22.01.1951
Efri deild: 53. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í C-deild Alþingistíðinda. (3031)

38. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Út af fyrirspurn hv. 1. þm. N-M. vil ég gefa nokkra skýringu sem frsm. n. í þessu máli og flm. þeirrar brtt., sem samþ. var og hv. þm. vitnaði nú í, þar sem hann sagði, að ekki væri fullkomlega skýrt ákveðið í frv. til að skilgreina, í hvaða tilfellum kona teldist vinna hjá fyrirtæki manns síns eða ekki fyrirtæki hans. Fyrirspurnir hans voru tvær. Mér virðist, að báðum þeim sé hægt að svara með því að segja, að það verði að vera í hvert sínu matsatriði skattyfirvaldanna, hvort fyrirtæki, sem gift kona vinnur við, sem maður hennar þó er að einhverju leyti þátttakandi í, heyri undir það, að hún fái ekki rétt þann, sem í frv. er hér til tekinn, ef að l. verður, og ætlazt til, að hún fái. Þetta er svo margbreytilegt í framkvæmdalífinu, hvernig fyrirtæki eru sett með tilliti til manns og konu, að það væri algerlega ómögulegt, hygg ég, að láta koma fram í l. fulla skilgreiningu á því, heldur verður, skilst mér, að leggja þetta undir mat skattyfirvaldanna. Og mundi þá þetta, eins og nú standa sakir í ríkisskattan., heyra undir hv. fyrirspyrjanda sjálfan að taka þátt í að ákveða þetta.

Mér virðist aths. hv. 1. þm. N-M. við till. hv. þm. Barð. um að vísa málinu frá í trausti þess, að ríkisstj. feli dauðri nefnd að vinna — ef nefndin er annars dauð — sé náttúrlega algerlega eyðileggjandi fyrir dagskrártill. En hins vegar finnst mér dagskrártill. þessi sjálf vera nokkuð óbilgjörn gagnvart máli því, sem hér liggur fyrir. Málið er um skattamál hjóna. En tillögumaður, sem að vísu vill afnema tekjuskatt allan, — og þá auðvitað líka skattskyldu hjóna — hann hefur þann fyrirvara, ef eftir gaumgæfilega athugun ekki þykir fært að fella niður allan tekjuskatt, að hann leggur til, að felldur sé niður allur skattur af lágtekjum og allur skattur af tekjum þeirra fyrirtækja, sem reka áhættusaman atvinnurekstur o. s. frv. Og því er það, að ef hann vildi vera tillitssamur við þetta mál, sem hér liggur fyrir til umr., og taka í till. sinni tilefni af því, þá hefði hann líka átt að taka í dagskrártill. sína, að til athugunar skyldi taka, hvernig réttlátast yrði afgr. þetta mál, sem konur fyrst og fremst bera nú mjög fyrir brjósti, með því að þær telja, að þær séu ranglæti beittar í skatti. Ég held, að þessi till. hv. þm. Barð. hefði frekar átt að vera flutt sem þáltill. heldur en till. til rökstuddrar dagskrár í máli, eins og hún er fram sett. Og ég held þess vegna, að jafnvel þó að menn kynnu að vilja láta endurskoða þau atriði, sem hv. þm. Barð. nefnir í till., þá sé ekki hægt að vera með till., sem svona er fram sett og í sambandi við þetta mál, sem er skattamál hjóna, sem meiri hl. hér í hv. d. virðist ganga inn á, að sé þó í réttlætisátt, eins og það var afgr. við 2. umr.