20.02.1951
Neðri deild: 72. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1377 í B-deild Alþingistíðinda. (2852)

76. mál, áfengislög

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að fara að deila við hv. þm. Borgf. um þetta. En formælendur þessarar breyt. segja, að saklausir ferðamenn þurfi ekki að óttast, að lögin verði framkvæmd þannig, að þeir verði teknir og þeim refsað, þó þetta verði samþ. svona. Ég vil í þessu sambandi benda á, að orðanna hljóðan er ákveðin. Nú finnst áfengi í bifreið og þá á eftir frv. að sekta eiganda þess, nema hann sanni, að hann hafi ekki ætlað að selja það. Ég held því fram, að dæma eigi eftir lögunum eftir orðanna hljóðan. Eins og orðin hljóða, er hverjum gert að sanna, að hann hafi ekki ætlað áfengið til ólöglegra nota. En ég býst við, að það geti mörgum orðið erfitt, jafnvel þó saklaus sé. Ég tek ekki upp deilur um þetta, en það hafði farið fram hjá mér við fyrri umr. málsins hér í hv. deild. Ég átti þá brtt. um annað atriði, sem þá var felld, og greiddi því ekki atkv. um málið.