23.02.1951
Efri deild: 76. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1379 í B-deild Alþingistíðinda. (2858)

76. mál, áfengislög

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Það er alveg rétt, sem hv. þm. Barð. tók fram, að eiginlega er varla hægt að búast við, að nokkuð nýtt komi fram í þessu máli í þessari deild. Málið var rætt ýtarlega hér á dögunum. — Ég ætla ekki að halda langa ræðu og hefði getað fallið frá því eftir ræðu hæstv. dómsmrh. Þó get ég ekki verið sammála um, að enginn munur sé á, hvort frv. verði samþ. óbreytt eða ekki.

Hæstv. viðskmrh. talaði um, að það væri alvarlegt ástandið í þessum efnum, leynisala áfengis. Ég efa ekki, að þetta er rétt hjá honum, þó ég játi, að ég þekki ekki persónulega, hvort þetta er svo eða orðum aukið. Hæstv. viðskmrh. komst að þeirri niðurstöðu, að ekkert gagn væri í því, þó frv. væri samþ. með þeirri brtt., sem fyrir liggur. Ég get ekki fallizt á það. Ég skil ekki annað en löggjöfin geri mikið gagn, þó brtt. verði samþ. Þá eru lögin á þá leið, að taka má hverja bifreið, sem þykir grunsamleg, og athuga. Setjum svo, að það fyndist mikið áfengi í bifreið, sem er athuguð. Bifreiðarstjórinn situr í bifreiðinni, hann er á skemmtistað og á miklar birgðir af áfengi. Ég held, að hann geti ekki fært sterkar líkur fyrir, að hann ætli ekki að hafa á því óleyfilega sölu. Mér finnst það liggja í augum uppi, að maðurinn getur ekki ætlað að gera annað með áfengið. Það er annað með ferðamann, sem ætlar í langt ferðalag og verður langt frá útsölustað áfengis, þó hann taki með sér nokkrar flöskur. Eins og frv. er nú, á hann að sanna, að hann ætli áfengið ekki til sölu. — Ég hef heyrt sagt, að kunnur bindindismaður í Nd. hafi sagt: „Er þetta hægt, Matthías?“ Það er ómögulegt að sanna óorðinn hlut. Þannig álít ég vera töluverðan mun á hvað snertir frv. og brtt., sem fyrir liggur. Hæstv. viðskmrh. sagði, að ekki væri lagt of mikið á bifreiðarstjóra, þótt þeim væri ætlað að sanna, að þeir ætli ekki að selja áfengi. Bifreiðarstjórar eiga yfirleitt ekki að hafa áfengi í bifreiðum sínum; þeir mega ekki drekka við akstur. Ef ég man rétt, var frv., þegar það var lagt fram, miðað við bifreiðarstjóra, en nú á það við alla, sem í bifreiðum fara. — Mér virðist, að það sé þannig frá málinu gengið, að Alþingi geti ekki samþ. slíkt ákvæði sóma síns vegna, að menn eigi ekki aðeins að sanna sakleysi sitt af því, sem búið er, heldur einnig fram í tímann. Þetta finnst mér ekki ná nokkurri átt.

Hæstv. ráðh. sagði, að þótt það fyndust nokkrar flöskur í bíl, yrðu hlutaðeigandi menn ekki grunaðir um ólöglega sölu. Hver er kominn til að segja, hver er grunaður? Hver er kominn til að segja, hvað t.d. æstir bindindismenn geta gert? Jafnvel þótt dómari sýkni manninn, getur hann orðið fyrir miklum óþægindum af því að vera dreginn fyrir dóm, tafinn á ferð sinni o.fl.

Ég ætlaði ekki að tala mikið, en vegna þess að hæstv. viðskmrh. er viðstaddur, vildi ég sýna fleiri hliðar á því, að ekki er hægt að hafa löggjöfina eins og frv. er sent hingað. Þó lögreglan framkvæmi hana þannig, að hún verði hættulaus, má slíkt ekki standa í löggjöf. — Það er hætt við, að einn þdm. hefði verið dæmdur, ef rommflaska, sem hann var með í bílnum, hefði fundizt. Einmitt af því að maðurinn var bindindismaður og gat ekki drukkið úr henni sjálfur, var ekkert nær að halda en hann ætlaði að nota hana ólöglega.

(Viðskmrh.: Þetta hefði komið undir 1. málsgr.) Ekki hann sjálfur, en bifreiðin, og hæglega gátu aðrir verið í henni. Það er fyrir neðan allar hellur að setja þannig lög, að heiðarlegir bindindismenn geti verið dæmdir sem óleyfilegir salar áfengis. Vona ég, að deildin samþ. brtt.