20.02.1951
Neðri deild: 72. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í C-deild Alþingistíðinda. (2934)

161. mál, hraðfrystihús og útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. meiri hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég skal ekki fara mörgum orðum um ræðu hv. 2. landsk. Hann sagði, og bar þar fyrir sig bréf frá S. Í. F., að í grg. frv. þessa hefðu verið upplýsingar, sem ekki væru réttar, þar sem segir í grg., að samkv. ákvæðum l. nr. 38 1948 væri saltfiskur undanþeginn útflutningsgjaldi. Ég skal játa, að þetta gæti valdið misskilningi, ef ekki væri lesin nema þessi setning, en það kemur fram, ef grg. er lesin áfram, að hér er átt við það, sem rennur til fiskveiðasjóðs. Enn fremur höfum við flm. þessa frv. í áliti meiri hl. sjútvn. sundurliðað þau gjöld, sem greidd eru af útfluttum sjávarafurðum samkv. l. nr. 81 1947 og l. nr. 38 1948 um þann útflutning, svo að þetta fer eitthvað á milli mála hjá hv. þm. Hitt er svo annað mál, að svo er greitt sérstakt gjald í hlutatryggingasjóð bátaútvegsins, en það er annars eðlis og greitt samkvæmt öðrum lögum.

Hv. 2. landsk. hélt því fram, að það gætti ósamræmis í því, að á sama tíma og Alþ. væri að gera tilraun til að styrkja saltfisksframleiðsluna, þá gerði það ráðstafanir til að taka meira fé af henni. Þetta kann að virðast undarlegt. En er þetta ekki það, sem alltaf er verið að gera og gert er, þegar það er talið til gagns? Við, sem að þessu frv. stöndum, höfum haldið því fram, að sé þetta útflutningsgjald á annað borð lagt á, þá sé í sjálfu sér ekki ástæða til að undanþiggja saltfisksframleiðsluna því, og höfum því farið fram á að leggja þetta gjald á saltfisksframleiðsluna eins og aðra fiskframleiðslu og samræma þannig lögin. Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta atriði, en vildi minnast á annað atriði, sem kom fram í ræðu hv. 2. landsk.

Í frv. er lagt til, að helmingi þess tekjuauka, sem af þessu verður fyrir fiskveiðasjóð, skuli varið til lána til hraðfrystihúsa, sem hafa ekki fengið stofnlán. Hv. 2. landsk. sagði, að réttara hefði verið að gera ráðstafanir til, að stofnlánadeildin gæti veitt þessi lán, og taldi mikla möguleika á slíku. En okkur skildist, að slíkir möguleikar væru ekki fyrir hendi. Í fyrra var svo til ætlazt, að fé því, sem kæmi inn af framleiðslugjaldinu, væri varið í þessu skyni, en það var síðar fellt úr gildi, en við vildum nú bæta það upp með þessari samræmingu á útflutningsgjaldinu. Við höfum verið að leita að leið til að bæta úr þessari þörf, og okkur virðist, að það sé helzt þessi leið, sem til greina komi.