20.02.1951
Neðri deild: 72. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í C-deild Alþingistíðinda. (2935)

161. mál, hraðfrystihús og útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Það má ef til vill segja, að nokkur ósanngirni sé í því að hækka gjald á íslenzkum útflutningsvörum, en það virðist svo, að Alþ. vilji ekki hverfa frá því, og þess vegna teljum við flm. þessa frv., að sanngjarnt sé að taka gjald af saltfiski eins og af hraðfrystum fiski og öðrum útfluttum sjávarafurðum Þá vil ég taka fram, að eins og litið var á saltfisksframleiðsluna í byrjun s. l. árs og menn hvattir til að stunda hana, þá skýtur nokkuð skökku við að leggja útflutningsgjald til fiskveiðasjóðs á allar sjávarafurðir nema saltfisk. Ég skil ekki slíka túlkun, ekki sízt þegar þess er gætt, að fiskveiðasjóður hefur lánað allmikið fé til saltfisksþurrkunarhúsa. Ég skil því ekki, að saltfisksframleiðendur eigi ekki að greiða fyrir þessa aðstoð, sem allir útgerðarmenn eru þakklátir fyrir, og tel ég fyllstu sanngirni mæla með, að frv. þetta verði samþ., meðan fiskveiðasjóður stendur jafnvel í ístaðinu um lánveitingar og hann hefur gert undanfarið. Bréf það frá S. Í. F., sem hér hefur verið vitnað í við þessa umr., má telja hártogun, þar sem við flm. höfum aðeins í huga þetta 1½%, sem rennur til fiskveiðasjóðs, en það var tekið af honum hvað varðaði saltfisk með l. frá 1948. En við flm. teljum fulla sanngirni mæla með að taka þetta gjald af saltfisksframleiðendum eins og af öðrum útgerðarmönnum. Þetta er sú stofnun, sem þjónar bezt þörfum sjávarútvegsins, og svo mikil útgjöld sem þó eru lögð á framleiðsluna, þá mundi ég fúsast greiða þetta gjald. Ég verð að segja, að ég varð undrandi yfir ræðu hv. 2. landsk. Hann hefði átt að lýsa því yfir, að honum þætti slæmt, að þetta gjald skyldi vera lagt á frysta fiskinn, en enginn, sem rætt hefur þetta mál við okkur, hefur haldið því fram, að rangt væri að leggja þetta gjald á aðrar útflutningsgreinar, aðeins nefnt saltfiskinn. Það er trú mín og von, að saltfisksframleiðslan eigi svo góða framtíð fyrir sér, að hún geti greitt þetta gjald ekki síður en aðrir. Ég vil því skora á hv. þm. að fylgja okkur að þessu máli og samþykkja frv.