01.02.1951
Efri deild: 59. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1357 í B-deild Alþingistíðinda. (2812)

76. mál, áfengislög

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég er víst eini leigubílstjórinn, sem sæti á á Alþingi, og gæti því gjarnan verið í hópi þeirra manna, sem í grg. frv. eru bornir mjög þungum sökum. Þrátt fyrir það get ég þegar lýst því yfir, að ég mun verða með þessu frv. og greiða atkv. með því, þrátt fyrir þá annmarka, sem á því eru og allmikið hafa verið ræddir, einkum það atriðið, að í sumum tilfellum eigi menn, sem hafðir eru fyrir sök, að sanna sakleysi sitt, í stað þess að það er almenn venja, að það verður að sanna sakir á menn til þess, að hægt sé að dæma þá seka. Í trausti þess að þetta verði framkvæmt á þann hátt, sem hæstv. dómsmrh. sagði í ræðu sinni rétt áðan, þ.e.a.s. með gætni og að það verði ekki látið koma ranglega niður, mun ég ekki heldur setja þetta ákvæði fyrir mig, heldur greiða atkv. með því.

Það, sem olli því, að ég vildi taka til máls, var það, að ég álit helzt til sterkt að orði komizt í grg. frv., eins og það var flutt í upphafi í Nd., þar sem m.a. er sagt, að áfengissala í bifreiðum sé svo mikil, að til vandræða horfi. Ég skal ekki synja fyrir, að áfengissala í bifreiðum eigi sér stað, og ætla sízt að mæla þeim verzlunarháttum bót, en ég álít hins vegar, að slík sala hafi ekki farið í vöxt upp á síðkastið. Mér finnst bæði þetta o.fl. í frv. heldur vera ofmælt, t.d. að bifreiðarnar séu akandi, ólöglegar áfengisbúðir, að bifreiðar séu með birgðir áfengis kvöld og nætur fyrir framan skemmtistaði o.s.frv. Ég er alls ekki að segja, að þetta eigi sér ekki stað, en finnst, að það sé kveðið allt of fast að orði í grg. Mér finnst rétt, að það komi einnig fram í umræðunum, að langstærsta stöð leigubifreiða hér í bænum, þ.e.a.s. Hreyfill, leggur blátt bann við að þeir bifreiðarstjórar, sem þar starfa, hafi áfengi eða nokkuð annað óleyfilegt til sölu, og auglýsing um þetta hefur verið fest upp á stöðinni, og við liggur missir réttinda til þess að aka á stöðinni, ef þetta er brotið. Þetta er ekki aðeins pappírsgagn, heldur hefur það komið fyrir, að bifreiðarstjórar hafa verið sviptir stöðvarréttindum vegna þess, að þeir hafa verið uppvísir að slíkri sölu. Þannig er innan stéttarinnar sjálfrar reynt með ákveðnum aðgerðum að draga úr þessari ólöglegu sölu eins og í þeirra valdi stendur. Ég held, að árangurinn sé, að salan, þó að hún eigi sér stað enn að meira eða minna leyti, hafi frekar minnkað en aukizt.

Ég vil vænta þess, að verði þetta frv. samþ., þá muni það einnig miða að því að draga úr þessari ólöglegu sölu. Ég vil líka benda á það, að það er síður en svo, að ákvæðin í frv., sem einkum er beint gegn leigubifreiðarstjórum, séu nægileg til að koma í veg fyrir ólöglega áfengissölu. Ég vil benda hv. þm., hæstv. dómsmrh. og öðrum þeim, sem um þessi mál fjalla, á það, að ólögleg sala áfengis fer áreiðanlega víðar fram en í bifreiðum og í stærri stíl en þar er, en um slíkt eru engin ákvæði í frv. Ég hef orðið var við það í starfi mínu, að til eru í bænum margir staðir, sem menn fara til, þegar þá vantar áfengi og áfengisútsölur ríkisins eru ekki opnar. Og menn fara áreiðanlega ekki þangað erindisleysu. Ég held, að nauðsynlegt sé, þegar mál þetta er á döfinni og ráðstafanir eru gerðar til að draga úr ólöglegri sölu áfengis, að þessum stöðum sé ekki gleymt, eins og gert hefur verið í frv. og við alla meðferð málsins. Og það er víst, að á meðan ekki eru gerðar slíkar ráðstafanir, þá munu þessir staðir blómgast og því meira sem dregur úr sölu í bifreiðum, þeim mun meira verður leitað til þessara staða. Og niðurstaðan gæti orðið sú, að þó að dragi úr áfengissölu bifreiða, þá mundi salan í heild ekki minnka. Ég vil vekja athygli á því, sem ég sagði áðan um ráðstafanir þær, sem bifreiðastöðvarnar og bifreiðarstjórar hefðu gert til að reyna að hindra þessa áfengissölu. Ég vil einnig endurtaka það, sem ég sagði áðan, að ráðast verður gegn þessum ólöglegu sölustöðum ef árangur á að nást í þessum efnum, en um það eru engin ákvæði í frv. Ég hef enga till. gert um breyt. á frv., hvorki í þá átt né aðra, en ég vildi vekja athygli á því, sem ég hef nú rætt hér. Ég mun greiða atkv. með frv. og tel, að það stefni í rétta átt, það sem það nær, en ég tel, að það nái of skammt.