24.11.1950
Efri deild: 25. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í C-deild Alþingistíðinda. (2961)

104. mál, orkuver og orkuveita

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 190 frv. til laga um nýtt orkuver og nýja orkuveitu rafmagnsveitna ríkisins, þar sem ríkisstj. er heimilað að fela rafmagnsveitum ríkisins að virkja jarðhita á Reykhólum til raforkuvinnslu í allt að 100 kw. orkuveri og leggja þaðan orkuveitu um byggðina, og eins og tekið er fram í 2. gr. frv., að heimila ríkisstj. að taka lán fyrir hönd ríkissjóðs, að upphæð allt að 1100 þús. kr., til greiðslu á stofnkostnaði þessara mannvirkja, og að 1/3 þeirrar upphæðar megi taka sem lán úr raforkusjóði samkvæmt 1. lið 35. gr. raforkulaganna. Einnig er gert ráð fyrir, að framkvæmdir samkv. 1. gr. hefjist ekki fyrr en athugun á kostnaði hefur farið fram og tryggt hefur verið nægilegt fé til framkvæmdanna.

Eins og getið er um í grg., — og get ég að miklu leyti látið nægja að vísa til hennar —, þá eru svo miklar framkvæmdir nú á Reykhólum, að það mundi torvelda mjög árangur þeirra framkvæmda, ef ekki yrði unnt að útvega staðnum nægilega raforku, og því til frekari stuðnings læt ég nægja að vísa til grg.

Ástæðan til þess, að ég hef valið þá leið að æskja eftir því, að hverahitinn verði virkjaður í stað vatnsorkunnar, er sú, að rannsókn hefur leitt í ljós, að takmörkun raforkuvinnslu með vatnsvirkjun er þar svo mikil, að ekki er hægt að fá nema um 100 kw., og kostnaður við beizlun hitaorkunnar litlu meiri, en möguleikar á að auka hitaorkuna með borun mjög miklir. Því hef ég talið eðlilegt að fara inn á þessa leið. Ég leyfi mér enn fremur að vísa til fylgiskjala þeirra, sem ég hef látið fylgja hér með, sem eru útdráttur úr fundargerðabók skipulagsnefndar Reykhóla og áætlun frá raforkumálaskrifstofunni. Það hafa farið fram nákvæmar rannsóknir og athuganir á kostnaði og framkvæmd í sambandi við þetta mál, og sé ég ekki ástæðu til að taka hér upp tölur eða annað úr fylgiskjölunum, en vil leyfa mér að vísa sérstaklega til fylgiskjals I, þar sem mælt er með, að þessu máli sé hrundið í framkvæmd sem fyrst.

Ég vil að síðustu minnast ögn á bráðabirgðaákvæðið í lagafrv. þessu, þar sem kveðið er svo á, að „þar til komið hefur verið upp orkuveri því, sem um ræðir í 1. gr., er ríkisstj. heimilt að fela rafmagnseftirlitinu að koma upp dieselrafstöð á Reykhólum, allt að 60 kw. orku, enda sé fé lagt fram til þess á fjárlögum.“ — Í sambandi við þetta vil ég benda á, að með því að leggja til í frv., að komið verði upp dieselrafstöð og aðalhitaveitunni frestað, þá þarf minna fé til framkvæmdanna, er að þeim kemur, og mannvirkjagerðin öll hægari í framkvæmd, auk þess sem ég tel, að hægt sé nú að fá 60 kw. dieselrafstöð með hagstæðu verði, því að setuliðsnefnd mun hafa nokkuð af slíkum vélum, sem ríkisstj. hefur til ráðstöfunar.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa lengra mál um þetta nú, og ég vænti þess, að málinu verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og til hv. iðnn., því þótt þetta sé fjárhagsmál, þá hefur iðnn. alltaf fjallað um slík mál, t. d. Sogsvirkjunina, og mælist ég því til, að þessu máli verði einnig vísað til hennar.