20.02.1951
Neðri deild: 72. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1375 í B-deild Alþingistíðinda. (2849)

76. mál, áfengislög

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og fram var tekið af hv. frsm. allshn., hefur hv. Ed. gert nokkra breyt. á frv., sem hv. allshn. vill nú breyta aftur í sama form og áður var. Mér virðist, að breyt., sem gerð hefur verið í hv. Ed., sé fram komin frá hæstv. dómsmrh., a.m.k. er hún samhljóða brtt. á þskj. 674, sem fram er borin af hæstv. dómsmrh. Nú vill n. breyta þessu í fyrra horf. — Ég er satt að segja í dálitlum vafa, hvort ástæða sé til að gera það. Mér finnst, að athuguðu máli, að það geti verið vafasamt að lögfesta frv. eins og hv. Nd. gekk frá því. Þá er lögð sú skylda á hvern mann, sem hefur vínflösku með sér í bifreið, að sanna, að hann hafi ætlað að drekka þetta sjálfur, eða kannske gefa einhverjum. Ég veit ekki, hvernig það gengi fyrir ýmsum að færa fullgildar sannanir fyrir, að þeir hafi ætlað að drekka þetta, en aldrei kæmi til mála að þeir seldu flöskuna. Þetta finnst mér dálítið vafasamt. Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta, en vil aðeins spyrja eins og sagt er, að eitt yfirvald hafi spurt: „Er þetta hægt, Matthías?“