26.02.1951
Efri deild: 77. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1387 í B-deild Alþingistíðinda. (2871)

76. mál, áfengislög

Karl Kristjánason:

Herra forseti. Mér þykir viðeigandi, að ég geri grein fyrir afstöðu minni til málsins. Ég á hlut í brtt. á þskj. 713 og vil taka fram, að ég hef enga samúð með þeim mönnum, sem selja vín á svörtum markaði. Ég vil enn fremur taka fram, að engin ástæða er til að ætla, að ég þurfi á því að halda að flytja vín sem farþegi í bifreið. Samt lít ég svo á, að fjarstæða sé að leiða í lög þann stóradóm, sem frv. felur í sér, eða ákvæðið um sönnunarskylduna. Ríkið selur áfengið, og það getur ekki talizt æruleysi að kaupa það. Nú er bifreiðin orðin helzta farartækið, og er því ekkert undarlegt, þó að viðskiptavinir áfengisverzlunarinnar flytji vínið í bíl. Ég sé ekki betur, ef frv. verður samþ. eins og það er nú, en sá, sem áfengi finnst í bíl hjá, skoðist sekur, nema hann geti fært sönnur á, að hann ætli ekki að nota það á ólöglegan hátt. Þó að þeim hafi aldrei dottið slíkt í hug, eru engin skilyrði til að sanna, að þeir hafi ekki ætlað sér þetta í framtíðinni. Það eru engin radartæki til til að lýsa inn í framtíðina og sanna þetta. Hæstv. dómsmrh. sagði um daginn, að í raun og veru væri aðeins um að ræða mismun á orðalagi í frv. og brtt. á þskj. 713. Hann útskýrði það líka, að ef sönnunarskyldan yrði leidd í lög, mundi enginn dómari komast lengra í rannsókn en að fá sterkar líkur og aldrei krefjast sönnunar. M.ö.o., það á að lögleiða orðalag, sem ekki er hægt að nota og dómarinn verður að leiðrétta og sniðganga. Með því álít ég of mikið treyst á það, að vitur og sanngjarn dómari hafi með þessi mál að gera hverju sinni. Í öðru lagi tel ég mikla fjarstæðu af löggjafarsamkomunni að setja þau ákvæði í lög, sem ekki má og ekki er hægt að dæma eftir. þegar svo auðvelt er að finna önnur form. Ég álít, að með því móti sé löggjafarsamkoman að vinna skemmdarverk á tungunni. Ég álít, að löggjafarsamkoman væri í raun og veru að stofna til þess, að þjóðin fengi á sig skrælingjabrag, ef tekið væri upp í löggjöfina það orðalag, sem þarna er notað í frv. Það er þess vegna fjarstæða að líta svo á, að hér sé ekki nema um orðalagsmun að ræða. Hér er um mikinn efnismun að ræða, í raun og veru þann mikla mun, sem í almennu tali má kalla muninn á viti og vitleysu.

Ég hlustaði með athygli á það, þegar hæstv. viðskmrh., sem flutti upphaflega það frv., sem hér liggur fyrir, vakti athygli á því, að frv. mundi vera hætta búin, ef það yrði ekki samþ. óbreytt hér í þessari hv. d. En ég sé ekki, að hér þurfi að vera um slíka hættu að ræða, enda álít ég frv. svo gallað eins og það er, að ég get alls ekki undir neinum kringumstæðum tekið jákvæða afstöðu til þess í því formi, sem það er. Ég lít svo á, að þeir, sem nú þykjast fylgja frv. fastast, séu ekki sannir fylgismenn þess, ef þeir í Sþ. vilja ekki samþ. það með þeirri breyt., sem greinir á þskj. 713. Ég tel tvímælalaust skylt að leiðrétta frv., skyldu gagnvart þeim, sem eiga að dæma eftir l., gagnvart þeim, sem eiga að dæmast eftir l., og skyldu við íslenzkt mál og löggjafarmál. Sem sagt, ég mun ekki sjá mér fært að greiða frv. atkv., nema það sé leiðrétt, þótt ég sé því hlynntur. Ég álít, að hæstv. viðskmrh. þurfi ekkert að undra það, þótt þessi afstaða til frv. komi fram, eins og það er orðið nú, því að sönnunarskyldan, sem þar kemur fram, beinist gegn bílstjórunum, sem ekki hafa sjálfs sín vegna þörf fyrir að vera með áfengi. Ég held, satt að segja, að með þeirri brtt., sem ég á þátt í að flytja, sé töluvert langt gengið, að ætla bílstjóra að færa sterkar líkur til þess, en ég treysti því, að dómarar kunni að meta réttilega líkur, — en ég treysti því alls ekki, að dómari, sem þarf að dæma eftir l., sem segja, að manni skuli refsað, — ef hann kannske hefur engar sannanir fyrir því, að hann ætli að nota vín á löglegan hátt, — ég treysti alls ekki dómara til þess að dæma á þann hátt, sem hæstv. ráðh. gerði ráð fyrir. Og ef slík sönnunarskylda væri leidd í lög og sönnunarbyrðin lögð yfirleitt á herðar þess ákærða, þá væru menn orðnir heldur illa settir í þjóðfélaginu, ef þetta frv. með sinni sönnunarskyldu yrði vísir að því, að í framtíðinni yrði það leitt í lög, að sönnunarbyrðin hvíldi á þeim ákærðu. Þá væri illa komið, þá gæti hver óvinveittur maður, sem vildi gera þeim óleik, sem hann ætti í einhverjum útistöðum við, farið illa með þá, sem l. ættu í raun og veru að vernda, — ef í hverju tilfelli þyrfti ekki annað en kæra mann til þess að hann yrði sakfelldur, svo framarlega sem hann gæti ekki fært sönnur fyrir sakleysi sínu, sem oft er ómögulegt, eins og fyrirsjáanlegt er með þá, sem flytja með sér áfengi.