23.02.1951
Efri deild: 76. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1386 í B-deild Alþingistíðinda. (2867)

76. mál, áfengislög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil nú af þessu tilefni skjóta því til manna, þar sem sakadómari og lögreglustjórinn í Reykjavík hafa um þetta fjallað, hvort ekki væri ráðlegt að spyrja þá um þeirra álit á því, hvort þeir teldu, að þessi breyt. skipti máli eða ekki. Ef það er svo, að málinu sé stefnt í beinan voða í Sþ., þá er rétt að athuga alla möguleika, áður en lagt er í þá hættu. En ég á bágt með að trúa því, að þessir embættismenn muni leggja mikið upp úr því orðalagi, sem hér um ræðir. Ég held, að orðalagið hljóti að hafa verið sett af nokkru fyrirhyggjuleysi. Og án þess að varpa neinni rýrð á þá embættismenn, sem hlut eiga að máli, má segja, að það, sem hér kemur til greina, sé „sterkar líkur og sönnur“. Sönnur komi ekki til álita, og þess vegna hafi nú gott eitt fyrir þeim vakað í þessu. Ég efast ekki um það, en það væri fróðlegt að heyra þeirra álit, fyrst til þeirra hefur verið vitnað.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. forseta, hvort ekki væri rétt að fresta málinu og leita álits sakadómara um þetta mál.