06.03.1951
Sameinað þing: 49. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1402 í B-deild Alþingistíðinda. (2891)

76. mál, áfengislög

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Ef ég hef skilið hæstv. dómsmrh. rétt, þá hefur hann tekið till. aftur, en ég tek hana upp. Þó að dómsmrh. sé viðurkenndur góður kennari, þá veit ég það mikið í þingsköpum, að það má taka upp till. og hann þarf ekki að kenna mér það. Hæstv. dómsmrh. hefur nú saumað svo að þessum efrideildar-þm. hér, sem talað hafa, að ég held, að þær flíkur fari nú að þrengja dálítið að kroppnum á þeim. Svo að ég held, að þetta sé nokkuð öflugur stuðningur við það, sem ég sagði áðan, hverju menn þjóna í þessu efni, þó að þeir þykist þjóna réttlætinu og telji sig nokkurs konar hornsteina undir löggjöf þessa lands. Og hv. þm. Barð. orðaði það einhvern veginn þannig áðan, að hann væri fyrstur manna í að halda uppi sóma Alþ. Þeir líta stórt á sig, þessir hv. þm., og lýsa hér ákaflega göfugum tilgangi í sambandi við afstöðu sína til þessa máls. En ég lít öðruvísi á atferli þeirra um afgreiðslu þessa máls.

Það kom eitt atriði fram hjá hv. þm. Barð., sem gefur mér fullkomið tilefni til þess að endurtaka það, sem ég sagði áðan, — að það er gott að fá tækifæri til þess að kynnast hugsunarhættinum í efri deild. — Hv. þm. Barð. fór að sveifla sér dálítið og tala hér um eðli afbrota og afleiðingar þess, að lögin væru brotin. Hann lagði það hvað á móti öðru að selja áfengi á samkomum og það að selja nylonsokka á samkomum. Það er náttúrlega út af fyrir sig rétt hjá hv. þm. Barð., að hvort tveggja er utan við lög og rétt, ef sala nylonsokkanna er á svörtum markaði, eins og það er venjulega kallað. Það stangast á við löggjöfina, og skal ég ekkert mæla því í gegn, að það geri það. En við skulum bara líta — og það er meginatriði þessa máls — á afleiðingarnar af þessum tvenns konar lögbrotum. Afleiðingarnar af því, að vínsalarnir koma á skemmtun og selja þar áfengi, eru þær, að skemmtunin er alveg lögð í rúst, svo að þar verður allt ein flagvelta, en sá, sem selur sokkana, skemmir ekkert fyrir skemmtun annarra, þó hann komi t.d. og selji þar ein pör af nylonsokkum. Sá, sem kaupir nylonsokkana, mundi gleðja kærustuna sína með því að gefa henni sokkana, en skemmtunin gæti haldið áfram, alveg saklaus og góð, eftir sem áður, alveg eins og til hennar var stofnað. — Það er þessi hugsunarháttur efri deildar, sem er ákaflega fróðlegt að kynnast. Og þetta kannske varpar dálítilli birtu líka yfir hugsunarhátt og ýmsa framkomu hv. þm. Barð. — Hv. þm. Barð. vildi helzt, skildist mér, að ég færi að lesa allt, sem þeir hefðu sagt í efri deild, til þess að kynnast hugsunarhættinum þar. Ja, guð almáttugur, ef ég ætti að fara að lesa allt, sem hv. þm. Barð. hefur sagt. Nei, þá vildi ég heldur — ég veit ekki hvað, en að leggja það á mig að lesa allt, sem hann hefur sagt þar, og er þó sumt nýtilegt innan um hundavaðsháttinn hjá þessum hv. þm.

Viðvíkjandi hv. 1. þm. Eyf. vil ég segja, að mér er ekki kunnugt um, að það liggi fyrir Alþ. nein plögg, sem sýni skoðanaskipti lögreglustjórans í Reykjavík í þessu máli. Ég veit ekki, hvort það kann að hafa verið talað við hann munnlega um þetta og að hann muni kannske hafa látið orð falla á þann veg, að frv. þetta, sem hér liggur fyrir, væri ekki einskis nýtt, þó svo að breytt hefði verið til frá hans eigin till. eins og gert var. (BSt: Heppilegra orðalag. ) Ja, ég veit ekki, hvað hv. 1. þm. Eyf. telur heppilegra orðalag í sambandi við áfengislög. Ég held, að hann sé óheppinn maður í öllum þeim málum. Þessi hv. þm. virðist vera með miklar áhyggjur af því, og miðar afstöðu sína sérstaklega við það, að það mundu saklausir menn verða fyrir barðinu á þessu, ef frv. eins og það kom frá Nd. væri samþ. Hann getur verið alveg öruggur um það, að þó að frv. verði afgr. á þeim grundvelli, sem lagður var í hv. Nd., þá hefði enginn saklaus maður orðið fyrir barðinu á því, en það hefði náð til fleiri sekra manna en vænta má eftir frv. eins og hv. Ed. hefur gengið frá því. Eins og frv. kom frá hv. Ed. nær það til færri sekra manna, og það er þetta, sem hv. 1. þm. Eyf. og hv. þm. Barð. berjast svo hatrammlega fyrir. Þeir eru ekki með baráttu til þess að tryggja það, að saklausir menn geti ekki orðið fyrir barðinu á þessu, heldur gengur öll þeirra barátta út á það að skapa möguleika fyrir því, að svo og svo mikið af sekum mönnum sleppi undan refsivendi laganna. (BSt: Þetta eru ósvífnar getsakir.) Ég er að dæma framkomu þessara manna eftir þeirra eigin orðum og gerðum, og ef einhver ósvífni liggur í því, sem ég segi, þá hafa þeir lagt tilefnið upp í hendurnar á mér. (Forseti: Ég vil benda á, að fundartíma er lokið.) — Ég vil ljúka máli mínu með því, að það eru vissulega til hliðstæður í íslenzkri löggjöf við það, sem ég vil láta gera hér, og þessir hv. þm. hafa báðir samþ.