06.03.1951
Sameinað þing: 49. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1400 í B-deild Alþingistíðinda. (2888)

76. mál, áfengislög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki standa í vegi fyrir afgreiðslu málsins, en ætla að svara hv. þm. Borgf. Hann upplýsti það, að ég hafi breytt um skoðun á málinu. Ég veit ekki, hvaðan hann hefur þá heimild. Ég tel ekki fylgi mitt við till. neina sönnun þess, að ég hafi breytt um skoðun. — Er hv. þm. þá fylgjandi því, að áfengi sé selt í landinu? Hann sagði, að það væri gott að kynnast hugsunarhætti Ed. í þessu máli. Ég held, að hann hafi bara gott af því að kynnast hugsunarhætti Ed. í þessu. Hann ætti að fara í gegnum þau mál, sem farið hafa í gegnum d., og mun hann þá sannfærast um, að það séu hinir prýðilegustu menn, sem þar sitja, að hv. þm. Nd. ólöstuðum.

Hann segir, að ég vilji stuðla að því, að vínsalar leiki lausum hala. Ég skil hann nú ekki. Mér er meira virði að kippa ekki hornsteini undan íslenzku réttarfari en að láta taka einn og einn vínsala. Það er röng stefna að kippa hyrningarsteini undan íslenzku réttarfari með því að velta sönnunarskyldunni yfir á ákærða. Hann spurði, hvers vegna ég bæri ekki fram brtt. um að lækka sektirnar. Þetta mál lá fyrir í allshn., sem fjallaði um málið, og bar henni því skyldan að koma fram með þetta. Hv. þm. Seyðf. hefur bent á, hve óheppilegt það væri að hafa sektirnar svona háar. Það er ekkert aukaatriði, að sú skylda sé lögð á herðar sakborningi að sanna sakleysi sitt. Ég vil fá því breytt, að leggja ekki sönnunarskylduna á herðar sakborningi, mér finnst vera svo langt gengið í sektarákvæðunum. Þetta virðist vera ástríða á hv. þm. Borgf. Hann hefur borið fram sektarákvæði í mörgum málum, en þau hafa misst marks, t.d. um ólöglegar veiðar í landhelgi. — Ég vil vísa á bug þeim aðdróttunum, að Ed. sé með skemmdarstarfsemi í þessu máli. Hún er að reyna að koma í veg fyrir, að lögleidd séu óheilbrigð lög í landinu. — Ég læt þetta nægja um ræðu hv. þm. Borgf. og lýsi því yfir, að ég er tilbúinn að taka saman höndum með honum til að bæta úr þessu böli, svo að Alþingi megi vera sómi að, en lengra get ég ekki farið.

Hæstv. dómsmrh. minntist á afbrot í sambandi við þetta. Ég get ekki talið það afbrot, þó að vín sé selt ólöglega í landi, þar sem ríkið sjálft selur vín og leyfir sölu þess á annað borð. Þetta kalla ég lögbrot, en ekki afbrot. Ríkissjóður er ekki svikinn um eina krónu, því að vínið er keypt fullu verði. Þetta er ekki meira lögbrot en að selja vöru án leyfis. Hv. þm. Borgf. styður þá, að ríkissjóður hafi aðaltekjur af sölu áfengis. Með tilvitnun í þetta er það fráleitt að fara að breyta þessu með því að kippa hornsteinum undan íslenzku réttarfari. Hæstv. ráðh. sagði, að hér væri aðeins deilt um orðalag. Með hans góðu hæfileikum hefur honum ekki tekizt að sannfæra báða aðila, að orðalagið hafi sönnunarþýðingu. Nd. hefur lýst því yfir, að hún beygi sig ekki undir orðalagið og telji, að það hafi ekki sönnunarþýðingu. Tilraunir hæstv. ráðh. til sætta minna mig á sýslumann, sem reyndi að koma á sættum í nauðgunarmáli. Það er meira virði, hvort við viljum sætta okkur við þær breyt., sem gerðar eru á réttarfari landsins.