23.01.1951
Efri deild: 54. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í C-deild Alþingistíðinda. (3049)

38. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 2. minni hl. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Út af ræðu hv. þm. Barð. vil ég taka fram, að það lá ekki í mínum orðum við þessar umr., að ég vildi, að stjórnin gerði allt það, sem í dagskrártill. á þskj. 512 fælist eða komið hefur fram í umr. hér á Alþ. um þetta mál, þó að athugað væri um breyt. á skattal. og till. um þá breyt. lögð fram. Hitt er annað, að ríkisstj. tæki til athugunar þau atriði, sem fram hafa komið, og legði svo fram, eftir því sem henni býður hugur við, till. um málið. (GJ: Mín till. fer ekki fram á annað.) Og ríkisstj. ræður, hvað hún tekur upp í sínar till. um málið. (GJ: Vitanlega.) — Ég held, eins og nú er komið, að í þessu máli væri það brotaminnst fyrir alla aðila, til þess að fá einhvern botn í þetta mál, að fara þá leið, sem hv. þm. Vestm. stakk upp á, og mundi þá fást, að mér skilst, í raun og veru það sama út úr því eins og hv. 4. þm. Reykv. talaði um. Því að með því móti geri ég ráð fyrir því og treysti því, að það atriði, sem hann lagði mesta áherzlu á í sinni dagskrártill., yrði þá tekið til athugunar. Hitt er misskilningur, að ég fylgi fast þeirri till. Og þó að sumir hv. þm. treysti ekki sem bezt ríkisstj., sem nú er, virðist mér, að það beri að reyna að vísa málinu til hennar, eins og hv. 4. þm. Reykv. á sinn hátt líka leggur til. Og þá væri tími til stefnu til að reyna að koma því fram, sem hér hefur verið sett til hliðar í málinu.