16.01.1951
Efri deild: 50. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í C-deild Alþingistíðinda. (3010)

38. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Þegar fyrri hluti 2. umr. um þetta mál fór fram, gerði ég grein fyrir afstöðu meiri hl. til frv. á þskj. 55. Síðan hefur verið dálítið rætt um frv., og hafa ýmis sjónarmið komið fram. Það hefur borið á því í blöðum og á fundum, að konur telji það ranglátt að telja fram til skatts með mönnum sínum. Konurnar vilja telja þetta sitt mál um aukin kvenréttindi og hafa lagt mikla áherzlu á það. Hjónabandið er eins konar félag, og hefur löggjöfin talið rétt, að þetta félag teldi fram í heild. Hjón með tekjur sínar samanlagðar komast hærra í skatti en einstaklingur, sem ekki aflar eins mikilla tekna. Nú virðist mér, ef ætti að breyta þessu svo rökrétt væri, að skattaframtal hjóna kæmi til skipta á tvo einstaklinga, og þá kæmust þau í skattstiganum í svipaða hæð og einstaklingur. Og þá væri kvenréttindahugsjóninni náð. En fram á þetta hefur ekki verið farið, nema konan ynni fyrir sér utan heimilis. Frv. það, sem hv. 4. þm. Reykv. vitnaði í og saknaði, að skuli ekki vera til umr. hér, byggist á því, að þetta sé gert. Hins vegar bætist við aukið frádrag, þ. e. a. s. kostnaður, sem fram kemur, ef hún þarf að kaupa vinnu við heimilið, svo að þetta sé í samræmi við skattaframtalið. Kona, sem vinnur utan heimilis, hefur ekki meiri rétt til að telja tekjur sínar fram sér heldur en bóndakonan, sem gengur á engjar. Ef konan, sem dregur kaup í bú, má telja fram sér, má bóndakonan hafa sama rétt. Þessar konur eiga báðar að búa við sama rétt, en frv. á þskj. 208 skapar misræmi milli þessara tveggja kvenna. Frv. á þskj. 55 vill bæta úr þessu misræmi, sem finna má, ef keypt er vinna. Bóndakonan og sjómannskonan mega, eftir skattaframtali, telja til kostnaðar vinnu, sem þær kaupa til húshjálpar. Það er áætlað á þskj. 55, að draga megi launakostnað frá, ef hann er við heimilishaldið. Venjulegast er húshjálpin matartilbúningur og barnahjálp. Ég held því, að þeir, sem mæla með samþykkt frv. á þskj. 208, hafi, ef svo má að orði kveða, of mikið launamannasjónarmið, enda eru konur þær, sem það varðar, úr launastétt, en bænda- og sjómannakonur hafa ekkert látið til sín heyra í þessum efnum. En ef hjón eiga að koma fram sem tveir skattþegnar, þá er eðlilegast og réttlátast, að þau skipti heildartekjum sínum jafnt á milli sín með deilingu. Ég er á þeirri skoðun, að annað það frv., sem hér liggur fyrir varðandi þetta efni, sé til bóta, þar sem það strikar út ósamræmi, en hitt frv., að leyfa þeim konum, sem vinna útí, að telja sérstaklega fram, skapar ósamræmi gagnvart þeim konum, sem vinna að framleiðslunni. Ég held, að dagskrártill. hv. 11. landsk., sem fjallar um að vísa þessu máli frá vegna þess, að fyrir dyrum standi endurskoðun á skattalöggjöfinni, eigi að vísu rétt á sér, en hún felur í sér að skjóta réttlætismáli á frest, sem enginn veit, hve verður langur, né hve þessi endurskoðun verður gagnger, þegar hún kemur, en enn þá er hálfur mánuður þangað til skattaframtöl verða innheimt í kaupstöðum, og langt er þangað til þau verða innheimt úti á landi. Ég tel því ekki rétt að samþ. dagskrártill. hv. 11. landsk.

Þá er hin mikla till. hv. þm. Barð. Ég verð að segja, að ég hafði gaman af að lesa grg. fyrir henni, en hér er um svo stórt og óvenjulegt mál að ræða, að ég held, að enginn þm. annar en hv. þm. Barð. sé tilbúinn að greiða atkvæði um hana, en hér er um myndarlega till. að ræða, og má segja, að hún sé myndarleg fjarstæða. Mér skilst, að Bretar séu sú þjóð, sem lengst er búin að hafa hjá sér tekju- og eignarskatt, og sagt er, að einu sinni eftir Napoleonsstyrjaldirnar hafi þeir fellt hann niður, en hafi tekið hann upp fljótlega aftur, og það virðist því í því sambandi næsta undarlegt ráð, ef íslenzka þjóðin ætlar að fella það niður, að hver þegn þjóðarinnar greiði skatt eftir efnum og ástæðum. Hv. þm. Barð. sagði, að furðulega lítils hluta af þjóðartekjunum væri aflað með tekju- og eignarskatti, en miklu væri kostað til við innheimtu hans. Hv. 4. þm. Reykv. svaraði honum í gær og gerði það réttilega, en ég vil taka það fram af því, að það kom aðeins óbeinlínis fram í ræðu hans, að tekna sveitarfélaganna er nú að mestu leyti aflað á þennan hátt, og að þau byggja aðallega á þessum tekjum, og fæ ég ekki séð, á hvern hátt þeim yrði bætt það upp, ef þessi tekjuliður yrði lagður niður. Það, sem ég vil segja, er því það, að ég tel sjálfsagt að samþ. frv. á þskj. 55, því að ég tel það beztu lausnina á þessu máli, sem enn hefur verið bent hér á. Ef til vill væri bezt að skipta tekjunum jafnt á milli hjóna með deilingu og skattleggja svo hjónin hvort fyrir sig, ef þeir, sem skattinn eiga að fá, telja sig mega verða fyrir þeirri skattrýrnun, sem af því stafaði, og kvenréttindakonurnar mega telja sig fullsæmdar af því, en ég vil benda á, hvar línan liggur, ef henni er fylgt til hlítar.