23.01.1951
Efri deild: 54. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í C-deild Alþingistíðinda. (3047)

38. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Þetta er orðið mikið rætt og stúderað mál. Og hefur margt komið fróðlegt hér fram, sem vænta má, þar sem svo margir góðir menn hafa lagt hlut að framgangi einhvers réttlætis, sem leitað er eftir um þessi skattamál. Mér er nú alls ekki fjarri að halda, að það gæti farið svo, í því tillagnamoldviðri, sem komið er hér fram í þessu máli og kryddað er með fallegum og skemmtilegum ræðum, að minni háttar atriði taki upp hugi manna meir en málið sjálft, þannig að afgreiðsla málsins yrði eitthvað andkannaleg. Hér eru komnar fram tvær dagskrártill., og þar að auki er ágreiningur um það, sem ég hef ekki heyrt enn úrskurðað um, hvora þeirra till. skuli bera undir atkv. fyrr.

En í ræðum flestra, sem talað hafa, og ég held allra, hefur það komið fram, að menn eru yfir höfuð fylgjandi því, að þegar svo ber undir, að gift kona þarf að vinna utan heimilis til að vinna sér inn peninga við hlið manns síns þann veg, þá sé rétt að taka eitthvert tillit til þess við skattálagningu. Og iðulega heyrir maður ákaflega miklar kvartanir þess fólks, sem þannig er ástatt fyrir, að konan verður að vinna utan heimilis, um að skattalagaákvæðin, eins og þau nú eru, komi ranglátlega niður. Hér hafa að vísu verið ræddar margar útgáfur af þessu fyrirkomulagi og talað um, að þessi og þessi brtt. mætti betur kröfum þeirra fátækustu o. s. frv. heldur en önnur. Það er nú erfitt að dæma um allar þessar till. í fljótu bili. — En það er líka til í dæminu, að konur vinni utan heimila sinna, án þess að það sé af einskærri fátækt eða sárri þörf þess sama heimilis. Það eru ekki svo fá dæmi þess, að mennirnir eru í opinberu starfi og konur þeirra stunda atvinnu sérstaklega utan heimilis. Og í þeim tilfellum er ekki hægt að segja, að það sé af nauðsyn heimilanna eða vegna efnalegrar afkomu heimilanna, að konan kýs að halda áfram eða vera í starfi, jafnvel þó hún eigi mann, sem hefur góð laun og vinnur sæmilega fyrir sinu heimili. — Það gæti sem sagt farið svo, þrátt fyrir allt þetta tillagna-moldviðri og allt, sem sagt hefur verið í umr. um málið, að afgreiðsla á málinu yrði eftir allt saman öðruvísi en margir hefðu viljað og dálítið skringileg, eins og oft getur verið, þegar brtt. koma ofan á brtt. og dagskrártill. ofan á dagskrártill. og brtt. við dagskrártill., eins og hér er um að ræða. Svo að mér datt í hug, hvort menn mundu ekki geta fallizt á að láta athuga þetta mál af ríkisstj., með tilliti til þess, sem hér hefur fram komið munnlega og skrifl. undir meðferð málsins. Það er orðið mikið, sem liggur fyrir af þskj. um þetta mál, og raddir manna um þetta eru á marga vegu. Og ég tel víst, að ríkisstj. vilji líta með sanngirni á málið. Af þessum ástæðum vil ég leyfa mér að koma með þá till., að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Ekki með það fyrir augum, að það eigi að deyja að eilífu, heldur til þess, að ríkisstj. taki þá málið til athugunar og komi með sanngjarnar till. um það á næsta þingi eða um það leyti. Þó að þetta mál sé að mörgu leyti rétt mál, þá er það ekki svo aðkallandi, að það megi ekki bíða þess að koma undir athugun fyrir næsta þing. Ég leyfi mér þess vegna að bera fram till. um það, að málinu verði á þessu stigi vísað til ríkisstj., svo að önnur þingmál, sem eru meir aðkallandi, komist að til afgreiðslu.