14.11.1950
Efri deild: 19. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í C-deild Alþingistíðinda. (2975)

60. mál, kaup á ítökum

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég gat þess við 1. umr. þessa máls, að við flm. frv. hefðum breytt nokkuð 1. gr., til þess að taka af þann ágreining, sem hér var í fyrra um það, hvað væru ítök. Eins og gr. var orðuð, mátti skilja, að það væri skoðað ítak, þegar einhver jörð ætti land utan sinna eðlilegu landamerkja en innan landa annarrar jarðar. Frá þessu er nú horfið, og er hér það aðeins kallað ítak, þegar einhver jörð á réttindi til landsnytja á annarri jörð en sinni eigin, og það segja mér lögfróðir menn, að það sé venja að kalla þetta eitt ítak, en ekki hitt, þegar jörð á bæði land og rétt til nytja lands, þótt það sé innan landamerkja annarrar jarðar. Ég vona þess vegna, að sá ágreiningur, sem var í fyrra hér í hv. d. út af 1. gr., þurfi nú ekki að standa lengur í vegi fyrir málinu.

Landbn. hefur athugað frv., rætt það á fundum sinum og gert við það tvær brtt., við 5. og 6. gr. — Fyrri brtt. er til þess gerð að tryggja það, að umboðsmaður eiganda ítaks, ef hann er búsettur í öðru lögsagnarumdæmi en því, sem ítakið er nytjað í, geti gegnum þann, sem þar er dómkvaddur til, komið fram sínum sjónarmiðum, ef mat þarf að fara fram á ítakinu. Ég held, að þeim mönnum, sem vantreysta því að möt séu gerð hlutdrægnislaust og halda, að einhver hlutdrægni geti komizt að í slíku tilfelli, þegar maður ætlar að kaupa ítak undir jörð sína, finnist meiri trygging í því, að matið verði réttlátt, ef einn matsmaðurinn er heimilisfastur þar, sem sá, sem ítakið telst eiga þá stundina, en nytjar ekki, á heimili. Ég geri þess vegna ráð fyrir því, að um þetta sé enginn ágreiningur í d., svo og ekki um hitt, að taka það fram í l., sem ekki hefur verið gert áður, að sá, er óskar mats, greiði kostnað við það.

Við höfðum í fyrra bætt nýrri gr. inn í frv., til þess að tryggja, að ítak yrði ekki selt, ef þannig mætti líta á, að það væri verðmætara og nýttist betur af þeim, sem nytjaði það, heldur en þeim, sem mundi annars fá það keypt. Til þess að gera þetta enn gleggra hefur orðalagi 6. gr. nú verið breytt eins og segir í nál. á þskj. 145. Þar er það alveg skýrt ákveðið, að ef hinir dómtilkvöddu menn komast að þeirri niðurstöðu við mat, að ítak nýtist betur áfram frá þeirri jörð, sem nýtti það, heldur en þeirri, sem það yrði keypt undir, þá verði sala á því óheimil. Ég held þó, að slík tilfelli séu fá. Það er þó kannske á 10–20 stöðum um einkaítök að ræða, sem enn þá eru nauðsynleg þeim jörðum, sem nytja þau, vegna þess að þær eru ekki komnar það langt áleiðis með sína túnrækt að geta aflað nægilegs heyfengs án þeirra, og eru ítökin því nauðsynlegri þessum jörðum heldur en þeim, sem þau mundu annars leggjast undir.

Ég vona, að báðar þær breyt., sem n. gerði á frv., verði samþ. og að það verði nú að l., því að það er mjög óeðlilegt, að jarðir, kirkjur og ýmsar stofnanir eigi ítök margar dagleiðir — jafnvel í bifreið — frá sínum heimkynnum.