18.01.1951
Efri deild: 52. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í C-deild Alþingistíðinda. (2964)

104. mál, orkuver og orkuveita

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Þetta mál hefur verið hjá iðnn. til athugunar, og hefur hún rætt það á nokkrum fundum. Málið var sent til raforkumálastjóra til umsagnar, og er umsögn hans birt sem fylgiskjal á þskj. 496. Raforkumálastjóri leggur til, að málið sé ekki samþ., eins og sést á hans bréfi, þar sem hann álítur, að það þurfi að athuga nánar orkuþörfina í sambandi við Reykhóla og sérstaklega í sambandi við fyrirhugaða þaraverksmiðju, sem eigi að setja upp þar. Iðnn. gat fallizt á þessa aths. frá raforkumálastjóra og leggur því til, að málið verði afgreitt með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá:

„Í trausti þess, að þegar verði gerðar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að koma upp héraðsrafmagnsveitu ríkisins á Reykhólum í Austur-Barðastrandarsýslu, er fullgerð sé eigi síðar en á n. k. ári, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég vil að lokum taka það fram, að þessi afgreiðsla málsins er gerð í samráði við raforkumálastjóra, eftir að hans umsögn hafði komið, og hann taldi, að ef málið væri afgr. þannig nú, eins og farið er fram á, þá mundi raforkuráð taka til athugunar, hvort ekki væri hægt að taka þetta upp í framkvæmdir héraðsrafmagnsveitna ríkisins þegar á þessu ári og undirbúa málið þannig, að hægt væri að ljúka á næsta ári þeim framkvæmdum, sem hér er ætlazt til að verði gerðar, annaðhvort sem bráðabirgðaframkvæmd eða að öllu leyti raflýsingu eins og eigi að nota hana í framtíðinni.

N. leggur því til, að málið sé afgr. á þann hátt, sem ég hef lýst, og vænti ég þess, að hv. d. geti fallizt á það. Ég skal taka það fram, að einn nm., hv. 1. þm. N-M., var ekki á fundi vegna veikinda.