26.02.1951
Sameinað þing: 47. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1431 í B-deild Alþingistíðinda. (30)

Almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður)

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það er ekki nýtt, að beðið er eftir úrlausnum frá hæstv. ríkisstj. til þess að koma bátaútveginum af stað. Undanfarin ár hefur ætíð staðið í sama stappinu, en þó hefur jafnan verið leitazt við að haga afgreiðslu þeirra mála svo, að ekki hlytist af stöðvun bátaflotans. Í fyrra voru t.d. til bráðabirgða sett l. um fískábyrgð fyrri part janúar, til þess að hægt væri að hefja vertíð nokkurn veginn á réttum tíma. Núv. hæstv. ríkisstj. hefur hins vegar látið sér sæma að halda öllu í hinni mestu óvissu fram til febrúarloka. Með þessu hefur bátaútveginum og þjóðinni í heild verið bakað mikið tjón, enda á dráttur sá, sem orðið hefur á því að finna einhverja lausn á vandamálum bátaútvegsins, nokkra sök á því stórfellda atvinnuleysi, sem verið hefur að undanförnu í flestum bæjum og þorpum landsins. En hvernig stendur á þessum mikla drætti? Gerir ríkisstj. þetta að gamni sínu? Svo er ekki, heldur er málum þjóðarinnar svo komið undir handleiðslu þeirra ríkisstj., sem hér hafa setið síðustu árin, að engar meiri háttar aðgerðir er hægt að gera í atvinnumálum þjóðarinnar án þess að sækja um leyfi erlendra stjórnarvalda. Síðustu þrjár ríkisstj., sem setið hafa við völd, eru með alls konar samningum búnar að binda þjóðina svo í fjötra, að aðstaða landsins er orðin einna líkust nýlenduríkis. Frá því í desember hefur ríkisstj. orðið að afla sér leyfis, auk fjárstyrkja, hjá ríkisstjórn Bandaríkjanna fyrir því að mega leysa þau vandamál, sem steðja að atvinnulífi þjóðarinnar, á þann hátt, sem hún telur heppilegast og tiltækilegast. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt, þó að sitt sýnist hverjum um það, hvernig leysa skuli vandamálin; það er mál okkar Íslendinga sjálfra að hnotabítast um það. Hitt er miklu alvarlegra, þegar ríkisstjórn Íslands þarf að bíða eftir því röska tvo mánuði að fá leyfi erlendra stjórnarvalda til ráðstafana, sem hún vill gera. Minnir þetta ástand óþyrmilega á þá tíma er Íslendingar urðu að sitja aðgerðalausir eftir því, að danskur konungur og dönsk ríkisstj. ákvæði, hvað gert yrði í málum þeirra. Fáa hefði órað fyrir því í ársbyrjun 1947, að hlutskipti íslenzku þjóðarinnar yrði orðið svo ömurlegt að fjórum árum liðnum og nú er komið á daginn. En nú loks er leyfið komið frá Bandaríkjunum, ásamt gjafafé og lánsloforðum, svo að nú getur hæstv. ríkisstj. hafizt handa. Nú í lok febrúar er hægt að leysa þau mál, sem þurfti að leysa fyrir tveimur mánuðum. Á þingfundi í morgun birti hæstv. ríkisstj. almenningi þær ráðstafanir, sem eiga að tryggja rekstur bátaflotans á þessu ári.

Áður en ég vík orðum mínum að fyrirætlunum hæstv. ríkisstj. tel ég óhjákvæmilegt að ræða nokkuð um þá lausn, er hæstv. ríkisstj. fann á þessum sömu vandamálum í fyrra, lausn, sem samkvæmt yfirlýsingu ríkisstj. og hagfræðinga hennar átti að vera varanleg allsherjarlausn, er leysti vandamál bátaútvegsins svo rækilega, að ekki þyrfti að fást við þau í náinni framtíð, þ.e.a.s. gengislækkunina. Með gengislækkuninni var verð erlends gjaldeyris og þar með innflutningsverð allrar innfluttrar vöru hækkað um 75%. Þessi ráðstöfun var byggð á nákvæmum útreikningi og álitsgerðum amerískra hagfræðinga og samkvæmt fyrirmælum að vestan. Með gengislækkuninni átti að fást samræmi milli framleiðslukostnaðar útflutningsvörunnar í landinu og verðlagsins í markaðslöndunum. Samkvæmt útreikningi hagfræðinganna átti verðlag innanlands að hækka um 11–13%, en verð fisksins til bátaflotans að hækka úr 75 aurum í 95 aura kg af slægðum bolfiski með haus. Þrátt fyrir það að þegar var bent á, að þessir útreikningar fengju ekki staðizt, að verðlag innanlands mundi hækka meira, og fiskkaupendur, hraðfrystihús og aðrir lýstu yfir, að þeir gætu ekki keypt fiskinn á hærra verði en 75 aura kg, skellti hæstv. ríkisstj. skolleyrum við og hélt sitt strik. Nú er reynslan búin að fara höndum um útreikninga hagfræðinganna og ríkisstj. Verðlag hefur hækkað, ekki um 11–13%, heldur 28%, og fiskverðið hækkaði ekki í 93 aura, heldur stóð það kyrrt í 75 aurum. Þetta hefur orðið þjóðinni mjög dýr reynsla, og væri nauðsynlegt fyrir hana að læra af þessari reynslu og reyna að forðast endurtekningu á amerískum patentlausnum á vandamálum þjóðarinnar. Hæstv. ríkisstj. virðist hins vegar ekkert hafa lært og engu gleymt síðan hún framkvæmdi gengislækkunina í fyrra.

Aðalrökstuðningurinn fyrir gengislækkuninni var sá, að þrátt fyrir þær fórnir, sem hún krefði allar launastéttir landsins um, væri hún skilyrði þess, að bátaflotinn, sem framleiðir 2/3 hluta gjaldeyrisins, gæti starfað. Gengislækkunin átti að auka útflutningsframleiðsluna og þar með auka atvinnuna í landinu. Með því móti átti gengislækkunin að veita þjóðinni aukið atvinnuöryggi um alla framtíð og vera varanleg lausn á öllum vandamálum atvinnulífsins. Enginn dregur það í vafa, að þjóðin hefur fórnað miklu vegna gengislækkunarinnar. En hvert hefur orðið hlutskiptí bátaflotans, bæði sjómanna og útvegsmanna? Hafa þeir notið góðs af þeim auknu útgjöldum, sem á þjóðina voru lagðar með gengislækkuninni? Nei, síður en svo, sjómenn og útvegsmenn hafa orðið einna verst fyrir barðinu á gengislækkuninni. Útvegurinn stóð ekki föstum fótum fyrir, en eftir gengislækkunina hefur keyrt alveg um þverbak. Fyrir gengislækkun var fiskverð, eins og áður er gefið, 75 aurar fyrir kg, en auk þess naut bátaflotinn hlunninda úr ríkissjóði, er námu hér um bil 10 aurum á kg fyrir útgerðina. Þau hlunnindi voru afnumin, en verðið stóð í stað. Hins vegar hækkuðu svo til allar nauðsynjar útvegsins þegar í stað um nærri 75%. Bjargráðin urðu þungar, óbærilegar byrðar. fyrir útveginn. Sem dæmi vil ég nefna einn togbát, sem stundaði veiðar allt árið 1950 hér við Faxaflóa. Bátur þessi veiddi um 650 tonn. Útgjaldaaukning þessa báts vegna gengislækkunarinnar, þ.e.a.s. hækkun olíuverðs og veiðarfæra, nam um 45 þús. kr. Missir hlunnindanna úr ríkissjóði nemur hins vegar um 65 þús. kr. Gengislækkunin hefur því kostað þennan bát á annað hundrað þús. kr. á árinu, því að fiskverðið hélzt óbreytt í 75 aurum. — Útkoman er enn ömurlegri hjá þeim bátum, sem stunda línuveiðar, því að hjá þeim er veiðarfærakostnaður meiri og auk þess stórfelldur beitukostnaður. Afleiðingar þessa urðu óhjákvæmilega þær, að framleiðslan dróst saman. Flestir línubátanna voru starfræktir út vertíðina 1950, en eftir það mátti heita, að tæki að mestu fyrir línubátaútgerð og raunar alla fiskútgerð.

Gengislækkunin hefur þannig valdið samdrætti í framleiðslu bátaflotans og hefur átt mestan þátt í að valda atvinnuleysi í landinu, enda hefur atvinnuleysi á þessum vetri verið meira en dæmi eru til síðan 1939. Gengislækkunin hefur sýnt sig að vera endileysa og leitt til stórfellds tjóns fyrir þjóðina. En þjóðin er ekki búin að bíta úr nálinni með gengislækkunina. Nú er verðlag á innflutningsvörum okkar ört stígandi, sem stafar af hinum mikla vigbúnaði, sem Bandaríkin og fylgiríki þeirra hafa hafið. Þessar verðhækkanir vega þyngra og valda meiri truflunum fyrir íslenzkt atvinnulíf vegna gengislækkunarinnar.

Nú segja talsmenn gengislækkunarinnar, að lækkun á afurðum þjóðarinnar erlendis hafi valdið því, að gengislækkunin hafi ekki komið að gagni, og fullyrða jafnframt, að ef gengislækkun hefði ekki verið framkvæmd, hefði bátaútvegurinn stöðvazt. Þetta er ósatt. Engin slík lækkun hefur átt sér stað á mörkuðum okkar. Gengislækkunin stöðvaði raunverulega bátaflotann. Hins vegar hefði fiskábyrgð, miðuð við 75 aura verð og sömu hlunnindi og bátaútvegurinn hafði á árinu 1949, ekki kostað ríkissjóð á árinu 1950 nema lítið brot af því, sem gengislækkunin hefur þegar kostað þjóðina, og eru þó engan veginn öll kurl komin til grafar.

Vandamál útvegsins eru nú miklu stórfelldari og vandleystari en nokkru sinni áður. En það verður hver maður að festa sér vel í minni, að þau stafa nú að verulegu leyti af þeirri „lausn“, ef lausn skyldi kalla, sem hæstv. ríkisstj. greip til á s.l. ári. Ráðstafanir þær, sem hæstv. ríkisstj. ætlar nú að gera í sambandi við útveginn, bera á sér sömu einkenni og gengislækkunin. Það er amerískt patent, sem á að leysa vandann.

Ríkisstj. hefur birt lista yfir ýmsar vörur, sem útvegsmenn eða öllu heldur útflytjendur afurða bátaútvegsins mega flytja inn, en jafnframt á að afnema allt hámarksverð á vörum þessum, svo að hægt sé að selja þær á miklu hærra verði en annars hefði verið. Þeir, sem flytja út afurðir bátaútvegsins, aðrar en þorskalýsi og síldarafurðir, eiga að fá heimild til að ráðstafa til innflutnings helmingnum af þeim gjaldeyri, sem þeir afla, eða selja öðrum innflytjendum þann rétt.

Þeir útreikningar, sem standa að baki þessara ráðstafana, gera ráð fyrir því, að útflutningsframleiðslan standi undir 75 aura fiskverði. Hins vegar er talið, að fiskverðið þurfi að verða 96 aurar á kíló fyrir þorsk. Því, sem á vantar að þetta verð fáist, á að ná með álagningu á innflutning. Heildarupphæð þess gjaldeyris, sem afhentur verður útflytjendum framleiðsluvara bátaútvegsins, er áætluð ca. 85 millj. kr. Þannig er gert ráð fyrir, að með því að afnema hámarksverð á þeim vörum, sem fluttar verða inn fyrir þennan gjaldeyri, verði hægt að selja vörur þessar svo háu verði í landinu, að það svari að meðaltali 50% hækkun á verði erlends gjaldeyris. Hér er að sjálfsögðu um nýja gengislækkun að ræða, með þessu fyrirkomulagi er raunverulega tekið upp tvöfalt gengi. Það er að vísu reynt að dulbúa hana. Ef heildarupphæð þess gjaldeyris, sem þannig er ráðstafað, verður 85 millj. kr., eins og gert er ráð fyrir, þýða þessar ráðstafanir yfir 40 millj. kr. nýjar álögur á þjóðina ofan á alla nefskatta, sem fyrir eru. Vörur þær, sem þessi verðhækkun nær til, eru mjög margvíslegar og þó þannig, að hver einasta fjölskylda þarf að kaupa mikið af þeim, svo að ekki er fjarri lagi að deila þessum nýju álögum niður á íbúana. Sé það gert, nema þessar álögur um 1400 kr. á hverja 5 manna fjölskyldu í landinu.

Í ráðstöfunum hæstv. ríkisstj. er ekki fyrirhugað að gera neitt til að hækka fiskverðið eða til að ákveða fast lágmarksverð. Skilyrði fiskábyrgðarinnar var, að greitt væri fyrir fiskinn auglýst lágmarksverð. Með því var sjómönnum og útvegsmönnum tryggt fast, ákveðið verð. Nú er hins vegar ætlazt til þess, að útflytjendur fái þessi hlunnindi, að mega taka um 40 millj. kr. úr vasa almennings, án þess að þeir séu skyldir til að greiða sjómönnum það fiskverð, sem þessar álögur eiga að tryggja. Með þessu móti getur svo farið, að sjómenn og þeir útvegsmenn, sem ekki geta sjálfir flutt út afurðir sínar, heldur þurfi að selja hraðfrystihúsum og saltfiskframleiðendum fisk sinn, fái ekkert eða aðeins hluta af þeirri fiskverðshækkun,sem hinar nýju álögur eiga að gera mögulegar. Ef svo fer, lendir þetta mikla fé hjá öðrum en þeim, sem til er ætlazt. Samtök sjómanna verða að fylgjast vel með í þessum málum, og inn í samninga þeirra við atvinnurekendur verður að setja ákvæði um lágmarksfiskverð.

Nú er eftir að athuga, hvort ráðstafanir þessar koma útveginum að gagni. Hættan á því, að svo verði ekki, er óneitanlega mjög mikil. Til þess að geta orðið aðnjótandi þeirrar aukaálagningar, sem ráðstafanir hæstv. ríkisstj. gera ráð fyrir, þarf viðkomandi útvegsmaður að skila gjaldeyrinum fyrir útflutningsvörur sínar, og hafi hann fengið lán í banka út á framleiðsluvörur, verður hann að greiða það lán þá þegar. Hafi hann þá gert upp við sjómenn og útvegsmenn fyrir hráefnið, verður hann að leggja út alla þá upphæð, sem honum er ætlað að græða á innflutningnum, og það er engin smáupphæð. Tökum sem dæmi hraðfrystihús, sem flytur út fyrir eina millj. kr. Markaðsverðið er talið standa undir 75 aura verði. Gerum ráð fyrir, að þetta hraðfrystihús greiði hið auglýsta verð útvegsmanna, 96 aura fyrir kg af fiski; þá hefur hann orðið að leggja út hátt á annað hundrað þús. kr., þegar gjaldeyririnn er kominn heim. Hann fær til ráðstöfunar helming gjaldeyrisins, eða 500 þús. kr. Þegar hann fer svo að panta vörurnar, þarf hann að leggja út fyrir bankaábyrgðinni a.m.k. 30%, eða 150 þús. kr., og síðan að greiða verð vörunnar og tolla, þegar hún kemur og áður en hún er seld. Þetta er hverjum einasta útvegsmanni og hraðfrystihúsi ofviða, eins og nú er komið efnahag þessara aðila. Að vísu mun hæstv. ríkisstj. hafa farið á fjörurnar við bankana um að lána útvegsmönnum ögn rýmra en áður hefur verið gert, en bæði er það, að bankarnir hafa ekki enn gengið inn á neitt slíkt, og ef svo verður, þá verður aðeins lánað brot af því, sem leggja þarf út, áður en varan er seld hér innanlands. En hver verður þá afleiðing þessa? Hún verður sú, að útvegsmenn verða í stað þess að flytja inn vörurnar sjálfir að selja kaupsýslumönnum og öðrum fésterkum bröskurum innflutningsleyfi sín fyrir hluta af þeirri álagningu, sem þeim er ætluð. Gæti svo farið, að aðeins lítið brot af þeim 40 millj. kr., sem nú eru lagðar á almenning, lendi hjá útveginum. Það er svo sem ekki nema í samræmi við allar aðgerðir núv. hæstv. ríkisstj. að búa svo um hnútana, að heildsalar og aðrir auðmenn Reykjavíkur sitji uppi með meginhlutann af þeim ca. 40 millj. kr., sem enn á að kreista út úr almenningi. Er það ætlun stj. að fylla hér allt af vörum, því að hún telur, að nú hafi henni tekizt að lækka svo kaupgetu fólks, að ekki sé hætta á, að vörurnar verði keyptar upp jafnóðum. Út af fyrir sig er það gott og blessað að fá nytsamlegar vörur inn í landið, en það er áreiðanlega ekki hollt fyrir þjóðina að kaupa neyzluvörur sínar fyrir gjafafé og lánsfé í stað þess að vinna fyrir þeim sjálf. Með þessu er farið inn á stórhættulega braut. Hver sú þjóð, sem vill vera sjálfstæð, verður að gera sér það ljóst, að hún getur ekki verið það, nema hún sjálf afli sér gjaldeyris fyrir innfluttum nauðsynjum með vinnu sinni. Þjóðin verður líka að gera sér ljóst, að hún getur ekki lifað af gjöfum og lánum. Það liður að því, að gjafir hætti að berast og lánin verða að greiðast, og þá er hætt við, að sú þjóð, sem í áhyggjuleysi hefur lifað um efni fram, vakni við vondan draum. Svo er engin hætta á því, að gefandinn vilji ekki fá eitthvað fyrir gjafir sínar. Það er gamalþekkt aðferð stórþjóða, er vilja seilast til valda yfir smáþjóðum, að gefa ríkulega á meðan þær eru að ná tangarhaldi á viðkomandi þjóðum. Þjóðin þarf vissulega að gjalda varhug við því, að byggja afkomu sína á slíkum gjöfum og lánum.

Tveir miklir annmarkar eru á þessari sníkju- og lánapólitík ríkisstj., sem orðið geta til þess að lama atvinnulíf þjóðarinnar meira en orðið er. Hætta er á því, að þjóðin leggi sig siður fram um að auka útflutning sinn, þar sem ekki verður eins knýjandi nauðsyn á öflun gjaldeyris, á meðan verið er að eyða gjafa- og lánsfénu. Þetta mun t.d. koma fram í því, að vöruskiptaverzlun verður erfiðari og áhættusamari en verið hefur. Svo sem vitað er, hefur allmikill hluti af freðfisksútflutningnum staðið í sambandi við vöruskipti við þær þjóðir, sem keypt hafa fiskinn. Ef nægar birgðir eru til í landinu af þeim vörum, sem hlutaðeigandi þjóðir vilja bjóða fyrir fiskinn, þá er vonlaust að selja þann fisk. Þetta mun leiða til þess, að framleiðslan dregst saman og atvinnuleysi eykst. Þetta atriði ætti öllum að vera ljóst. Fyrir vöru, sem framleidd er í landinu til útflutnings, eru greidd vinnulaun til hinna mörgu, sem við framleiðsluna vinna. Þegar svo inn eru fluttar vörur fyrir andvirði hennar, þá er kaupgeta til staðar í landinu til að kaupa þær. Séu hins vegar að miklu leyti fluttar inn vörur fyrir gjafafé, hefur enginn kaupmáttur skapazt í landinu til kaupa á þeim. Verði þessi innflutningur til þess að minnka útflutninginn og þar með draga úr framleiðslu útflutningsvörunnar, eins og augljóst er, þá valda gjafirnar og lánin og vörurnar, sem fyrir það eru fluttar inn, mjög miklu atvinnuleysi. Þá verður ástandið þannig, að allar búðir verða fullar af vörum, en fólk verður atvinnulaust þúsundum eða jafnvel tugþúsundum saman og á þá sennilega að skemmta sér við að horfa á allar búðir fullar af vörum, sem það getur ekki keypt. En þá telur víst ríkisstj. loksins vera komið á jafnvægi og alla örðugleika yfirstigna.

Enn einn annmarki á hinum fyrirhugaða stórfellda vöruinnflutningi fyrir gjafafé eða lán er sá, að innflutningurinn verði til þess, að sjálft patentið, sem á að tryggja afkomu bátaflotans, verki ekki. Ef mikið af vörum er flutt inn, án þess að sköpuð sé kaupgeta í landinu, er mjög hætt við því, að kaupgetunni, sem þegar er stórlega minnkuð vegna síhækkandi skatta og vöruverðs, verði bókstaflega fullnægt, þannig að menn hafi alls ekki peninga til að kaupa þær vörur, sem útvegsmönnum er ætlað að flytja inn og selja hér með miklu álagi, til þess að geta látið atvinnurekstur sinn bera sig. Ef gjafavöruinnflutningurinn verður svo fyrirferðarmikill, orkar það enn á framleiðsluna til samdráttar. Ráðstafanir ríkisstj. til að tryggja rekstur bátaflotans eru framhald á sömu glæfrabraut og farið var inn á með gengislækkuninni. Allt bendir til þess, að þessar ráðstafanir muni ekki tryggja rekstur bátanna, heldur stórauka örðugleika þeirra, með þeim afleiðingum, að framleiðslan dragist enn saman og atvinnuleysi stóraukist.

Eins og ég hef bent á, eru ráðstafanir þær, sem ríkisstj. boðar nú, byggðar á því að leggja nýjar álögur á alþýðuna. Um þetta eru báðir stuðningsflokkar núv. ríkisstj. sammála. Og sömu aðferðum var ætíð beitt á meðan borgaraflokkarnir þrír sátu í stjórn árin 1947–49. En vegna þess, að enn er vegið í sama knérunn, er ekki úr vegi að rifja upp, hvernig þessir þrír flokkar, sem svo fagurlega nefna sig lýðræðisflokka, hafa búið að alþýðunni og þá einkum verkamönnum og öðrum launþegum á undanförnum árum. — Svo sem öllum er minnisstætt, hófu borgaraflokkarnir þrír stjórnarsamstarf í ársbyrjun 1947 undir forustu Alþfl. Það varð upphafið að raunasögu alþýðunnar í landinu. Þrátt fyrir forustu Alþfl. voru allar aðgerðir þessarar stjórnar skipulagðar árásir á kjör alþýðunnar. Á árunum frá 1947 til 1949, þ.e.a.s. á stjórnartímabili Stefáns Jóh. Stefánssonar, voru neyzluskattar á almenning, sem Alþfl. hefur á stefnuskrá sinni að afnema, hækkaðir úr 50 millj. í 155 millj. kr., eða um rösk 200%. Þessi hækkun nefskatta nemur 3750 kr. á hverja 5 manna fjölskyldu í landinu. Ég skal taka það fram, að hér er ekki tekin með hækkun á tóbaki og áfengi, sem nam þau ár, sem Alþfl. hafði forustuna, 36 millj. kr. Þetta má nú kalla allvel af sér vikið, einkum þegar það er gert undir styrkri forustu flokks, sem enn þá kennir sig við alþýðuna. Ekki var samt látið sitja við þetta, heldur var því bætt ofan á, að vísitalan var bundin við 300 stig. Gamla vísitalan fór upp í 355 stig, og þegar nýja vísitalan var lögfest við gengislækkunina í vor og kölluð 100, var þessum 55 stigum sleppt, án þess að tillit væri tekið til þeirra í hinni nýju vísitölu eða kaup hækkaði sem því svaraði. Binding vísitölunnar nemur því 18% launalækkun og gildir enn. Hver launþegi, sem hafði 20 þús. kr. í árslaun, hefði því átt að hafa 3600 kr. meira, ef vísitalan hefði ekki verið bundin. Geri maður nú ráð fyrir, að neyzluskattarnir, sem lagðir voru á þessi ár, næmu þriðjungi vísitöluhækkunarinnar, eða 16 af 55 stigum, þá er heildarupphæð þess, sem launþegar voru sviknir um með vísitölubindingunni og rændir með hækkuðum neyzlusköttum, 6150 kr. á hverja 5 manna fjölskyldu í landinu, sem hafði um 20 þús. kr. árstekjur. Allt var þetta gert í nafni lýðræðis og frelsis. — Þess skal að vísu getið, að undir forustu sósíalista tókst verkamannafélaginu Dagsbrún í Reykjavík, Þrótti á Siglufirði og nokkrum fleiri að knýja fram hækkun á laun verkamanna. En það var nú ekkert smáræði, sem á gekk hjá ríkisstj. Stefáns Jóh. Stefánssonar til þess að hindra, að verkamenn fengju kaupbætur. Annar af ráðherrum Alþfl. gekk fram fyrir skjöldu borgaraflokkanna þriggja og kallaði það glæp af verkamönnum að fara fram á launahækkun. Opinberir starfsmenn nutu góðs af baráttu verkamanna, er þeir fengu uppbætur á laun sín með samþykkt Alþingis árið 1949.

Þegar þetta er athugað, þá er engin furða, þótt Stefán Jóhann kjósi nú að beita fyrir sig þeim Gylfa og Hannibal, eins og hlustendur heyrðu áðan. Þeim er ætlað að snúa nokkrum af þeim, sem fengu nóg af framkvæmdum Stefáns Jóhanns á hugsjónum Alþfl. árin 1947–49, til fylgis við flokkinn á nýjan leik. Ef þetta tekst að nokkru ráði, þá mun Stefán Jóhann segja: Takk fyrir, nú skal ég, — og þá tekur hann upp þráðinn þar, sem hann neyddist til að sleppa honum að afstöðnum kosningum 1949.

Ástandið er nú orðið mjög alvarlegt hjá alþýðunni. Dýrtíð og skattar er orðið svo þungbært, að þótt fólk hafi vinnu allt árið, hrökkva tekjurnar ekki fyrir brýnustu þörfum. Þegar svo ofan á það bætist mikið og vaxandi atvinnuleysi, sem allar horfur eru á að aukist við hinar boðuðu ráðstafanir, þá er það ljóst, að ástandið er orðið óbærilegt fyrir launþegana. Fjöldi heimila stendur bjargarlaus vegna stefnu og aðgerða ríkisstj., en þrátt fyrir það á enn að halda áfram á sömu braut.

Núverandi ríkisstj. hefur fylgt þeirri stefnu, sem mörkuð var af stjórn Stefáns Jóhanns, í aðgerðum sínum gegn alþýðunni, einkum launþegunum. Samstarfi þessara flokka hefur aðeins verið slitið formlega. Enn þá starfar Alþfl. með núverandi stjórnarflokkum í verkalýðssamtökunum, með sama takmarki og þegar þeir sátu saman í ríkisstj. En nú eru augu alþýðunnar að opnast fyrir því, að borgaraflokkarnir hafa í bróðurlegu samstarfi á síðustu 4 árum hrundið henni úr velmegun niður í fátækt og atvinnuleysi. Útreið sú, sem samfylking borgaraflokkanna fékk í Iðju, félagi verksmiðjufólks, við stjórnarkjör í gær, er órækur vottur þess.