06.03.1951
Sameinað þing: 49. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1397 í B-deild Alþingistíðinda. (2886)

76. mál, áfengislög

Pétur Ottesen:

Að gefnu tilefni frá hæstv. dómsmrh, vil ég taka það fram, að fyrir mitt leyti — og tala ég þar fyrir munn allverulegs meiri hluta þessarar deildar varðandi þetta atriði, sem fram kemur í brtt. hæstv. dómsmrh., — þá munum við styðja þessa brtt. og teljum hana til bóta og bæta úr þeirri þrálátu skemmdarstarfsemi, sem unnin hefur verið á frv. þessu í hv. Ed., þótt við hefðum talið það öruggara, að sú till., sem samþ. var í Nd., væri aftur samþ. hér. Þessi brtt. er því að mínu áliti til bóta, og e.t.v. er ekki hægt að koma fram frekari lagfæringu nú, en ég er þakklátur hæstv. dómsmrh. fyrir hans till. og vænti, að málið fái endanlega afgreiðslu á þeim grundvelli.

Ég verð að segja það, að mér finnst gott að hafa fengið hér tækifæri að kynnast hugsunarhætti ýmissa manna í hv. Ed. Það er stundum erfitt að fylgjast með hugsunarhætti sumra þar. Hér hefur komið fram mikill fróðleikur, og þar á ég sérstaklega við ræður hv. 1. þm. Eyf. og þó einkum við ræður hv. þm. Barð., þar sem hann hefur virkilega, eins og hans er venja, tekið upp baráttuna fyrir lögbrjótunum, sem lögum þessum er einmitt stefnt gegn. Honum þykir of langt gengið eftir því frv., sem samþ. hefur verið í Nd., og þó er þetta frv. einmitt samið af lögreglustjóranum í Reykjavík, sem hefur mesta reynsluna í þessum efnum og veit, hvað helzt gæti komið að gagni. Jafnframt því, sem þessi hv. þm. deilir á Nd., er hann líka að deila á einhvern æfðasta og reyndasta lögreglustjóra hér á landi. Þetta kemur greinilega fram í orðalagi hv. þm. — En ég vil benda á, að það eru fleiri ákvæði í íslenzkri löggjöf, þar sem gengið er inn á þessa brauf, t.d. með togarana. Þeir mega ekki hafa ólöglegan umbúnað veiðarfæra innan landhelgi. Það er líka óleyfilegt, að bifreiðarstjórar flytji vín í þeim tilgangi að selja það. Hér er um algerðar hliðstæður að ræða í íslenzkri löggjöf, t.d. í veiðilöggjöfinni er ákvæði um það, að ef menn finnast með veiðarfæri, sem líkur benda til, að nota eigi í ólöglegum tilgangi, þá eru þeir sekir fundnir og dæmdir. Hv. þm. Barð. og hv. 1. þm. Eyf. voru ekki eins viðkvæmir fyrir þessum ákvæðum, þegar þau voru sett. Þeir réttu báðir upp hendurnar og samþykktu, að þetta skyldi tekið upp í löggjöfina, en það er nú sérstakur flokkur lögbrjóta, sem finnur náð fyrir augum þessara hv. þm. Þetta vildi ég segja, og ræði það ekki frekar, gegn því, sem þessir hv. þm. hafa sagt um Nd. — Ef þessir þm. væru samþykkir sjálfum sér, þá mundu þeir reyna að fá numin úr gildi önnur hliðstæð ákvæði í íslenzkri löggjöf. Svo segja þeir, að þetta stríði á móti öllu almennu velsæmi. Og hér er hv. þm. Barð. miklu skeleggari. Honum þóttu líka sektarákvæðin of há og fór út í það, að sú löggjöf væri vitlaus, sem hefði svo háar sektir. Hér vantar ekki velviljann og umhyggjuna fyrir þessum flokki lögbrjóta, sem iðkar sölu áfengis og hleypir upp samkomum víða úti um byggðir landsins. En umhyggjan fyrir þessum mönnum er svo rík og mikil, að refsiákvæðin fyrir afbrot þeirra eru talin of þung. Það er gott að kynnast svona hugsunarhætti, því að þetta skapar vissa aðstöðu í stríðinu gegn drykkjubölinu, og þessir menn koma hér til dyranna eins og þeir eru klæddir. Og þessir menn eru taldir stuðningsmenn bindindishreyfingarinnar, og það er þá gott að kynnast þessari hugarfarsbreytingu. — Það er betra, að við vitum, hvar við höfum andstæðingana, heldur en þeir sigli undir fölsku flaggi. Hv. 1. þm. Eyf. er gamall ungmennafélagi, og hefur því unnið bindindisheitíð, eins og þá var regla hjá ungmennafélögunum. Nú er það mjög mikill þáttur hjá ungmennafélögunum, að þau beita sér fyrir félagsstarfsemi víða úti um sveitir landsins; koma upp samkomuhúsum, svo að fólk í sveitum landsins geti notið þar skemmtunar og unnið þar að sinni félagsstarfsemi, og er þetta verulegur þáttur í heilbrigðu sveitalífi. Nú er hér allmikill hængur á í sambandi við þessi mál, þar sem félagsstarfsemi þessi hefur orðið fyrir miklum erfiðleikum og sér í lagi í grennd við Reykjavík. Á hverri skemmtun, sem byggð er á hugsjón ungmennafélaganna, streymir að fjöldi bíla í þeim tilgangi að selja áfengi. Íslendingar eru þannig gerðir, að þeir eru heldur veikir fyrir, ef vín er á boðstólum, og kaupa og drekka þá áfengi, og afleiðingin af þessu verður sú, að skemmtun, sem stofnað hefur verið til í menningarlegum tilgangi, verður að óþverrabæli með útúrdrukknum mönnum. Þetta er nú það viðhorf, sem skapast. Í þessu augnamiði er þetta frv. flutt, að hægt verði að ráða bót á þessu, og var þá leitað til lögreglustjórans í Reykjavík í þessu skyni sem er þessum hnútum kunnugastur. Nú hefur þetta mál, eins og kunnugt er, lent í hrakningum á milli deilda, og nú hafa komið hér yfirlýsingar frá tveim alþm. úr hv. Ed., sem þykjast hafa gengið svo nærri þessum lögbrjótum, að þeir vilji ekki láta ganga neitt nær þeim. Mér skildist, að hv. 1. þm. Eyf. teldi gengið of langt í þessu, og ef til vill þm. Barð., sem oft hefur gefið sömu játningu. Hann hefur haldið því fram, að of langt væri gengið í sektarákvæðunum. Ég veit ekki, hvernig stendur á því, að hann hefur ekki fundið kennd hjá sér til að flytja brtt. við þetta, ef honum finnst, að þarna sé of langt gengið. Hann hefur átt frumkvæðið að því, að reynt væri að draga úr höfuðákvæðum frv.

Hæstv. dómsmrh. hefur bent á, að í grundvallarlöggjöf refsilaganna, sem við búum við, sé sú meginregla, að ákærði eigi að sanna sakleysi sitt. Hann hefur fært rök fyrir því, að ekki sé hægt að fylgja þessari reglu út í yztu æsar, nema annað komi til greina. Á þessum grundvelli hefur hæstv. dómsmrh. fært rök fyrir brtt., er hann flutti og stendur vissulega nær þeirri brtt., sem Nd. hefur áður sett. Ég hef áður sagt, að d. mun sætta sig við þessa úrlausn málsins, þar sem ekki er aðstaða fyrir Alþingi til að koma frekari vörnum við. Ég vil þess vegna vænta þess, að Sþ. samþ. brtt. hæstv. dómsmrh. og afgr. frv. með þessum hætti. Samkv. þessu frv. má þá vænta þess, að lögreglan í landinu fái sterkari hendur á móti þessum ófögnuði, sem eyðileggur heilbrigt skemmtanalíf í sveitinni. Við í sveitinni vitum, hvaða þýðingu það hefur fyrir sveitirnar, að unga fólkið uni þar við að yrkja jörðina. Það hefur líka mikla þýðingu í kaupstöðunum, þar sem slóð þessara lögbrjóta liggur, að hægt sé að beita skörpum ráðstöfunum gegn þessum ófögnuði.