23.01.1951
Efri deild: 54. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í C-deild Alþingistíðinda. (3050)

38. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Af því að það eru bornar brigður á það, að sú milliþn., sem skipuð var fyrir 4 til 5 árum til að gera athuganir á skattal., sé ekki til lengur, þá vil ég bara minna hv. þm. á það, að þegar bæjarfógetinn í Hafnarfirði var hér, er hann átti sæti hér í hv. Ed. og sat við hliðina á mér, og þegar rætt var um breyt. á skattal. og útsvarsl., þ. e. að afnema skiptingu útsvara og ég lagði til, að því væri vísað til þeirrar n., sem hér er talað um, hvort sé til eða ekki til, þá upplýsti sá hv. þm., Guðm. Í. Guðmundsson, að nefnd þessi væri hætt störfum fyrir ári síðan. Og þegar ég bar þetta undir form. þessarar sömu n., Gunnar Viðar, sagði hann mér, að sú n. væri hætt að starfa. (GJ: Hvers vegna er þá ekkert álit lagt fram af þessari n.?) Nefndaráliti var skilað til hæstv. ríkisstj., en ekki sent beint til Alþingis, enda slíkt ekki venja, þótt þm. Barð. hafi fengið þm. Vestm. til að gera slíkt, þegar hann var ráðherra. Hinu ræður svo hæstv. ríkisstj., hvenær álit n. kemur fram, en n. er ekki til nú. Því að ég býst við, að þessir menn báðir, sem ég nefndi, hafi sagt satt. Og þetta, sem bæjarfógetinn í Hafnarfirði sagði um þetta, heyrði hv. þm. Barð. alveg eins og ég, því að ég held, að hv. þm. Barð. vanti aldrei á fund hér í hv. þd. Þess vegna ætti hv. þm. Barð. að vita þetta alveg eins vel og ég, að n. þessi er ekki til.