26.02.1951
Efri deild: 77. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1389 í B-deild Alþingistíðinda. (2875)

76. mál, áfengislög

Haraldur Guðmundsson:

Ég mun greiða atkv. gegn brtt. á þskj. 713, því að ég er henni andvígur. Ég skal að vísu játa, að hæstv. dómsmrh. hefur nokkuð fyrir sér í því, þegar hann segir, að dómsniðurstaðan muni í ýmsum tilfellum verða svipuð, hvort heldur orðalagið væri eins og það nú er í frv., 2. mgr. 1. gr., eða orðalag brtt. yrði tekið upp. Þó er fjarri því, að ég sé sannfærður um, að niðurstaðan yrði í öllum tilfellum sú hin sama. Ég held, að þar hafi reynslan sýnt, að jafnvel ýmsir dómarar þurfi að hafa nokkurt aðhald í löggjöfinni sjálfri í starfi sínu varðandi þessi mál, og ég tel vafalaust, að orðalag frv. mundi skapa þeim meira aðhald í þessu efni en orðalag brtt.

Hv. þm. S-Þ. (KK) sagðist helzt hallast að því, að ef frv. væri samþ. eins og það er, væri byrjað á því að gera þær breyt. á löggjöf okkar, að sönnunarskyldan ætti yfirleitt að hvíla á sakborningi. Ég held, að þetta sé gersamlega ástæðulaust hjá hv. þm. Það er að vísu réttast og eðlilegast, að meginreglan í löggjöfinni sé sú, að sá, sem kærir, þurfi að færa sönnur á sekt þess, sem kærður er. En hv. þm. kannast þó við það gamla spakmæli, að engin regla er án undantekninga, og svo er einnig um þetta. Því er einnig af ýmsum haldið fram, að undantekningarnar hafi nú staðfest regluna. Ég held því, að því fari fjarri, að þetta sé í fyrsta skipti, sem horfið er frá þessari reglu hér. Ég held, að í þó nokkrum tilfellum hvíli í raun og veru sú skylda á sakborningi að sanna sakleysi sitt, þó að hitt sé meginreglan. Mér er sagt, að það sé þannig að því er laxveiðilöggjöfina snertir, að ef maður er með veiðistöng og allar „græjur“ við laxá, sem hann hefur ekki rétt til að veiða í, þá megi dæma hann eins og hann hefði unnið órétt, nema hann færi sönnur á, að svo sé ekki. — Finnist smygl geymt í skipi og enginn finnst eigandinn, má refsa skipstjóranum. — Þá minnist ég þess einnig úr landhelgisl., að ólögleg meðferð veiðarfæra innan landhelgi sé sama og landhelgisbrot. Það er nefnilega þannig, að lífið og tilfellin eru svo margháttuð, og það er einmitt meginatriðið í þessu efni hér, að þessum brotum er svo háttað, að beint sönnuð sök getur ekki legið fyrir nema í örfáum tilfellum. Einmitt þess vegna er frv. með þeim hætti, sem hér er gert ráð fyrir, og í því sambandi skiptir ekki höfuðmáli, hvort orðalagið er „sterkar líkur“ eða „sannað sé“, eins og þessi tvö tilfelli sýna. Ég mun því, eins og ég áður sagði, greiða atkv. gegn þessari brtt., því að ég tel, að hún sé ástæðulaus og mundi þó heldur verða til þess að spilla frv., ef hún yrði samþ., því að þar með væri dregið úr því aðhaldi, sem löggjöfin ætlast til. Hitt verður svo ekki um deilt, að málinu væri náttúrlega stefnt í hættu, ef þessi brtt. yrði samþ. í þessari hv. d., og sterkar líkur til, að það yrði þess valdandi, að málið næði ekki fram að ganga, svo að það út af fyrir sig, þó að ekki væri annað, mælir á móti samþykkt þessarar brtt.