23.02.1951
Efri deild: 76. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1384 í B-deild Alþingistíðinda. (2864)

76. mál, áfengislög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ef hægt væri að sanna mér, að frv. lenti í nokkurri hættu við að samþ. þær breyt., sem hér liggja fyrir, þá mundi það hafa áhrif á mína atkvgr., því að ég er fylgjandi frv. að meginstefnu til og lýsti því yfir við fyrri umr. málsins. Ég tel það orðalag, sem hér um ræðir, vera nánast réttara mál en er á frv. frá Nd., og þess vegna kysi ég það heldur, en ég tel, að það sé ekki efnismunur. Þess vegna, eins og ég sagði, mundi það hafa áhrif á mína atkvgr., ef hægt væri að sannfæra mig um, að frv. lenti í hættu með því að fara í Sþ. Það væri gaman að heyra, hvaða rök menn færa fyrir því. Það er greinilegt, að það er nógur tími, við sjáum það í hendi okkar, að þinginu verður aldrei slitið fyrr en á fimmtudag í fyrsta lagi, og það er þess vegna nógur tími til að athuga málið. Ég mundi greiða atkv. með frv., hvort orðalagið sem yrði ofan á, en það er rétt að athuga þessar tölur og sjá, hvað verður ofan á. (PZ: Það voru 15 með, en 11 á móti í Nd. ) Ég vil benda hv. þm. á, að það er hægt að bjarga málinu með því að samþ. óbreytta afstöðu Nd., og ég tel það enga frágangssök, mér finnst aðeins hitt orðalagið réttara, en það er ekki hægt að taka tölurnar eins og hv. 1. þm. N-M. gerði. En ef hv. þm. leggja svo mikið upp úr orðalaginu, að þeir ætla að vera á móti frv. þess vegna, hlýtur eitthvað annað að búa undir, sem ég skil ekki til hlítar, því að efnismunur er ekki sá, að hann gefi tilefni til slíkrar afstöðu.

Út af því, sem hv. þm. Barð. sagði, þá er aldrei fyrir það að synja, að í einstökum tilfellum getur það komið harkalega niður, að menn séu stöðvaðir á vegum úti, en ég vil þó fullyrða, að sá háttur að láta löggæzluna fá dómsvald í þeim minni háttar málum, sem þarna er um að ræða, hefur reynzt mjög vel. Ég er ósammála því, er hv. þm. sagði, að það hefði reynzt illa, ég hef ekki heyrt neina kvörtun um þetta fyrr en nú. Ef á annað borð á að framfylgja bifreiðalögunum, þá er mjög þægilegt, að farið geti fram dómur strax í héraði í öllum minni háttar málum. Það er miklu þægilegra en hitt, sem áður var. Nú var maður úr Reykjavík t.d. á ferð norður í Þingeyjarsýslu, hann er stöðvaður af bifreiðaeftirlitinu, og hann er á einhvern hátt ólöglegur, þá er fyrst send kæra til sýslumannsins í Þingeyjarsýslu, svo fer málið til sakadómara í Reykjavík, og endirinn varð oft sá, að ekkert varð úr málinu. Niðurstaðan var líka sú, að það var ekki hægt að framfylgja lögunum eins og ætlazt var til, en þar ber ekki að saka löggæzluna og dómgæzluna, heldur lögin sjálf. Það má segja, að það sé lítilfjörlegt atriði að hafa ekki með sér ökuskírteini. Það er þó til öryggis og handhægðar, ef slys ber að höndum, bæði fyrir manninn og löggæzluna. Það er svo mælt fyrir í lögum, að ökumenn hafi ökuskírteini sín með sér, en það er ekki nema örlítil sekt, sem bílstjóri á að greiða, ef hann hefur það ekki meðferðis, en ég hygg, að það sé ekki tilgangslaust, að gengið sé eftir, að sú sekt sé greidd, það er áminning um að hafa ökuskírteinið á sér næst. Um hitt, að þetta sé gert til að ná inn tekjum fyrir ríkissjóð, þá er hugsanlegt, ef löggæzlan hefur hitt svo öruggan fjárgæzlumann ríkissjóðs og hv. þm. Barð., þá hafi hún sagt þetta til að sýna, að svona sé fjárheimtan rekin af miklum krafti, en það sjá þó allir, að það er meira gamanyrði en nokkuð annað. En eftir lögunum er þetta lagt fyrir mennina, og þeir gera eingöngu sína skyldu. En að láta dæma umferðarbrot þegar í stað hefur áreiðanlega gefizt vel. Og ég vil ítreka það, að ég hef ekki heyrt neinn kvarta undan þessu, nema hv. þm. Barð., en það væri fróðlegt að heyra, hvort fleiri væru sama sinnis. Mér þykir það þó ólíklegt, því að heimildin til þess að hafa þann hátt á var einmitt rýmkuð í frv. um opinber mál, sem samið var hér á dögunum, þannig að ef það hefði gefizt illa, þá hefðu menn ekki samþ. það svo greiðlega sem hér var gert.