06.03.1951
Sameinað þing: 49. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1401 í B-deild Alþingistíðinda. (2889)

76. mál, áfengislög

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég hefði getað fallið frá því að gera aths., þegar hv. þm. Barð. talaði, en ég þykist þurfa að bera af mér sakir. Hv. þm. Borgf. sló um sig með því, að lögreglustjórinn væri frv. samþykkur. Ég vil þá geta þess, að ég var frv. samþykkur eins og það var borið fram og áður en Nd. var búin að breyta því. Eftir því sem ég bezt veit hefur allshn. Ed. borið till. undir lögreglustjóra. Vildi hann orðalagið, sem Ed. samþ., heldur en það, sem Nd. hafði ákveðið.

Hv. þm. bar þær sakir á mig og hv. þm. Barð., að við vildum hlífa lögbrjótum, en þetta er mesta firra. Mér er ekkert sárt um lögbrjóta, og má taka þá og refsa þeim, ef þeir finnast sekir. Afstaða okkar byggist á allt öðrum grundvelli. Við viljum ekki, að saklausir menn verði dæmdir, eins og getur orðið með frv. eins og það kom frá Nd. Það var upplýst í umr. í Alþingi, að kunnur bindindismaður hafði flutt með sér flösku í bíl. Samkv. frv. hefði hann getað verið tekinn fyrir og dæmdur sekur um leynivínsölu, af því að hann gat ekki sannað, að hann ætlaði ekki að selja flöskuna. Það er misskilningur hjá hv. þm. Borgf., er hann hélt því fram, að það væru til hliðstæður þessu í íslenzkri löggjöf. Þær eru alls engar til. Hann minntist á ákvæðin um skip, sem eru tekin með ólöglegan veiðarfæraútbúnað í landhelgi, þó að þau séu ekki staðin að veiðum. Þau eru ekki sektuð fyrir ólöglega veiði, heldur ólöglega meðferð veiðarfæra í landhelgi. Það er eins með laxveiðina. Það er bannað að vera með ólöglega umbúnar veiðistengur í annars manns landi. Þeir eru dæmdir vegna þess, að verkið er framið, en hér á að dæma menn fyrir verknað, sem álitið er, að maðurinn ætli að fremja. Hv. þm. Borgf. sagði, að ég og hv. þm. Barð. hefðum verið mikið viðriðnir bindindi. Það stóð í einu blaði, að ég væri minnst bindindissamur af mínum flokksbræðrum. Í æsku var ég reyndar í ungmennafélagi og hef því unnið bindindisheit. Þá þekktist ekki á samkomum ungmennafélaganna þetta ástand, sem hv. þm. var að lýsa. Þó að ungmennafélögin væru bindindisfélög, lögðu þau ekki fyrir sig að ofsækja þá menn, sem drukku vín. Ég veit ekki, hvort hv. þm. getur sagt það sama um þau félög, sem hann talar um.