misrétti þolir engin upplýst þjóð, en fólk sættir sig við sitt af hverju, aðeins ef byrðunum er réttlátlega skipt á herðar manna.

Í þessari umræddu snjöllu áramótahugleiðingu lét Hermann Jónasson líka í ljós sína skoðun á gengislækkun sem leið út úr ógöngunum og sagði í því sambandi:

„Þetta er hættuleg leið. Þetta eykur framleiðslukostnaðinn nokkuð og lækkar lífskjör fjölda manna, einkum verkamanna, fastlaunafólks og bænda, sem selja vörur sínar á innlendum markaði.

Til þess að koma í veg fyrir verðhækkanir og draga svo úr kjaraskerðingunni, að nokkur von sé til að ná samkomulagi við þær stéttir, sem mest verða fyrir henni, er ekki nema um eitt að ræða, en hað er að gerbreyta innflutningsverzluninni og viðskiptalífinu í heild með þjóðinni.“

Og væntanlega hefur sú eina leið þá verið farin nú? Er ekki svo, hæstv. landbrh.?

Að greinarlokum brýndi Hermann Jónasson það fyrir ungu kynslóðinni, sem innan stundar skyldi erfa landið, að á henni hvíldi — hvað rétt er — hin þyngsta skylda í því efni að sýna nú ótvírætt, hvað hún vilji og megni í baráttunni fyrir betra þjóðfélagi. Og svo sagði hann orðrétt:

„Sérstaklega er sú skylda rík, ef svo á að fara, að við, sem eldri erum margir, kiknum í hnjáliðunum.“

Já, vel á minnzt. Hefur nokkur kiknað í hnjáliðunum? Vissulega hefur þessi merkisberi fallið, og sá tími er upp runninn, að unga kynslóðin verður að taka upp merkið og halda því hátt á loft. Loppan úr Heiðnabergi íhaldsins hefur kippt Hermanni Jónassyni inn í bergið, og þar situr hann nú á milli aðalfulltrúa stórútgerðarvaldsins, Ólafs Thors sem ráðherra atvinnumála, og fulltrúa forréttindaheildsalanna, Björns Ólafssonar sem ráðherra verzlunar- og viðskiptamála. Og það, sem ömurlegast er: Hann virðist, eftir öllum sólarmerkjum að dæma, una vel hag sínum með þursum Heiðnabergs. Og eitt er víst, að nú hlær Eggert Kristjánsson heildsali og græðir meira en nokkru sinni.

Sögurnar um bergnám og umskiptinga í íslenzkum þjóðsögum eru ávallt harmsögur um manndóm, sem misfórst og komst illum öflum á vald. Þessi harmsaga er ekki rakin hér í auvirðilegu glettingaskyni við Hermann Jónasson, heldur af hinu, að hún er mesta harmsaga íslenzkra stjórnmála um áratugi, og svo er hitt, að það er meira en kominn tími til þess, að það hendi aldrei framar neinn þróttmikinn og frjálslyndan stjórnmálamann, og því síður neinn frjálslyndan umbótaflokk, að láta seiða sig inn í svarthamra íhaldsins.

Íslenzkir kjósendur! Ófarnað hverjum þeim, er þannig bregzt málstað hins vinnandi fólks! Þau eru enn í fullu gildi, kjörorð hins ágæta stjórnmálaforingja, Tryggva heitins Þórhallssonar: „Allt er betra en íhaldið!“

Um kommúnistana þarf ekki að ræða. Þeir hafa lifað sjálfa sig, og fólkið, sem þeim hefur fylgt, mun taka þátt í samhuga sókn verkafólks, sjómanna, iðnaðarmanna og bænda gegn afætustéttunum og afturhaldsöflum landsins.

Þó að eldhúsumræðan sé að þessu sinni slitin úr tengslum við afgreiðslu fjárl. og sé því nánast eins konar eftirmæli þeirra, þykir mér rétt að fara nokkrum orðum um afgreiðslu þeirra.

Fjárlögin fyrir árið 1951 voru að þessu sinni afgreidd fyrir jól, og ber út af fyrir sig að fagna því. En þó að það sé lofsvert, að fjárlög hafa að þessu sinni verið afgreidd í tæka tíð, þá ber mjög að harma það, að við afgreiðslu fjárl. var einmitt gengið fram hjá lausn þess vandamálsins, sem mest reið á, að leyst yrði fyrir áramót, en það var vandamál vélbátaflotans. Er það eitt ærinn áfellisdómur á hæstv. ríkisstj., og kemur þó margt fleira til, eins og brátt verður vikið að.

Ríkisstjórnir þær, sem með völd hafa farið á undanförnum árum, hafa allar haft þá ábyrgðartilfinningu til að bera gagnvart atvinnulífinu, að þær hafa knúið fram lagasetningu fyrir jól, til þess að fyrirbyggja stöðvun vélbátaflotans í byrjun vetrarvertíðar. En að þessu sinni var þetta ekki gert. Stjórnina skorti annað tveggja áræði eða ábyrgðartilfinningu, nema hvort tveggja hafi verið, og þess hefur þjóðin goldið með stöðvun vélbátaflotans og þar af leiðandi auknu atvinnuleysi og gjaldeyrisþurrð.

Ríkisstj. þóttist ætla að leggjast undir feld í jólafríinu og gaf í skyn, að þegar Alþ. kæmi saman aftur eftir áramót, mundi hún hafa á reiðum höndum úrræði til þess að tryggja rekstur vélbátaflotans. Þessu treystu þm., en stj. brást því trausti, eins og ávallt, þegar vanda hefur borið að höndum.

Alþ. kom saman þann 8. jan., og þá hafði hæstv. ríkisstj. engar tillögur fram að færa fyrir þingið til lausnar vandamálum vélbátaútgerðarinnar. Hún var jafnráðvillt og úrræðalaus og þegar þingi var frestað. Síðan þing kom aftur saman, hefur það rorrað aðgerðalítið og dútlað við afgreiðslu ýmissa hégómamála, sem engin þörf var á að ljúka á þessu þingi. Hvað dvaldi Orminn langa? Gat það verið, að Ólafur Tryggvason Jensen Thors, hæstv. sjútvmrh., sá hinn sami sem lofaði þjóðinni því í yfirlæti á stríðsárunum að ráða fram úr öllum vanda efnahagsmálanna með einu pennastriki, væri hugsi svo vikum skipti? Nei, það töldu menn, sem þekktu hann bezt, óhugsandi. Hér mundi verða beitt snjallræði og snarræði. Sennilega ekki einu sinni stungið niður penna, heldur yrði málið bara leyst með einföldu blýantsstriki.

Allur janúar leið og febrúar gekk í garð, og vélbátaflotinn lá bundinn í höfn. Menn biðu í óþreyju, eins og við Svoldur, og maður spurði mann: Hvað dvelur .... ? Kemur ekki Ólafur Tryggvason Thors senn með blýantsstrikið sitt? — Og nú fór að kvisast, að drættinum á lausn málsins ylli harðvítug hagsmunatogstreita um gjaldeyrisverðmæti þess væntanlega aflafengs, sem sjómennirnir bæru að landi, þegar vélbátaflotinn kæmist á veiðar. Hin hugsaða lausn væri sem sé sú, að útvegsmönnum hefði verið boðið að fá helming þess gjaldeyris, sem vélbátaflotinn framleiddi, til frjálsra umráða, til innkaupa á ákveðnum vörutegundum, sem undanþegnar yrðu öllu verðlagseftirliti og mætti því verðleggja og selja fyrir opnum tjöldum eins dýrt og mögulegt væri að koma þeim út, þ.e.a.s. á sams konar verði og svartamarkaðsbraskarar undanfarinna ára hafa haft á sínum varningi.

Þetta hafði verið tilkynnt Landssambandi íslenzkra útvegsmanna í sendibréfi undirrituðu af hæstv. sjútvmrh. og forsrh. 24. janúar, en auðvitað á bak við Alþ. og að því forspurðu. En þá hófst styrjöldin um óveidda fiskinn í sjónum. Kaupsýslumáttarvöld Sjálfstfl. risu upp og töldu sig eiga gjaldeyri hins óveidda afla. Þessi hlunnindi til útvegsmanna væru því frá þeim tekin, ekki frá sjómönnum, sei, sei, nei. Ef þessi spónn væri tekinn úr þeirra aski, yrði að tryggja kaupsýslunni a.m.k. 200 millj. kr. gjaldeyrisfúlgu til umráða, hvað sem það kostaði. Þá byrjaði baksið við að fá 200 millj. kr. erlent lán eða gjafafé sem fórnfæringu á altari heildsalanna, og hefur óvissan um það, hvort þessi skildingur fengist, tafið lausn málsins seinasta hálfan mánuðinn a.m.k. Baksið við að binda kaup verkalýðsins í janúar var forsenda fyrir bænarskránni um fórnarpeninginn handa heildsölunum. En enn þá brakaði samt í mátfarviðum braskaraflokksins, sem kennir sig við sjálfstæði þjóðarinnar. Hverjir meðal kaupsýslustéttanna skyldu sérstaklega fleyta rjómann af gjaldeyrisfúlgunni? Fyrst stóð glíman milli heildsala og smásala og stóð þá stutt sem vænta mátti. Auðvitað var smásölunum fórnað eins og alltaf áður, og síðan hafa þeir smátt og smátt verið að segja sig úr Verzlunarráði Íslands. — En þá hófst annar þáttur leiksins: hagsmunaglíman milli heildsalanna og forréttindaheildsalanna, sem orðið hafa sérstök stétt á undanförnum árum. Og nú mun þeirri glímu lokið, náttúrlega með sigri sérréttindaheildsalanna, því að nú í dag, þann 26. febr., taldi hæstv. ríkisstj. fyrst leyst úr flækjum málsins að mestu og flutti ófullkomna skýrslu um svokallaða lausn þess á morgunfundi á Alþingi. Vandamál vélbátaflotans hefur sem sé verið leyst sem gjaldeyris- og viðskiptamál braskara, en ekki sem hagsmunamál sjómanna og smáútvegsmanna. Þannig leysir þessi stjórn þau mál, sem atvinnulífið snerta. Mun þessi langdregna hagsmunaglíma heildsala og spekúlanta um óveiddan fiskinn í sjónum lengi þykja ótrúleg saga. Meðan á henni stóð, biðu vélbátar og fiskiðjuver ónotuð. Á meðan gengu sjómenn og verkamenn atvinnulausir. Á meðan hékk Alþingi aðgerðalaust yfir hégómamálum með ærnum kostnaði fyrir ríkissjóð. Og svo á þessi svokallaða dæmalausa úrlausn á vandamálum vélbátaútvegsins eftir allt saman ekki að koma undir atkvæði Alþingis. Það er þó á flestra vitorði, að til lausnar þess máls var þinginu frestað fyrir jólin og skyldi leysa það eftir áramót. — Nei, þetta er aðeins eitt af mörgum sýnishornum af ráðleysi ríkisstj. og sóun á ríkisfé.

Það, sem setur aðalsvip sinn á fjárlög ársins 1951. er þetta:

Allir útgjaldaliðir ríkisbáknsins hækka svo að milljónum skiptir. Framlög til verklegra framkvæmda lækka heldur að krónutölu og stórlækka þannig að verðgildi í framkvæmd vegna hækkaðrar dýrtíðar. Framlag til sjávarútvegsmála er t.d. lækkað meira en um helming (úr rúmum 8 millj. í 3,9 milli.), auk þess sem niðurgreiðslum sjávarafurða er hætt, en öllum sköttum, sem til þess voru á lagðir, er haldið og þeir hækkaðir með gengislækkuninni.

Þessi háttur á fjárlagaafgreiðslu á atvinnuleysistímum er alveg öfugur við stefnu Alþfl. Þegar einkareksturinn dregst saman, á einmitt að leggja fram aukið fé til verklegra framkvæmda, og sýnist liggja í augum uppi, að það sé rétt stefna.

Sparnaður sá, sem hæstv. fjmrh. lét drýgindalega yfir í haust, þegar hann lagði fjárlfrv. fram, er smákák eitt, og hefur orðið minna úr á borði en í orði. Sendiráðið í Moskva hefur að vísu verið lagt niður og sömuleiðis embætti flugvallarstjóra. Hins vegar er embættafjölgun meiri en fækkun þeirra. En sendiráðið í Osló var ekki lagt niður,

þótt það hefði verið margra ára baráttumál Framsóknar að hafa aðeins einn sendiherra á Norðurlöndum. Vissulega losnaði þó embættið — meira að segja tvö sendiherraembætti á Norðurlöndum. Og sendiherraembættið í Osló varð að verzlunarvörn, en ekki að langþráðri sparnaðarhugsjón, er kæmi til framkvæmda. Þar verður sendiherra hv. þm. Mýr., Bjarni bóndi Ásgeirsson á Reykjum, þó að hlutverkið verði aðallega fyrirgreiðsla um viðskiptamál sjávarútvegsins. Þar er um dálítið skrýtna vöruskiptaverzlun að ræða. — Embætti skattdómara hefur að vísu verið lagt niður á pappírnum, en skaftdómarinn mun verða á fullum launum og eftirlaunum, meðan hann lifir. Vinningurinn sýnist því aðeins vera sá, að skattsvikarar þurfi ekki einu sinni að eiga aðgerðalítinn dómara í skattsvikamálum yfir höfði sér. — Í sparnaðarskyni boðaði hæstv. fjmrh. sameiningu áfengisverzlunar og tóbakseinkasölu. — Hvað líður því máli? Enn þá er það að minnsta kosti ekki komið til framkvæmda.

Þá tilkynnti ráðherrann, að í október síðastliðnum byrjaði sérstök sérfræðileg athugun á starfskerfi ríkisins og vinnuaðferðum með sparnað fyrir augum. Ekki hef ég heyrt neitt um niðurstöðu þeirrar sérfræðirannsóknar, og enginn veit til þess, að hún hafi leitt til sparnaðar enn þá. Eða þykir mönnum það benda til sparnaðar í utanríkisþjónustunni, að einn af sendiherrum vorum hefur persónulega í laun og staðaruppbót 254 600 kr. (var 127.000), annar sendiherra 298 800 kr. og ein undirtylla í sendiráði 30 þús. í húsaleigupeninga á ári ofan á 117 000 króna laun (= 147 500)? — Nei, fjárlög ársins 1951 eru vissulega engin sparnaðarfjárlög, nema þá að því einu, er snertir stuðning við atvinnulífið og fjárveitingar til verklegra framkvæmda. Þar er skorið niður.

Fjármálaráðherrar íhaldsins á undanförnum árum hafa komizt fram með það að áætla tekjur fjárlaga tugum milljóna of lágt. Þetta sanna þeir tveir seinustu ríkisreikningar, sem nú liggja fyrir Alþ. til samþykktar, ríkisreikningarnir fyrir árin 1947 og 1948. Þó fáum við árlega fjáraukalög upp á 100 milljónir, og skuldir ríkissjóðs eru orðnar 327 millj. kr. Árið 1948 fóru tekjur ríkissjóðs rúmar 43 milljónir fram úr áætlun fjárlaga. Árið áður gerði þó betur, því að þá urðu reikningslegar tekjur 53 milliónum hærri en áætlað var á fjárlögum. — Og hver er nú tilgangurinn með slíkri tilhögun? Hann er aðallega tvíþættur:

1) Íhaldssamar ríkisstjórnir nota oft þá aðferð að áætla tekjur lægra en réttmætt er, beinlínis í þeim tilgangi að synja um fjárveitingar til umbótamála undir því yfirskini, að fé sé ekki fyrir hendi.

2) Með of lágri tekjuáætlun fær ríkisstjórn minna aðhald en skyldi frá Alþ. um nauðsynlegan sparnað, enda er fjárveitingavaldið með þessu að nokkru leyti dregið úr höndum þingsins og fært í hendur ráðherra miklu meira en æskilegt er.

Af þessu höfum við bitra reynslu frá undanförnum árum. Fjöldamargir gjaldaliðir fjárlaga hafa farið svo milljónum skiptir fram úr áætlun, óefað að nokkru leyti af því, að ráðherra vissi sig hafa upp á að hlaupa nokkra milljónatugi umfram áætlun tekjumegin á fjárlögum. Þessum viðsjárverða óvana hélt hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, að þessu sinni við afgreiðslu fjárl. Á þeim grundvelli, að fé væri ekki fyrir hendi, felldi hann og stjórnarliðið tillögur Alþfl. um að hækka framlög til verklegra framkvæmda. Einnig felldi stjórnarliðið að ætla síldveiðideild hlutatryggingasjóðs 6 milljónir til að geta greitt sjómönnum vangreiddar sjóveðskröfur þeirra frá tveimur seinustu síldarvertíðum samkv. skuldbindingum nýsettrar reglugerðar sjóðsins. Enn fremur var fellt að leggja fram 8 millj. kr. til niðurgreiðslu á kostnaðarliðum vélbátaútvegsins og að leggja fram 11/2 millj. kr. til atvinnuaukningar vegna aflabrests og atvinnuleysis á Vestfjörðum og Norðurlandi. Tillögur okkar voru samtals um 30 millj. kr. útgjaldahækkun, enda hefði margur vandi verið leystur með samþykkt þeirra. Sennilega hefði þá engin stöðvun vélbátaflotans átt sér stað, svo að dæmi sé nefnt. En till. voru allar stráfelldar með þeirri röksemd, að óforsvaranlegt væri að hækka tekjuáætlun fjárl. sem þessu næmi. Ég leiddi rök að því við 2. umr. fjárlaga, að óhætt væri að hækka tekjuáætlunina um a.m.k. 30–35 millj. kr. Nú eru viðhorf svo breytt, að auðséð er, að tekjurnar á þessu ári fara langt fram úr því, sem nokkurn óraði þá fyrir. Nú hefur hæstv. fjmrh. sjálfur upplýst, að þrír tekjuliðir fjárlaga á árinu 1950 hafi farið um 10 millj. fram úr áætlun. Þá er og þess að gæta, að þetta ár er fyrsta heila fjárhagsárið síðan gengislækkunin gekk í gildi, en við hana hækkuðu allir verðtollar stórlega. Enn kemur það til, að stórvirk atvinnutæki bætast þjóðinni á þessu ári, þar sem eru nýju togararnir, tíu talsins. Þá er vitað á árinu 1951 um mikinn innflutning vara til Sogsvirkjunar og Laxárvirkjunar og ef til vill áburðarverksmiðju, kannske fyrir allt að 100 millj. kr. Reyndar hefur nú flogið fyrir, því miður, að óvænlega horfi um peninga til áburðarverksmiðjunnar og geti svo farið, að hún verði aðeins kosningaloforð, einnig fyrir næstu kosningar.

Að síðustu er svo ógetið innflutningsins fyrir gjafaféð nýfengna, á annað hundrað milljónir, og verður þetta allt til að hækka stórkostlega verðtollinn, vörumagnstollinn og söluskattinn, sem eru stærstu tekjuliðir fjárlaga, að fráteknum blóðpeningum brennivínssölunnar og tóbaksins, sem árum saman hafa farið hátt á annan milljónatug fram úr áætlun.

Allt þetta sannar það, að þótt allar fyrr nefndar till. Alþfl. hefðu verið samþykktar til styrktar atvinnulífinu og þeim, sem höllustum fæti standa, hefði það vel verið hægt fyrir þá tolla og skatta, sem búið er að leggja á þjóðina, og án nokkurra hækkana. Nei, fjárlög þessa árs voru mótuð eftir argvítugustu íhaldskokkabókum, og á því fékkst engin leiðrétting í meðferð þeirra á Alþingi.

Réttasti mælikvarði á stjórnarstefnu er athugun á þessu tvennu: Hvernig vegnar atvinnulífinu? Hvernig vegnar fólkinu í landinu? Og hver eru svörin? Hver er dómurinn? Í stuttu máli: Atvinnulífið í örtröð — atvinnuleysi herjar hinar vinnandi stéttir. Skorturinn hefur haldið innreið sína á þúsundir heimila.

Hvernig hefur hæstv. stjórn staðið við fyrirheit gengislækkunarinnar? Sjómönnum var lofað 93 aura verði á fiski. Efndirnar urðu svik. Verkalýðnum var lofað stöðugri vinnu. Efndirnar urðu svik. Boðuð var 11–13% dýrtíðaraukning, sem að mestu skyldi þó upp bætt samkvæmt dýrtíðarvísitölu. Efndirnar urðu geipileg svik. Þannig er allur ferill hæstv. stjórnar, þótt leitt sé að segja það, óslitinn svikaferill.

Hvers á verkalýður landsins og verkalýðssamtökin þá að minnast úr samskiptum við hæstv. ríkisstj.? Eins er þar góðs að minnast, og skal það ekki undan dregið. Stjórnin hikaði við að fella, en felldi þó, till. á Alþ. um að heimila hækkun kaups upp í 9 kr. á tímann hjá þeim verkalýðsfélögum, sem við lægsta kaupið bjuggu. Jafnframt lýsti hún yfir, að hún mundi ganga til samninga við samtök verkamanna um þessa lagfæringu til kaupjöfnunar, og stóð við það. En að öðru leyti eiga alþýðusamtökin einskis góðs að minnast frá viðskiptum sínum við hæstv. ríkisstj. Þegar togarasjómenn áttu í deilu um kjör sín og hvíldartíma, lét hæstv. ríkisstj. átökin afskiptalaus. Hjartað var hjá útgerðarmönnum. Þjóðin tapaði. Ef ríkisstj. hefði gefið út brbl. um 12 stunda hvíld á togurunum, hefði auðveldlega samizt um allt annað og deilan fengið skjóta lausn og farsæla. — Þegar að því kom, að vísitala júlímánaðar skyldi ákveða kaup verkamanna um 6 mánaða skeið, ætlaði hæstv. ríkisstj. að hagræða henni til kauplækkunar með brbl., en bognaði þó fyrir verkalýðssamtökunum og varð að afnema sín eigin brbl. með nýjum brbl. Mun það aldrei fyrr hafa hent nokkra ríkisstjórn.

Undir jólin hugðist hæstv. ríkisstj. binda kaupgjaldið í landinu við 123 stig og svíkjast þannig undan þeirri vísitöluhækkun, sem heitið var í gengisl. á miðju ári 1951. En þessi jólabakstur ríkisstj. brann við og ónýttist með öllu. Í janúar var enn brölt af stað með kaupbindingarlöggjöf, sem lækkaði þágildandi kaup samkvæmt frjálsum samningum um 5%. Þar með var ráðizt á samningafrelsið. Og við það situr nú, þar til verkalýðssamtökin ná nýjum samningum við atvinnurekendur. Nú er vísitalan orðin 130 stig, en kaupið greitt með 123 stigum. Sjö stig eru þegar vangreidd. Allar líkur benda til, að á fáum mánuðum fari vísitalan upp í 140–150 stig. Á því á verkalýður landsins engar bætur að fá, ef ríkisstj. má ráða. En hér mun hún ekki ráða úrslitum, góðu heilli. Verkalýðssamtökin knýja fram óbreytta samninga í apríl næstkomandi, fyrr getur það óvíða orðið, því miður. Sú lausn þýðir mánaðarlega vísitöluuppbót á kaunið, og er það alger lágmarkskrafa samtakanna. Að slíkt þýði kauphækkanir, eru höfuðósannindi. Væri vísitalan rétt, sem ekki er, þýddi þetta í hæsta lagi óbreytt kaup. Óbreytt kaup er lágmarkskrafa. Það er nú allt og sumt. Frá þessu verður ekki vikið um hársbreidd.

Þetta er ofur einfalt mál. Eins og hæstv. fjmrh. heimtar hækkandi tolla og skatta vegna aukinna útgjalda á ríkisbúinu og knýr það fram með lögum, eins krefjast verkamannaheimilin í landinu tekjuhækkana í samræmi við vaxandi útgjöld sín og knýja bað fram með frjálsum samningum. Eru þau og í ólíkt meiri kreppu en ríkissjóður og því ekki síður en honum vorkunnarmál. Stöðvi hæstv. ríkisstj. hins vegar dýrtíðina, stöðvast allar kaupgjaldshækkanir í krónutölu. Takist henni að lækka dýrtíðina, lækkar kaupíð jafnframt að krónutölu. Þetta á ríkisstj. því allt undir sjálfri sér. Henni bar að hafa forustuna fyrir lækkun dýrtíðar og þar með lækkandi kaupi. Og hvað vill hún þá meir?

Vaxandi dýrtíð að óbreyttu kaupi á seinni hluta seinasta árs gerir það að verkum, að verkalýðurinn vill engin eftirkaup eiga við hæstv. ríkisstjórn.

En versta tilræðið við lífsafkomu verkalýðsins mun þó blýantsstrikið svonefnda reynast. Það verður a.m.k. 50 milljóna skattur á þjóðina. Sá skattur verður greiddur í stórhækkuðu vöruverði. Og það, sem verst er: Sennilega lendir hann að mestu leyti í vösum milliliða og braskara. Getur vel svo farið, að sjómenn og félitlir útgerðarmenn fái hans lítil not. Og takið eftir því, sjómenn um land allt, að ekkert fiskverð hefur verið ákveðið með blýantsstrikinu. Slíkt aukaatriði er það talið í lausn málsins.

Um atvinnuástandið þarf ekki að fara mörgum orðum: Atvinnuleysi fyrir vestan, norðan, austan — og í sjálfri höfuðborginni. Og nú er svo komið, að sjálf stjórnarblöðin verða daglega að flytja fréttir af ömurlegu atvinnuleysi og sárasta skorti. Þægustu vikapiltar íhaldsins eru jafnvel hættir að þræta fyrir atvinnuleysið, eins og hv. þm. N-Ísf. (SB) gerði þó t.d. í haust.

Það verður ekki annað séð en að hæstv. ríkisstj. fari eftir þeirri meginreglu að ákveða fyrst ágóðahlut milliliða og braskara af framleiðslunni og leysi vandamálin út frá því sjónarmiði, en verkamenn, sjómenn og bændur eigi svo að sætta sig við afgangana. Þessari rangsnúnu reglu verður að snúa við. Fyrst verður að tryggja framleiðslustéttunum sómasamleg lífskjör fyrir erfiði sitt. Síðan verður að ráðast, hvaða afgangar verða eftir af verðmætum framleiðslunnar handa milliliðunum. Þá mundi þeim fækka, unz þeir yrðu við hæfi. Fyrr en þetta hefur gerzt, mun atvinnulíf Íslendinga aldrei standa með blóma. Og þetta gerist líka aldrei meðan íhaldið heldur að meira eða minna leyti um stjórnartaumana á Íslandi.

Hæstv. stjórn skortir vissulega líftaug góðra mála í sigfesti sína. Og hún hefur gleymt hinni gullnu lífsreglu Hermanns Jónassonar úr heiðnabergsgreininni frægu um að leggja byrðarnar réttlátlega á herðar þegnanna. Það er ógæfa stjórnarinnar.

Ég heiti á alla frjálslynda menn í landinu að hefja nú snarpa baráttu fyrir bættum lífskjörum framleiðslustéttanna í sveitum og við sjó. Og það góða stríð skulum við heyja innan verkalýðssamtakanna, í samvinnuhreyfingunni, undir forustu Alþýðuflokksins.