05.02.1951
Efri deild: 64. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í C-deild Alþingistíðinda. (2912)

97. mál, tollskrá o.fl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er eins og fyrri daginn með hv. þm. Barð., hann bregður öðrum um útúrsnúninga, þegar hann skilur ekki sín eigin ummæli. Meiri hl. n. þykir ekki tiltækilegt að breyta tollalöggjöfinni í einstökum atriðum, af því að við það raskast undirstaðan undir tolltekjunum, og þess vegna mundi undirstaðan raskast með samþykkt frv., ef hann meinar nokkuð með þessari tilvitnun í undirstöðuna. Það er sýnilegt, að hv. meiri hl. hefur litið á þetta mál sem fjármál eða tollmál, en ekki sem menningarmál, og þess vegna er afgreiðsla hennar eins og hún er. Það kann að hafa verið sú tíð, að litið hefur verið á hljóðfæri sem mublur í húsum ríkra manna, en sem betur fer hefur þetta breytzt, þannig að nú líta flestir á hljóðfæri sem menningartæki, sem eigi að vera á hverju heimili, hliðstætt við bækur, en sá skilningur hefur ekki verið fyrir hendi hjá hv. frsm., enda langt fram yfir það, sem hægt er að vænta af honum.

Í framsöguræðu sinni sagði hv. frsm., að meiri hl. hafi talið, að hljóðfæri gætu ekki talizt til lífsnauðsynja, sérstaklega ef litið er á, að menning sé ekki lífsnauðsyn, en bækur eru heldur ekki lífsnauðsynjavara. Þó hefur sú glæta af menningarlegum skilningi slæðzt inn í tollskrá ríkisins að gefa bækur tollfrjálsar. — Þá benti hv. frsm. á, að félög og skólar gætu sótt um undanþágu frá tollum af hljóðfærum. Það má vera, að fjmrh. á hverjum tíma gefi slíkar undanþágur, en ég er hræddur um, að fjmrh. veiti ekki margar slíkar undanþágur, því að það er svo með hljóðfæri, að þótt þau séu í upphafi notuð sem kennslutæki, verða þau með tímanum eign viðkomandi aðila. — Þá sagði hv. frsm., að það væri enn meiri fjarstæða að samþ. frv., ef ríkisstj. hefði ákveðið, að hljóðfæri eigi að flytjast inn fyrir útvegsmannagjaldeyri. En ef við lítum á fjármálahliðina á þessu máli, þá komumst við að þeirri niðurstöðu, að með því að setja hljóðfæri í einokunarvöruflokk útgerðarmanna, sem ekki er undir verðlagseftirliti, og neyðum þá, sem vilja kaupa hljóðfæri, til að greiða þau með útvegsmannagjaldeyri, sem er 50–60% dýrari en hið opinbera gengi, þá verða þessi tæki, sem eru geysilega dýr fyrir, enn þá miklu dýrari vegna þess, hve tollarnir verða þá miklu hærri, eftir því sem varan er keypt hærra verði. Það er því ekki annað sjáanlegt en að fyrir meiri hl. vaki að torvelda öllum nema ríkum mönnum að eignast hljóðfæri, og það er þetta sjónarmið, sem meiri hl. n. túlkar. Það er hins vegar vitanlegt, að ríkissjóður skaðast ekki nema um örfáar þúsundir, ef þessi hljóðfæri væru undanþegin tolli. Hv. meiri hl. segir, að það hefði verið vegur að mæla með frv., ef till. hefði verið um að hækka tolltekjur á öðrum liðum. Ég vil benda á, að ég hefði getað komið með till. um að hækka tolla af næsta lið við hljóðfærin, sem fjallar um vopn og skotfæri, en ekki er ég viss um, að meiri hl. hefði skipt um skoðun, þótt ég hefði komið fram með slíka till.