06.03.1951
Sameinað þing: 49. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1393 í B-deild Alþingistíðinda. (2882)

76. mál, áfengislög

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég er enginn lögfræðingur og þar af leiðandi ekki bær um að skýra lög, en betra er þó, að alþm. yfirleitt skilji það, sem þeir eru að greiða atkv. um, og ættu allir þm: vitanlega að gera sér far um að skilja, hvað átt er við með því, sem borið er undir atkv. Nú verð ég að játa það, að ég skil ekki vel, hvað átt er við með brtt. hæstv. dómsmrh. á þskj. 800. Ég heyrði ekki vel til hans, þegar hann flutti sína framsöguræðu, því að það var ekki alger kyrrð í salnum og hann er alllangt fjarri mér, en mér skildist, að hann héldi því fram — eins og hann reyndar gerði líka í Ed. —, að lítill munur væri á frv. eins og Ed. og Nd. hefðu afgr. það, m.ö.o., að það, sem hér er átt við og hv. Nd. vildi hafa þannig, að menn yrðu fyrir fram að sanna sakleysi sitt, en þar sem hv. Ed. vildi láta nægja, að menn færðu sterkar líkur fyrir, að þeir ætluðu ekki að drýgja lögbrot, að það væri eitt og það sama. Ég fæ hins vegar ekki séð, að þetta sé eitt og hið sama, því að það að færa sterkar líkur fyrir, að menn ætli ekki að drýgja lögbrot, álít ég þó, að sé innan mögulegra mannlegra takmarka, en ómögulegt undir öllum kringumstæðum að sanna það. Mér sýnist því talsverður munur á þessu tvennu. Mér virðist, að eins og hv. Nd. gekk frá þessu ákvæði, þá eigi hver maður það á hættu, sem flytur áfengi í bifreið, að verða dreginn fyrir lög og dóm, því að það sé ómögulegt að sanna, hvað hann ætli að gera við það, en hvor d., sem hefur réttara fyrir sér, þá er þó hægt að skilja, hvað átt var við. Hv. Nd. krafðist sannana fyrir því, að þeir menn, sem áfengi fyndist hjá í bifreið, ætluðu ekki að selja það, en hv. Ed. taldi nægilegt, að þeir færðu sterkar líkur fyrir því, að þeir ætluðu ekki að nota það á ólöglegan hátt, sem í mjög mörgum tilfellum væri hægt að færa sterkar líkur fyrir, þótt ekki sé hægt að sanna slíkt. En nú kemur hæstv. dómsmrh. með miðlunartill., sem að vísu er lofsvert, en frá mínu sjónarmiði hefur þann galla, að hann má gera betur, ef ég á að skilja hana, og er þetta sjálfsagt af því, að hann álítur, að það sé það sama, hvort mönnum sé gert að sanna, að þeir ætli að gera eitt eða annað einhvern tíma, eða hvort þess sé krafizt af þeim, að þeir færi sterkar líkur fyrir því. Hann vill hafa orðalagið þannig: „nema hann sanni með sterkum líkum“. En hvoru á að fara frekar eftir, þegar þetta er orðið að l.: sönnuninni eða sterkum líkum? Hvernig er hægt að sanna með sterkum líkum? Ég hélt, að sönnun væri ákveðið hugtak og að líkur væru annað hugtak. Sem leikmaður í lögum hefði ég litið þannig á þetta. Mér finnst, eins og frv. kom frá hv. Ed., að það sé gengið svo langt í því að ákveða þeim mönnum refsingu, sem eru með áfengi í bílum, að tæplega sé hægt að ganga lengra, og að frv. eins og það nú er gangi þó lengra en íslenzk lög gera yfirleitt. Ég held, að það sé afar sjaldgæft í íslenzkum lögum og jafnvel í lögum allra þjóða, að menn eigi að sanna sakleysi sitt eða færa sterkar líkur fyrir, að þeir ætli ekki að fremja verknað, sem þeir eru ekki búnir að fremja. Ég hélt, að hegningarl. kæmu fyrst til greina, þegar búið sé að fremja saknæman verknað, og að það komi þá fyrst til mála, að menn eigi að hreinsa sig af honum. Því hefur verið haldið fram, að það væru til hliðstæður í íslenzkum l. við þetta atriði, og sú hliðstæða hefur verið nefnd, að ef togari sést með veiðarfæri útbúin til veiða innan landhelgi, þá sé hann sekur fyrir landhelgisbrot, þótt hann sé ekki að toga. En það er bara sá munur á þessu, eftir því sem ég bezt veit, að það er beinlínis bannað að sigla með þannig útbúin veiðarfæri um landhelgina, svo að í þeim tilfellum kemur það ekki til mála, að togaraskipstjóri eigi að sanna sínar frómu fyrirætlanir, því að hann er búinn að brjóta l. með því að sigla þannig innan landhelgi. Ef frv. væri um það að banna að flytja áfengi í bifreiðum, þá mætti dæma hvern þann mann, sem finnst með áfengi í bifreið, en frv, er ekki um það. Eins og frv. var borið fram, var ætlazt til þess, að menn mættu kaupa áfengi í Áfengisverzlun ríkisins og flytja það, en að þeir ættu það á hættu, að lögreglan leitaði í bifreiðinni, og að þeir ættu svo að sanna, að þeir ætluðu ekki að nota það til sölu. Ég er viss um það, að ef nokkurt annað mál hefði verið borið fram á þennan hátt heldur en varðandi áfengi, hefði engum dottið í hug að samþ. það. En það er nú engu líkara en að það sé orðinn höfuðglæpur að handfjalla áfengi, svipað eins og lauslæti og galdrar voru taldir höfuðglæpirnir á 17. öld, og sumir menn eru farnir að færa sig æ meir í þá áttina að hugsa sér svipaða refsingu fyrir þennan höfuðglæp eins og þá var viðhöfð. Og mér finnst þetta stangast hvað á móti öðru í þjóðfélagi, þar sem ríkið sjálft rekur einkasölu á áfengi, og væri nær að setja algert bann við innflutningi og sölu áfengis í landinu, eins og gert var fyrir nokkrum árum, því að þá væri það ákveðið, að sérhver maður, sem áfengi fyndist hjá, væri sekur um lögbrot. Þetta væri hrein stefna, en hitt er ekki sæmandi fyrir þjóðfélagið, á meðan ríkið selur áfengi fyrir tugi millj. króna á ári hverju, að hver maður sé ofsóttur á einn eða annan hátt, sem kaupir áfengisflösku í Áfengisverzlun ríkisins, og sízt, ef frv. yrði samþ. með eins fjarstæðukenndu ákvæði og hv. Nd. gekk frá því, eða með svo lítt skiljanlegu ákvæði, sem felst í brtt. hæstv. dómsmrh., eða svo finnst mér, ef hann skýrir hana ekki miklu betur en hann hefur gert.