22.01.1951
Efri deild: 53. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í C-deild Alþingistíðinda. (3040)

38. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Rannveig Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Það hafa nú þegar orðið miklar og að ýmsu leyti fróðlegar umr. um þetta mál, og skal ég ekki lengja þær um of. — Hv. 4. þm. Reykv. ber fram dagskrártill. og notar hann henni til stuðnings þau sömu rök sem ég ber fram í grg. fyrir málinu sjálfu. En fyrir mér vakir þar úrbót til bráðabirgða, unz ný skattalöggjöf hefur verið afgr., þar sem vænzt er eftir breyt. á heildarkerfinu og m. a. að gengið verði að fullu til móts við óskir kvennasamtakanna og annarra um réttlátari skattaálagningu hjóna. — Ég mun ekki geta fylgt hinni rökst. dagskrá, þar sem rök hennar eru ekki önnur en þau, sem ég hef sjálf fært fram fyrir minni bráðabirgðatill., sem ætlað er að vera nokkur úrbót í málinu, á meðan beðið er ettir afgreiðslu þess í heild. Það hefur fullkomlega verið viðurkennt af minni hálfu, að hér er ekki um að ræða neina stórvægilega breyt. á skattalöggjöfinni. En með henni þykir það einkum mæla sérstaklega, að þeim fjölda giftra kvenna, sem lokið hefur ýmiss konar sérnámi og jafnvel háskólaprófum í ýmsum greinum, er með skattalögunum gert ómögulegt að nota það til gagns fyrir þjóðfélagið, og gæti þessi litla breyt. orðið til að bæta úr því. En það er einnig viðurkennt af mér, að þessi breyt. nær ekki til allra, heldur aðeins þeirra, sem eru í svo háum skattstiga, að annað hjónanna vinnur þannig kauplaust. Ég get ekki tekið undir það, sem hv. 6. landsk. sagði, að þó hann viðurkenndi, að þetta væri réttlætismál, þá gæti hann ekki fylgt því, af því að svo fáir yrðu þessa réttlætis aðnjótandi. Mér þykir hans röksemdafærsla skjóta skökku við, og verð að telja þetta spor í rétta átt. Hins vegar er greinilegt, eins og fram hefur komið, að kvennasamtökin í landinu munu ekki sætta sig til lengdar við neitt minna en algera sérsköttun. Konur, sem vinna sín störf innan heimilis, sætta sig ekki við, að þær séu settar skör lægra en hinar, sem starfa utan heimilisveggjanna og taka tekjur sínar í peningum.

Varðandi brtt., sem fram er komin frá hv. 4. landsk., vil ég taka fram, að þrátt fyrir það, að búast má við, að það valdi nokkrum erfiðleikum fyrir framkvæmendur skattalaganna að finna mörkin, sem hún gerir ráð fyrir, þá tel ég þó, að hún feli í sér það, sem ég hefði viljað ná í minni till., og mun ég því ljá henni fylgi.

Skal ég svo ekki orðlengja þetta frekar. Hér er hver höndin upp á móti annarri og vant að sjá, hvernig þessu máli reiðir af. En um það verður að fara sem auðið er.