20.02.1951
Neðri deild: 72. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1376 í B-deild Alþingistíðinda. (2851)

76. mál, áfengislög

Frsm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég vil aðeins minna á það, sem fram hefur komið í hv. deild áður, að allshn. hafði samráð við þá lögreglustjóra Reykjavíkur og sakadómara um þetta frv., og var þá breytt eftir tillögum þeirra, en þeir felldu sig báðir við það að snúa sönnunarbyrðinni við í þessu tilfelli. Enda þótt gagnrýna megi það á ýmsan hátt, þá held ég, að ástæðulaust sé að óttast misfellur í því tilliti. Það er fyrst og fremst ólögleg sala áfengis, sem ætlað er að koma í veg fyrir með frv., og þess vegna virðist rétt að hafa frv. í því formi, að sem beztur árangur náist í því tilliti. Sú breyt., sem nú er gerð á málinu, virðist auðvelda það, en okkur virtist hitt of afsleppt, að það nægi að færa sterkar líkur fyrir því, að vín sé ekki ætlað til sölu, og þess vegna leggur n. til, að frv. sé nú fært í það form, sem það áður var.

Ég er sammála hv. þm. Borgf. um það, að það muni talsvert miklu, hvor hátturinn er á hafður, þó ég vilji ekki kveða svo fast að sem hann, að frv. sé alveg gagnslaust í því formi, sem það kemur frá hv. Ed. En eitt er víst, þó munurinn virðist ekki mikill, að þá verður mikill munur á framkvæmd.

Menn tala um, að þetta sé undantekning á almennum reglum um réttarfar, en þetta er þó undantekning, sem fordæmi er fyrir, en ef sá háttur er á hafður, sem hv. Ed. leggur til, þá er það alveg dæmalaust í íslenzkri löggjöf.