23.01.1951
Efri deild: 54. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í C-deild Alþingistíðinda. (3058)

38. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir úrskurði hæstv. forseta, því að hann er áreiðanlega byggður á réttum rökum, og það sérstaklega þegar búið er að fella hér í þessari hv. deild till. um að vísa málinu frá án nokkurs rökstuðnings. Það hefur sem sé verið fellt að vísa því rökstuðningslaust til hæstv. ríkisstj. Það er því alveg ótækt að vísa frá þeirri till., sem lengra gengur, þegar það er vitað, að fyrri till., sé hún samþ., getur hindrað, að síðari till. verði borin upp. En af því að hæstv. forseti hefur lýst því yfir, að þetta verði borið undir atkv. deildarinnar, ef þess verður óskað, þá óska ég eftir, að hæstv. forseti vilji upplýsa, hvaða merkismenn hafa gefið svo mismunandi úrskurði, og sett hann í þá aðstöðu, að hann treystir ekki sinni ágætu dómgreind.