17.10.1950
Neðri deild: 4. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í C-deild Alþingistíðinda. (2944)

11. mál, hvíldartími háseta á togurum

Flm. (Sigurður Guðnason):

Herra forseti. Þetta mál hefur legið fyrir undanförnum þingum, en hefur ekki náð fram að ganga. Það merkilegasta við afgreiðslu málsins er kannske það, að það hefur aldrei verið beinlínis tekin afstaða á móti, heldur hafa alltaf verið farnar aðrar leiðir. Fyrst hefur málið verið sett í n. og síðan vísað til ríkisstj. eða afgr. með rökst. dagskrá. Þetta er eðlilegt, því að í rauninni hafa aldrei verið færð fram nein rök fyrir, að þetta mál væri ekki réttlætismál, því að þeir menn, sem þarna er átt við, hásetar á togurum, hafa verið háðir allt öðrum reglum en nokkrir aðrir menn í þjóðfélaginu, og þeir eru einu mennirnir, sem hafa sérstaklega allt undir þingið að sækja, hvort þeir ættu að vinna allan sólarhringinn eða hvort þeir eiga að fá hvíld. Það er athugandi, að á sama tíma sem aðrir starfsmenn þjóðfélagsins eru búnir að fá fastan vinnutíma, verkamenn 8 tíma og opinberir starfsmenn 8 tíma og þar undir, og ef þessir menn vinna fram yfir, þá fá þeir fyrir það sérstakt kaup, sem er 1/3 eða helmingi hærra, þá fá þeir, sem eru á skipunum, ekkert slíkt, hvað mikið sem þeir vinna. Flestir starfsmenn þjóðfélagsins fá sjöunda daginn frían, en þessir menn fá engan frídag. Og það merkilegasta er það, að aðrir starfsmenn á skipunum hafa nú fengið 8 stunda vinnudag. Það eru bara hásetarnir, sem vinna erfiðustu verkin, sem verða að vinna miklu lengur en allir aðrir.

Það stóð í Morgunblaðinu fyrir nokkru, að við gætum ekki haft skemmri vinnutíma á okkar togurum en gerðist hjá þeim, sem við yrðum að keppa við. En það merkilega skeði í ágúst í sumar, að hingað kom maður frá Boston, og hann sagði, að þar hefðu sjómennirnir fengið 12 tíma vinnudag fyrir löngu og þar á ofan fengju þeir frían sjöunda hvern túr. M. ö. o., þar er viðurkennt, að sjómenn eigi eins og aðrir að fá að halda hvíldardaginn heilagan. En hér er ekki litið á þessa menn eins og aðra menn. Og þó að maður gleymi öllu, sem um það er sagt, að þessir menn færi björg í bú, séu hetjur hafsins o. s. frv., þá er annars staðar litið svo á, að þessir menn eigi að hafa rétt til að hvílast eins og aðrir menn. Það er því ekki undarlegt, þó að þeim hv. þm., sem bera ábyrgð á ofþjökun þessara manna, hrjósi hugur við að greiða beint atkv. til að fella frv. eins og þetta, en leiti heldur undanbragða og reyni að eyða málinu á einhvern annan hátt.

Næst verður það, að á síðasta þingi tóku fulltrúar tveggja stærstu þingflokkanna þá afstöðu, að réttast væri, að verkamenn og atvinnurekendur semdu um þetta sín á milli eins og venja er til um kaup og kjör. Ég geri ráð fyrir, að það hafi aldrei komið frá Alþingi fyrr samþykkt eins og þessi, sem væri beinlínis gerð til þess að koma í veg fyrir, að atvinnurekendur og verkalýður semdu. Það er undarlegt, og þessi hefur líka orðið raunin á. Ég er sannfærður um, að einmitt þessi samþykkt hefur verið einna mest til fyrirstöðu því, að samningar tækjust í togaradeilunni. Togaraeigendum er ljóst, að ef þessu yrði breytt, yrðu menn að fá eitthvað sérstaklega fyrir það, ef þeir yrðu látnir vinna svona lengi. Ég er sannfærður um, að þetta vita allir, sem einhvern tíma hafa setið að samningaborði. Ef samið er um sérstök fríðindi, þá vill sá, sem samið er við, fá eitthvað sérstakt fyrir það. Við gætum hugsað okkur verkakonu í landi, sem ynni jafnan vinnutíma og togarahásetar. Þó að ekki séu reiknaðir nema 23 virkir dagar og 3 sunnudagar, sem er of lítið, þá mundi hennar kaup á mánuði verða 4678 krónur, en verkamaður með sama vinnutíma mundi fá 6378 krónur. Ég veit ekki, hvað fyrir þeim mönnum vakir, sem telja, að vinna togaraháseta sé það miklu minna virði en vinna verkakvenna og verkamanna, að rétt sé að gera slíkan mismun. Ég er alveg viss um, að engin vinna, sem unnin er meðal þjóðarinnar, er jafnmikils virði og vinna þessara manna, en engin vinna jafnilla borguð. Ef þetta er ekki til þess fallið að koma upp úlfúð milli verkamannanna og vinnuveitendanna, þá veit ég ekki, hvað það er. Og engin stofnun er jafnsek um þetta sem Alþingi.

En nú er önnur hlið á máli þessu, en hún er um afköst sjómanna og útgerðarkostnaðinn. Ég hef alltaf verið sannfærður um og veit, að aðrir munn sjá það og skilja, ef þeir athuga málið rólega og hleypidómalaust, að skipshöfn, sem vinnur 16 tíma á sólarhring, hvað þá 24 tíma, hún afkastar ekki nærri því eins miklu og skipshöfn, sem skiptir vinnu sinni niður í 12 tíma vaktir, auk þess sem það fyrr nefnda er misþyrming á sjómönnum. Það hefur verið gerð tilraun með það hjá togurum að hafa 12 tíma hvíld í sólarhring án þess að bæta við mönnum á skipin, og það hefur sýnt sig, að afköstin eru sízt minni með því móti. — Ég mun svo ekki hafa fleiri orð um þetta mál að svo komnu máli, en óska að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og sjútvn.