16.01.1951
Efri deild: 50. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í C-deild Alþingistíðinda. (3016)

38. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 1. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst þakka hæstv. forseta fyrir hans Salómonsdóm í þessu stóra máli, en vil jafnframt leyfa mér að benda hæstv. dómsmrh. á, að það er rétt, að slíkt mál ætti að fá 6 umr. En þetta mál hefur fyrst og fremst fengið meðferð í hv. fjhn. þessarar d. og hefur tækifæri til að fá 2. og 3. umr. d. og meðferð fjhn. og umr. hjá hv. Nd., et það verður samþ. hér, og kemur ef til vill aftur til umr. í þessari d., ef því verður breytt í Nd. Ég ætla þess vegna, að hæstv. dómsmrh. geti verið rólegur út af meðferð þessa máls og get vísað til ákveðinna mála í þessu sambandi, þar sem slík meðferð hefur verið höfð á málum í Ed. og án þess að hann hafi gert við það nokkrar aths. Ég heyri, að hæstv. forseti hefur fellt sinn úrskurð, sem fyrr hefur verið felldur, að þannig skuli farið með mál, sem róttækar breyt. hafa verið gerðar við.

Í sambandi við ræðu hv. 6. landsk. (HV) vil ég benda honum á, að allar hans aths. við þetta stóra mál eru byggðar á algerum misskilningi. Hann sagði, að ég hefði með þessum till. lýst yfir, að fjárhagsáætlun ársins 1951 hafi verið svo varleg, að hægt væri að kippa undan 35 millj. kr., en hv. þm. hefur ekki látið svo lítið að lesa brtt. mínar, hvað þá að hafa lesið sjálfa grg. Í þskj. stendur — með leyfi hæstv. forseta: „Lög nr. 6 9. jan. 1935, um tekjuskatt og eignarskatt, og öll lagaákvæði um breyting á þeim lögum falla úr gildi þ. 31. des. 1951.“ Það á því vitanlega að innheimta allan tekju- og eignarskatt samkv. l. eins og þau eru nú og samkv. ákvæðum fjárl. fyrir árið 1951. En hv. þm. hefur flýtt sér að koma fram með þessa aths., áður en hann las till. Ég þarf því ekki að eyða fleiri orðum í sambandi við hans aths. Þær eru allar byggðar á sama flumbruhættinum og er ákaflega leiðinlegt að rökræða svona stórmál við mann, sem vill ekki einu sinni leggja á sig að lesa þau gögn, sem liggja fyrir í málinu. Ég hef hér aðeins stuttan tíma til að svara aths. hv. 6. þm. landsk., en hefði, ef fyrr hefði verið í umr., sýnt fram á, hversu mikil fjarstæða það er hjá honum að segja, að ég leggi til að afnema skattal. í þágu hátekju- og stóreignamanna, en þetta er jafnmikill misskilningur hjá honum og að till. mínar, ef samþ. verða, hafi áhrif á fjárhagsafkomuna 1951, en kannske gefst síðar tækifæri til að ræða þetta mál nánar við hv. 6. landsk. þm.