22.01.1951
Efri deild: 53. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í C-deild Alþingistíðinda. (3038)

38. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 1. minni hl. (Gísli Jónsson): Ég hafði ekki ætlað mér að ræða efnislega um þetta mál. En það eru þegar komnar fram allmargar brtt. og auk þess hefur hv. frsm. meiri hl. farið inn á efnishlið málsins, svo að ég þarf að svara þeim orðum að nokkru. Hv. frsm. meiri hl. sagði, að ekki væri viðkunnanlegt að koma með dagskrártill. við þetta frv. á þann hátt, sem ég hef gert. Ég veit ekki, hvað er orðið viðeigandi eða óviðeigandi í sambandi við þetta mál. Hvenær sem einhver brtt. er borin fram í þessu máli, á það ekki að vera viðeigandi, af því að málið sé svo smátt, en till. svo stór. Og hv. þm. sagði einnig, að þetta væri því síður viðeigandi, þar sem vitað er, að meiri hl. d. væri með frv. eins og það er nú. Þetta er hreinn misskilningur. Málið var afgr. hér við síðustu umr. með 6:5 atkv., svo að langt er frá, að það sýni út af fyrir sig nokkurn meiri hl. fyrir málinu, enda má segja, að málið sé svo lítilfjörlegt og auvirðilegt, að menn vilja ekki ljá því lið eins og það er. Það er líka búið að fara þannig með það síðan það kom fram, m. a. með til.. frá frsm. meiri hl. Væri bætt talsverðu á ranglætið með því að afgr. það þannig, og enn frekar með því að samþ. till. hv. 11. landsk. Vil ég benda honum á, að vel gæti verið, að hjón ættu engan hlut í félagi, sem börn þeirra ættu í. Og þá ætti að fyrirmuna þessi fríðindi, ef konan vinnur úti í þágu slíks félags, og er það hart. Og ég hygg, að þegar farið er að athuga þetta, verði erfitt að takmarka þetta við það, að ekki sé fyrirtæki mannsins, ef það er skýrt þannig, að maðurinn eða konan eða fjölskyldan eigi fyrirtækið, þó að ekki sé um að ræða nema t. d. 25 þús. kr. í milljóna fyrirtæki. Svo að hér er hv. 11. landsk. að leggjast á sveif um að fremja frekara ranglæti, sem ekki er hans vani yfirleitt.

Þá vil ég í sambandi við brtt. frá hv. 4. þm. Reykv. segja nokkur orð. Ég hef vitað, að hann er einn af fremstu mönnum í Alþfl., en ég hélt ekki, að honum væri eins tamt að snúa öllu við eins og blöð hans gera venjulega. Hann hélt því fram, að aðalrök mín í málinu væru þau, að ég væri að gera öllum jafnt undir höfði. Hvenær hefur hann heyrt mig halda fram þessum rökum í þessu máli? Hann hefur þá ekki hlustað nokkurn skapaðan hlut né lesið mína grg. Mín aðalrök eru þau, að ég tel stórkostlegan hag fyrir ríkissjóð og sérstaklega fyrir þjóðarheildina að afnema skattalögin, og einna mestan hag fyrir lágtekjumennina. Ekki hefur verið reynt að hrekja þetta. Mundi þá hlaupa slíkur vöxtur í athafnalífið, að fátækustu þegnarnir í þjóðfélaginu mundu hafa miklu meiri afkomumöguleika. Þetta voru mín aðalrök. Það eru mín aðalrök, að þetta er engu síður gert fyrir hina fátæku eða lágtekjumennina en fyrir aðra menn. Hv. 6. landsk. hélt fram við síðustu umr., að ég væri hér að túlka sérstaklega stefnu Sjálfstfl. Ég hef ekki reynt að mótmæla, að hann væri þessu samþykkur, en vil þó benda honum og öðrum hv. þm. á, að við atkvgr. veit ég ekki betur en að enginn sjálfstæðismaður hafi fylgt þessari skoðun, sem hann sagði að ég túlkaði. Og hans ágæta blað heldur fram, að ég rói einn á báti. Annaðhvort hlýtur það að vera rangt, sem hann heldur fram, eða þm. Sjálfstfl. hafa hrokkið við og snúizt hugur í málinu. Nei, þetta er ekkert annað en fyrirsláttur hjá hv. þm. Ég túlka mína skoðun, eftir að hafa lagt mjög mikla vinnu í að rannsaka afleiðingarnar af skattalögunum eins og þau eru nú. Og ég get fullvissað menn um það, að rík áherzla var lögð á það sjónarmið, hvað til góðs væri fyrir hina fátæku alveg eins og þá ríku. Eins og ég tók fram í upphafi, að ef í sambandi við þessa till. er tekið til athugunar annað frv., sem liggur fyrir um breyt. á erfðalögum, þá á féð ekki að ganga til annars en félagsmálastarfsemi í landinu, m. a. til þess að byggja upp stofnun fyrir öryrkja. Ekki vill hv. 6. landsk. vinna með að neinu þessu, enda þótt hann hafi einu sinni sagt, að hann væri stoltur af að vera með í að flytja þetta frv. (HV: Það er annað mál.) En þetta er byggt upp sameiginlega. En um það, að mín höfuðrök hafi verið þau, að ég vilji gera öllum jafnt undir höfði, endurtek ég, að svo er ekki, heldur vil ég fara skynsamlegustu leið gagnvart atvinnumálum og fjárhagsafkomu þjóðarinnar yfirleitt. Og þau rök hafa ekki verið hrakin. Ég hef bent á, hversu gífurlegan kostnað skattainnheimtan hefur í för með sér. Hv. 4. þm. Reykv. hefur að vísu talið vafasamt, að sá útreikningur sé réttur. Ég nenni ekki að rökræða það frekar nú. En ég get fullvissað hv. þm. um, að einnig það atriði var mjög gaumgæfilega athugað. Það, sem ég fer fram á í minni dagskrártill., er ekki annað en það, að við athugum skattalögin, sem við erum allir sammála um, að þurfi að gera. Þá verða öll þessi sjónarmið rannsökuð. En nú skilst mér raunar hv. 4. þm. Reykv. ekki vilja láta rannsaka þessi mál, m. a. ekki láta mþn. í skattamálum rannsaka, hvort það sé til hagsbóta fyrir ríkissjóð, fyrir atvinnumálin og fyrir þjóðina alla, — og alveg sérstaklega fyrir þá fátækustu, að tekjuskatturinn sé afnuminn. Hann vill láta sínar fullyrðingar gilda sem hæstaréttardóm um þetta mál. Ég hélt ekki, að hann væri svo einstrengingslegur, að hann vildi neita allri rannsókn. Ég get fullvissað hv. þm. um það, að til eru margir menn í landinu, sem hafa starfað mjög að þessum málum og þekkja þau betur en við gerum hér til samans, og hafa talið mjög sterk rök fyrir því að afnema skattalögin. Samt vill hv. þm. ekki láta athuga þessi mál í mþn. Ég vil einnig ganga svo langt að afnema alla skatta á lágtekjur. Og ég vil vera með í að athuga, hvort ekki ætti að skatta hjón sitt í hvoru lagi.

Ég get ekki fellt mig við samþykkt brtt., sem stefnir að útilokun hinna sjálfsögðustu rannsókna í þessu máli, og ég mun því greiða atkv. á móti dagskrártill. En varðandi þessa till. vil ég bera fram fyrirspurn til hæstv. forseta. Þar sem þetta er borið fram sem brtt. við mína till., þá skilst mér, ef þetta verður samþ. áður en mín till. kemur til atkv., að hún verði þá ekki borin upp á eftir. En þessi till. er bara í rauninni sjálfstæð till., en ekki brtt., og með því að mín till. fer lengra og er viðtækari, þá vil ég leyfa mér að vænta þess, að hæstv. forseti sjái sér fært að bera mína till. upp fyrst. Að minni till. fallinni mundi ég þá e. t. v. sjá mér fært að gjalda hinni samþykki. — Mér skildist, að hv. 11. landsk. stæði í þeirri meiningu, að þótt búið væri að samþ. till. hv. 4. landsk., væri samt hægt að bera upp mína till. eftir sem áður. Ég skil þetta samt á hinn veginn; og ég vænti þess, að hv. 11. landsk. athugi sitt mál og sjái sér fært að fylgja minni till.

Út af ummælum hv. 1. þm. N-M., að ekki væri hægt að orða till. mína eins og gert er, þar sem milliþn. væri ekki starfandi, þá vil ég upplýsa, að þegar spurt var um það atriði í fjhn., hvenær von væri á löggjöf um þetta efni, þá voru okkur flutt þau orð frá ráðh., að málið væri enn í undirbúningi og yrði ekki hægt að leggja það fyrir þetta þing, og þegar svo jafnábyggilegur maður og hv. 11. landsk. gekk út frá því í sinni till., að n. væri starfandi, þá tók ég það gilt. En ef þetta er ásteytingarsteinn, þá má vel nema hann í burtu, og ég vil ekki, að minni brtt. sé vísað frá af þeim ástæðum. Ég leyfi mér því að leggja fram, með leyfi hæstv. forseta, svofellda brtt. við till. mína á þskj. 512:

Í stað orðanna „að ríkisstjórnin feli milliþinganefnd þeirri, sem nú starfar að endurskoðun tekju- og eignarskattslaganna, að“ komi: að ríkisstjórnin láti halda áfram endurskoðun á tekju- og eignarskattslögunum og láti í sambandi við þá endurskoðun“ o. s. frv.

Ég leyfi mér að leggja fram þessa brtt. Og ef það er rétt, sem hv. 1. þm. N-M. heldur fram, að n. sé ekki starfandi lengur, þá getur hæstv. forseti e. t. v. borið um það. Liggi hins vegar ekki fyrir um þetta fullnægjandi upplýsingar, þá þætti mér rétt, að frestað yrði atkvgr. Og ég er reiðubúinn til þess að vera með í því, ef hv. 11. landsk. og hv. 4. þm. Reykv. vildu fá málinu frestað og freista þess þá að bræða síg saman um rökst. dagskrá. En ég get ekki fylgt rökst. dagskrá, þar sem ekki er gert ráð fyrir því, að þetta mál verði rannsakað. Mér er það áhugamál, að það verði gaumgæfilega athugað, hvort þau rök fái staðizt eða ekki, sem ég hef sýnt fram á í mínu nál., og breytingar á skattalögunum verði þá sniðnar eftir því, sem milliþn. kæmist þar að raun um.

Ég skal ekki tefja umr. um þetta mál, en vil endurtaka það, að í sjálfu sér er það lítilvægt og enginn ávinningur að því að fá það samþ. Með því er sumpart framið ranglæti og það torveldar vinnu fyrir skattstjóra og skattan., og er nóg gert að því nú þegar að auka á alla þá þvælu. — Ég vil svo leyfa mér að afhenda hæstv. forseta brtt. mína og vænti þess, að hann beri hana upp sem slíka við till. á þskj. 512, síðan þá till. og loks till. hv. 4. þm. Reykv., sem ég hef áður bent á, að gengur skemmra en mín till. og getur ekki staðizt sem brtt. við hana.