14.11.1950
Efri deild: 19. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í C-deild Alþingistíðinda. (2977)

60. mál, kaup á ítökum

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. hefur nú gert við þetta sínar aths. Honum þótti það mjög óviðeigandi, að niður félli eignarréttur manna til ítaka, þó að þeir gæfu sig ekki fram við auglýsingu. Hér er ekki neitt nýtt á ferð. Þessi ákvæði í 2. og 3. gr., sem hann talaði um, eru nákvæmlega samhljóða einni setningunni í l. um skógarítök, sem dómsmrh. hafði ekkert við að athuga og greiddi atkv. með á sínum tíma. Í þessum umræddu l. er kveðið svo á, að eigendur skógarítakanna verði að gefa sig fram innan ákveðins tíma frá birtingu auglýsingar í Lögbirtingablaðinu, því að annars falli réttur þeirra niður, og þannig hefur réttur til þeirra flestra fallið niður. Hins vegar er sjálfsagt að athuga, hvort ástæða þyki til að breyta þessu, en þessi ákvæði hér eru tekin upp úr umræddum l., sniðin ettir þeim, og ég sé ekki neina hættu á því, að það komi að neinni sök.

Þá sagði hæstv. ráðh., að hann teldi eðlilegast, þegar yfirmat ætti sér stað, að hæstiréttur tilnefndi þá matsmennina, en ekki héraðsdómarar. Ég geri ráð fyrir, að það fyrsta, sem okkur ber þarna á milli, sé það, að ég er ekki svo hræddur um, að maður, sem settur er í dómnefnd til að gera eitthvert verk, sýni í því hlutdrægni, og það þótt kunningi hans einhver sé aðili í málinu, og þess vegna finnst mér ekki eins rík ástæða og sumum öðrum til þess að láta ekki héraðsdómara heima í héraðinu, þar sem ítökin eru nytjuð, tilnefna dómnefndarmennina. Þegar við hnigum að því ráði að setja viðkomandi héraðsdómara þarna inn til að tilnefna dómnefndina, en ekki hæstarétt, þá var það af tveimur ástæðum og aðallega þeirri, að þegar hæstiréttur kemur yfirleitt nærri mati, þá kostar það eitthvað margfalt, — ég skal ekki segja, hvað margfalt, en töluvert margfalt meira en ef mennirnir eru tilnefndir af héraðsdómurum, án þess að ég fari út í einstök tilfelli, sem hægt er að tína til, til að sanna þetta. Þar sem þessi kostnaður veltur á þúsundum og tugum þúsunda á stundum hjá hæstarétti, þá þótti okkur gróflega viðurhlutamikið, ef ágreiningur risi um nokkurt ítak, sem hlypi upp á nokkur hundruð króna, að láta hæstarétt tilnefna mennina og sóa þannig fé í kaup til þeirra og allt, sem því er samfara. Það er þessi kostnaður, sem olli því, að við tókum ekki hæstarétt inn. Hitt getur svo verið, að með því að taka hæstarétt inn og þegar mönnum væri ljóst, hve dýr hann er, gæti það orðið til þess, að ekki yrði farið í mat.

Ég hef nú skrifað niður þær aths., sem hæstv. ráðh. hefur gert í þessu sambandi, og skal ég lofa því, að n. athugi frv. á ný milli 2. og 3. umr. og þessar aths. og viti, hvort henni finnst ástæða til að gera breyt. Ég óska því, að hæstv. forseti taki málið ekki á dagskrá, fyrr en komnar eru frá okkur brtt. eða þá hann er búinn að frétta frá okkur, að það komi ekki brtt. Ég skal láta hæstv. ráðh. vita, þegar n. er búin að taka sínar ákvarðanir, og tala um það við forseta að taka ekki málið á dagskrá fyrr en einum til tveimur dögum þar á eftir, svo að honum gefist kostur á að koma fram með sínar brtt.