05.02.1951
Efri deild: 64. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í C-deild Alþingistíðinda. (2909)

97. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Í frv. þessu er farið fram á að gefa ýmis hljóðfæri tollfrjáls, en þau eru flygel og píanó, orgel, harmoníum og strengjahljóðfæri, ásamt hlutum til þeirra. Fjhn. hefur athugað frv. og hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði fellt, en einn nm., hv. 1. landsk. þm. (BrB), leggur til, að frv. verði samþ., og gefur út um það sérstakt nál. á þskj. 606.

Eins og tekið er fram í nál. meiri hl., lítur hann svo á, að gildandi tollskrá sé undirstaðan undir tolltekjum ríkissjóðs, eins og þær eru áætlaðar á yfirstandandi ári, og að það sé m. a. af þeim ástæðum ekki eðlilegt að leggja til, að teknir séu út ákveðnir liðir úr tollskránni til þess að minnka á þann hátt tolltekjur yfirstandandi árs, sem eins og kunnugt er hefur verið ráðstafað á fjárl. yfirstandandi árs. Er þetta meginástæðan fyrir því, að við leggjum til, að frv. verði fellt. — Sú skoðun hefur einnig komið fram, að þótt hér sé um menningartæki að ræða, geti þau ekki talizt til lífsnauðsynja, og þess vegna sé ekki óeðlilegt, að tollar séu teknir af þessum hljóðfærum, meðan þeir eru ekki afnumdir af nauðsynjavöru, sem þarf til allrar framfærslu. Sé ég svo ekki ástæðu til að ræða þetta mál frekar.