28.11.1950
Efri deild: 27. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í B-deild Alþingistíðinda. (288)

28. mál, Stýrimannaskólinn

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Nefndin hefur athugað frv. o rætt um það við skólastjóra stýrimannaskólans. Í hv. Nd. var frv. nokkuð breytt, og mun það hafa verið af nokkrum misskilningi, vegna þess að hv. d. leit svo á, að með því að lögbinda það, sem í frv. stendur um kennaralið skólans, væri verið að stofna til aukins kostnaðar við skólann, en það er ekki svo. Þær kennarastöður, sem um ræðir í frv., hafa verið við skólann 2 s.l. ár, og hafa kennararnir verið á föstum launum, svo að það breytir engu um kostnaðinn, þó að þessar stöður verði ákveðnar með lögum, og auk þess hefur verið allmikið um aukakennslu við skólann, svo að fremur virðist þörf á að auka þar fasta kennslukrafta en skerða. Það er því skoðun n., að færa beri frv. í sitt upphaflega horf. Um þetta var enginn ágreiningur í n. og ekki heldur milli n. og skólastjórans. En n. leggur til, að önnur breyt. verði gerð á frv., þess efnis, að 3. málsgr. 3. gr., eins og hún er í frv. á þskj. 177, falli niður. Það hefur verið gert ráð fyrir því, þegar frv. var samið, að kennslu í þýzku skyldi hætt, en eins og er, eru 4 tungumál, íslenzka, danska, enska og þýzka, kennd við skólann, og hefur svo verið lengi. Leit skólastjórinn svo á, að þýzkukennslunnar væri ekki þörf og væri rétt að fella hana niður, og því hafði 3. málsgr. 3. gr. verið sett í frv. Á þetta getur n. ekki fallizt. Nú er það svo, að þýzka er aðeins kennd í farmannadeild, en ekki í fiskimannadeild, en það ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að bæta þar við þýzkukennslu, og mætti setja um það sérstaka reglugerð, en ef frv. er samþ. óbreytt, þá er útilokað, að þýzkukennsla geti fram farið, en það telur n. mjög óheppilegt. Það er svo á valdi skólastjórans, hve mikla áherzlu hann leggur á þýzkukennsluna. Hann getur ákveðið um það, en n. sér ekki ástæðu til að fyrirmuna skólanum að kenna þetta tungumál, vegna þess að farþega- og flutningaskip okkar hafa mikil viðskipti við Þýzkaland og hafa raunar alltaf haft síðan 1925, og sum árin hefur jafnvel verið siglt á þýzkumælandi lönd eins mikið og á enskumælandi lönd, og það er vægast sagt mjög óþægilegt fyrir yfirmenn skipanna að vera mállausir í miklum viðskiptalöndum. N. þykir því ekki tilhlýðilegt að fella niður þýzkukennsluna. Fiskiskipin sigla einnig á Þýzkaland, og þurfa því yfirmenn þeirra að kunna þýzku líka, ekki síður en ensku. Það væri því eðlilegra að taka upp þýzkukennslu í fiskimannadeild en fella hana með öllu niður við skólann. Það væri kannske eðlilegast að fella niður dönsku, ef eitthvað á að skerða málakennsluna, því að siglingar til Danmerkur eru minni en til Þýzkalands og Englands, en það þykir þó ekki heldur gerlegt, þar eð mikið af kennslubókunum við skólann er á dönsku, þótt undarlegt megi virðast. Það hefur ekki tekizt að útvega kennslubækur á íslenzku, og er það raunar til lítils sóma fyrir þjóðina, en meðan svo er, er ekki tiltækilegt að gera till. um að fella dönskukennsluna niður. Brtt. n. fara því fram á það, að kennslunni verði hagað sem áður og að þeir, sem nú eru kennarar þar, verði skipaðir fastakennarar, en þeir eru 3 í siglingafræði og einn í tungumálum. N. leggur því til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem um getur á þskj. 209. Einn nm., hv. 6. landsk., var ekki á fundi, þegar málið var afgr., og veit ég ekki um afstöðu hans. Leyfi ég mér að lokum að leggja til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem ég nú hef lýst.