23.01.1951
Efri deild: 54. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í C-deild Alþingistíðinda. (3045)

38. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Það er nú ekki ástæða til að ræða þetta mál öllu meira en þegar er búið. En að ég kvaddi mér hljóðs, er aðeins út af þeirri brtt., sem nú hefur verið útbýtt á þskj. 544, frá hv. þm. S-Þ. og hv. 1. þm. Eyf. Hv. fyrri flm. brtt., sem mælti fyrir henni áðan, taldi, að með henni væri náð m. a. því, sem ég vildi ná með minni brtt. En ég get nú ekki fallizt á þann skilning málsins og held, að þetta sé alger misskilningur hjá hv. flm. Ég sé ekki, að í þessari brtt. felist eiginlega nokkuð annað en breytt orðalag frá því, sem nú er í frv. Í frv. er gert ráð fyrir því, að því aðeins komi frádráttur til greina hjá konu, sem vinnur utan heimilis, ef ráðskona er tekin í staðinn á heimilið. Samkv. þessari brtt. kemur frádráttur því aðeins til greina, að keypt sé húshjálp vegna vinnu konunnar utan heimilis. Mér sýnist þetta koma nákvæmlega í sama stað niður. Sú kona, sem vegna fátæktar verður að leita sér atvinnu utan heimilis til þess að drýgja tekjur heimilisins, þannig að þær hrökkvi fyrir nauðsynlegum þörfum þess, en verður samt sem áður að vinna heimilisstörf í aukavinnu, vegna þess að hún hefur ekki efni á því að kaupa ráðskonu eða húshjálp, eins og það er orðað hér, fær eftir sem áður engan frádrátt. Og það er meginatriði, sem ég legg áherzlu á, eins og málið nú er komið, að slíkar konur verði ekki settar hjá við þá litlu réttarbót, sem frv. felur í sér, eins og það nú er orðið.

Það liggur fyrir brtt. frá mér um það á þskj. 541, eins og hv. þdm. er kunnugt, að ef kona vinnur utan heimilis, þá megi draga frá vissa upphæð við útreikning skattteknanna, hvort sem ráðskona er ráðin á heimilið eða ekki. Ég mun fyrir mitt leyti halda mig við þá brtt., þrátt fyrir þessa brtt., sem nú er komin fram á þskj. 544. Því að ég fæ ekki séð, að í brtt. 544 felist nein efnisbreyt., sem heitið geti, frá því sem er í frv., heldur orðabreyt., en hins vegar, að tekjuöflun þessarar fátæku konu, sem sérstaklega vegna þarfa heimilisins verður að vinna utan heimilis, tekjuöflun sú, sem hún fær vegna þessarar aukavinnu, verði aðeins til þess að koma sameiginlegum tekjum hjónanna í hærri skattstiga, þannig að árangurinn af því að reyna að auka tekjur heimilisins verður að engu. Því að þær auknu tekjur færu í að greiða hærri skatt en annars mundi verða. — Ég held því fast við brtt. mína á þskj. 541, þrátt fyrir þá síðustu brtt., sem nú hefur komið fram.