06.03.1951
Sameinað þing: 49. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1397 í B-deild Alþingistíðinda. (2885)

76. mál, áfengislög

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. segir, að till. sín þýði ekki neitt, skipti engu máli, en mig grunar, að svo sé nú eigi. En setjum nú svo, að þetta sé rétt, þá er ég ekki viss um, í fyrsta lagi, að það sé rétt af hv. Alþ. að setja lög, sem þýða ekki neitt, þótt sá skilningur væri viðurkenndur. — Í öðru lagi hef ég ekki sannfærzt um það, að till. hæstv. ráðh. sé svo saklaus sem hann vill vera láta, þótt ég segi ekki með því, að ráðh. tali þar á móti betri vitund. Hæstv. ráðh, vill afsaka þessa óvenjulegu aðferð í löggjöfinni með því, að afbrotið sé af því tagi, að óvenjulega erfitt sé að sanna það. En ég held, að oft sé óvenjulega létt að sanna afbrotið. Ef einhver maður færi með bannvöru, t.d. nylonsokka, og seldi þá á svörtum markaði, þá mundi torvelt að hafa hendur í hári hans nema með vitnum. Hver, sem keypti þessa vöru, mundi fela hana, og ekki mundi á þessu bera. En nú hefur áfengi þann eiginleika, að það vill oft segja til sín, ef menn neyta þess mikið, t.d. á samkomum, þar sem bílar koma. Ég held, að ef lögreglan gengi í þetta, þá mætti sanna margt og mikið á venjulegan hátt, svo að sakborningarnir gætu ekki þrætt þar fyrir. — Hæstv. dómsmrh. sagði, að það væri deilt um einskis nýtt orðalag. Ég hef áður talað um þetta, en mér fannst hæstv. ráðh. ekki hrekja neitt af því, sem ég hef sagt, — að það sé annað að sanna eða færa sterkar líkur að einhverju. Ráðh. sagði, að þegar beinni sönnun yrði ekki við komið, yrðu dómstólarnir að dæma eftir líkum. Svo kann að vera stundum, en oftast er þó um beinar sannanir að ræða. Ef ég t.d. drægi upp skammbyssu og skyti einhvern hv. alþm., þá væri það bein sönnun um glæp minn, því að honum mætti leiða fjölda vitna. En ef maður væri hins vegar myrtur í skúmaskoti, þá mundi fyrst í stað vera þar um líkur að ræða. Ég held, að það sé reginmunur á þessu tvennu. Það kemur raunar fyrir dómstólana að dæma menn seka eftir líkum, en ævinlega fyrir afbrot, sem hafa verið drýgð. En skv. frv. hv. Nd. á að dæma menn fyrir afbrot, sem eftir er að drýgja. Þetta hygg ég að sé alveg dæmalaust í íslenzkri löggjöf og líklega í löggjöf allra þjóða.

Það er auðvitað hægt fyrir dómsmrh. og skarpan lögfræðing, sem verið hefur kennari í Háskóla Íslands, að segja við mig og hv. þm. Barð., að við vitum ekki, hvað er sönnun og hvað eru sterkar líkur, eins og fram kom í ræðu hæstv. dómsmrh. Ég efast ekki um, að hann er okkur lærðari í þessum efnum, en ef dæma á hans skoðun eftir ræðu hans, held ég, að við hv. þm. Barð. höfum skilgreint þessi tvö hugtök alveg eins vel og hann. — Hæstv. dómsmrh. kemur með till. til sátta á milli deildanna. Ég verð að segja það, að mér finnst þetta mál ekki svo mikilsvert, að það þurfi að fara að samþ. hreinar fjarstæður til þess að koma á sáttum, þótt segja megi, að það geti orðið til stuðnings fyrir þá, sem sjá eiga um, að lög séu eigi brotin. Ég held, að réttast sé, að hver og einn greiði atkv. eftir því, sem honum finnst skynsamlegast.