23.01.1951
Efri deild: 54. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í C-deild Alþingistíðinda. (3046)

38. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég sé ekki ástæðu til þess að teygja lopann um þetta mál. Margt af því, sem búið er að segja í umr. um málið hér, er utan gátta. — Þetta sem hv. síðasti ræðumaður sagði um fátæku konuna, er að vísu fallega mælt. En hins vegar er það svo, að sú fátæka kona, sem vinnur utan heimilis og hann tók dæmi af, lendir venjulega ekki í skatti, þó að hún telji fram með manni sínum. Þess vegna er málefnið fyrir hana ekki eins þýðingarmikið.

Hv. 11. landsk. þm. minntist nú á það, að sumir hestar væru staðir og gengju aftur á bak, og að till. sú, sem hér hefði komið fram á þskj. 544, minnti á slíkan hest. En það er nú svo, að ég skal ekki neita því, að mér datt í hug, að það sé það réttasta af hesti undir sumum kringumstæðum að ganga aftur á bak, þegar eitthvað er fram undan, sem ófært er. Betri er krókur en kelda, og gildir það bæði um hesta og menn. Til eru líka hestar, þó að þeir gangi ekki aftur á bak, sem reyna að kasta af sér þeim, sem sitja á þeim, með því að ausa og prjóna. Og satt að segja virðist mér hv. 11. landsk. reyna að losa sig þannig við þetta mál, að hann reyni að ausa því af sér eða prjóna því af sér.

Hv. 11. landsk. þm. spurði, hvaða merkingu ætti að leggja í orðið húshjálp. En af því að hann er lögfræðingur og fær um að skilgreina mál viðkomandi lögum, þá ætti hann að lesa vel saman frv. og brtt., og þá sér hann, að frádrátturinn, sem ákvæði eru í frv. um að heimila, er sem nemur kostnaði, sem heimilið þarf að greiða vegna þess að konan, sem á að annast hússtjórn, vinnur utan heimilis. Og ég hygg, að hv. 11. landsk. þm. mundi alls ekki verða í vandræðum með að komast að niðurstöðu um þetta eftir þessum orðum, þegar hann sem form. skattan. ætti að úrskurða eftir þessum l., ef þessi ákvæði verða gerð gildandi.