22.01.1951
Efri deild: 53. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í C-deild Alþingistíðinda. (3032)

38. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. þm. Barð. lét í ljós þá von sína, að allir gætu fallizt á að samþ.till. hans til rökst. dagskrár, og að mér skildist vegna þess, að þar væri að einhverju leyti gengið til móts við alla, sem óánægðir væru með skattal. — þeir, sem væru óánægðir með að hækka ekki frádrátt hjóna vegna þess að konan vinnur utan heimilis, hlytu að vera ánægðir með að fella niður skattinn, og þeir, sem vildu hlífa lágtekjum við skatti, hlytu líka að vera ánægðir, og þeir, sem borga mikinn skatt, hlytu sömuleiðis að vera ánægðir með, að allur skattur yrði felldur niður. Ég held, að hv. þm. Barð. sé of bjartsýnn, ef hann heldur, að hægt verði að sameina hv. þd. um þessa lausn málsins, sem hann bendir á í sinni dagskrártill. — Höfuðrök hans á fyrsta fundinum, þegar málið var til umr., fyrir að fella niður tekjuskattinn, voru þau, að með því væri öllum gert jafnt undir höfði, eins og hv. þm. orðaði það. Ég vil nú segja, að þau rök eru mjög vafasöm. Ég fæ ekki með nokkru móti séð, að öllum sé gert jafnt undir höfði með því að fella niður tekjuskattinn. Þegar t. d. einn maður ætti að greiða 50 kr. í skatt og losnar við það og annar ætti að greiða 50 þús. kr. og sá þriðji 500 þús. kr. í tekjuskatt og losna báðir við það, þá er munurinn gífurlega mismunandi mikill fyrir þessa 3 aðila og þeirra efnahag, hvort skatturinn er á lagður eða ekki. Hér væri því ekki verið að jafna metin, heldur ójafna metin, með því að fella alveg niður tekjuskattinn, því verður ekki neitað. Annars skal ég ekki frekar ræða þessa dagskrártill. hv. þm. Barð., en víkja nokkuð að sjálfu frv.

Þetta mál var allmikið rætt hér við 2. umr. Ég fór þá fram á það við hæstv. forseta, að hann leyfði, eftir þá afgreiðslu, sem mál þetta fékk við 2. umr., að frv. á þskj. 208, sem einnig er um breyt. á tekjuskattsl. í sambandi við sköttun hjóna, en gengur lengra en það frv., sem hér liggur nú fyrir til umr., yrði tekið fyrir til umr. í d., að lokinni afgreiðslu þessa frv., sem hér liggur nú fyrir, þ. e. afgreiðslu þess við 2. umr. En hæstv. forseti taldi, að eftir þingsköpum væri þetta ekki gerlegt, og varð ég að sætta mig við þann úrskurð hans. Við þá umr. þessa máls kom fram brtt., sem að efni til var shlj. því frv., sem flutt var á þskj. 208, en hún náði ekki fram að ganga. Lýsti ég þá yfir við þá umr., að ég mundi við 3. umr. koma fram með till. um dagskrá til afgreiðslu málsins. Hv. þm. Barð. hefur nú orðið fyrri til og lagt fram rökst. dagskrá í málinn, þannig að dagskrártill. mín verður borin fram sem brtt. við dagskrártill. hv. þm. Barð.

Eins og menn muna, er munurinn á þessum tveimur frv., sem ég hef nú rætt um, sá, að í frv. á þskj. 208 er svo til tekið, að stundi kona atvinnu utan heimilis síns og hjá öðrum en manni sínum eða fyrirtæki, sem hann er meðeigandi að, skuli skattur lagður á tekjur hvors hjónanna um sig sér í lagi. En samkv. frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir því, að frá kaupi giftrar konu, sem vinnur utan heimilis og hefur ráðskonu til þess að standa fyrir heimilinu, — eftir að búið er að leggja kaup hennar við kaup mannsins, — megi draga ráðskonukaupið eða það, sem sannanlegt er, að ráðskonu er greitt fyrir vinnuna á heimilinu. Rökstuðningurinn fyrir þessu var sá, sem er rétt, að með því að leggja saman tekjur beggja, manns og konu, kæmu tekjurnar í hærri skattstiga heldur en ef þær væru skattlagðar hjá hvoru hjónanna fyrir sig. Þetta var talið sanngjarnt af hv. flm., að þessi skattfrádráttur væri leyfður. Ég benti á það við 2. umr. og fleiri hv. þm., að með þessu væri enn aukið það misræmi og ranglæti, sem fram er komið í skattal. í þessu efni. Þau hjón, sem eru svo efnum búin, að af því að konan vinnur úti geta þau keypt ráðskonu til þess að standa fyrir heimilinu, þau eiga að njóta þessara fríðinda. Aftur á móti, ef svo er ástatt, að konan vinnur úti til þess að drýgja tekjur manns síns, sem ekki eru fullnægjandi til þess að sjá heimilinu farborða, en treystir sér samt ekki til þess að kaupa ráðskonu, svo að hún leggur á sig að vinna eitthvað utan heimilis og líka að veita heimilinu forstöðu, en hún fær engan frádrátt. Þetta er fullkomið ranglæti í garð þeirrar síðar töldu konu. Þarna er ívilnað öðrum konum, sem betur eru settar, en þessari konu neitað um frádrátt með því að einskorða skattívilnunina við það, að ráðskona sé fengin til þess að standa fyrir heimili og annast heimilisstörfin. Það er minni þörf fyrir þessa ívilnun á heimili, sem er vei statt efnalega og þar sem hjónin geta af þeirri ástæðu keypt ráðskonu til að vinna á heimilinu, heldur en gagnvart heimili, þar sem ekki eru þær fjárhagsástæður, að þar sé hægt að halda ráðskonu, en konan leggur á sig, ásamt heimilisstörfunum, að vinna utan heimilis síns. Af þessum ástæðum hef ég ekki getað fylgt frv., en tel, að leiðin, sem lagt er til í frv. á þskj. 208, að farin sé, sé rétt til bráðabirgða. En ég álít, að þetta mál verði alls ekki vel leyst á þennan hátt. Ég álít réttast og eðlilegast að hverfa frá samsköttun hjóna með öllu, þannig að þegar konan vinnur utan heimilis, þá séu hennar tekjur taldar fram sér, og ef konan vinnur heimilisstörf og þar er fullt starf fyrir konuna að vinna, þá reiknist af sameiginlegum tekjum hjónanna konunni tekjur fyrir sína vinnu, þó hún vinni heimilisstörf, og á hennar tekjur verði svo lagður skattur sérstaklega. Þetta er það, sem kvennasamtökin, sem hafa beitt sér fyrir þessu máli, leggja áherzlu á, en ekki að lækka skatt á nokkrum tugum hjóna í landinu, eins og mundi verða gert, ef þetta frv. væri samþ. Að þetta vakir fyrir kvennasamtökunum í landinu, er augljóst af grg. þessa frv., sem hér liggur fyrir, þar sem segir svo, að „þeir aðilar, sem hafa beitt sér fyrir málinu, haldi fast við þá lausn þess að afnema samsköttun hjóna.“ Hv. flm. frv. segir að vísu í grg., að það séu engar horfur á því, að hægt sé að fá þá breyt. lögfesta nú. En hvaðan henni kemur sú vitneskja, er mér ekki kunnugt um. — Eins og stendur virðist ekki von um að fá sæmilega lausn á þessu máli á þessu þingi. Ég hef því leyft mér að flytja till. um rökst. dagskrá, sem er flutt sem brtt. við rökst. dagskrártill. á þskj. 512, og hún hljóðar svo: „Dagskrártill. orðist þannig: Í trausti þess, að ríkisstjórnin leggi frumvarp milliþinganefndar þeirrar, er starfað hefur að endurskoðun tekju- og eignarskattslaganna, fyrir næsta Alþingi og að þar komi m. a. fram tillögur um sérsköttun manns og konu, þótt gift séu, telur deildin rétt að fresta efnisafgreiðslu málsins á þessu stigi og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég tel, að rétt sé það, sem hv. 1. þm. N-M. upplýsti, að sú milliþn., sem vikið er að í till. hv. þm. Barð. og till. minni, sé ekki til nú sem slík. Þess vegna er orðalag minnar till. líka þannig: „milliþn. þeirrar, er starfað hefur,“ o. s. frv. — Ég held, að það sé einsýnt, að verulegur vilji sé fyrir því á hæstv. Alþ., að leiðrétt sé að einhverju talsverðu leyti það misræmi og ranglæti, sem fram kemur í samsköttun hjóna. En það er ekki leiðrétt með því frv., sem hér liggur fyrir. En það yrði veruleg bót ráðin í þessu efni, ef samþ. væru efnisákvæði frv. á þskj. 208. En það rétta til að stefna að í þessu máli er án efa að sérskatta mann og konu, þótt gift séu, eftir ákvæðum, sem um það þarf að setja.

Ég hef heyrt, og ég hygg, að það sé rétt, að milliþn. sú, sem starfað hefur að endurskoðun skattal., muni hafa lokið störfum fyrir um það bil tveimur árum. Ég hygg, að einmitt í till. þeirrar n. séu till. um nokkur þau atriði, sem drepið er á í dagskrártill. hv. þm. Barð. Ég hygg, að þar séu ákvæði um að auka persónufrádrátt, um strangara eftirlit með skattframtölum og annað nauðsynlegt. En að sjálfsögðu er ríkisstj. ekki bundin við að leggja frv. eins og það er komið frá þessari n. óbreytt fyrir Alþ. Ríkisstj. getur lagt það fyrir Alþ., hvort sem er óbreytt eða eitthvað breytt, og síðan væri það hlutverk hæstv. Alþ. að ákveða um það, hvort það næði fram að ganga eins og það væri lagt fyrir þingið.

Að svo mæltu leyfi ég mér að afhenda hæstv. forseta þá skrifl. brtt. við dagskrártill. hv. þm. Barð., sem ég hef lýst hér, og bið hann að leita afbrigða fyrir henni.