08.02.1951
Efri deild: 66. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í C-deild Alþingistíðinda. (3081)

70. mál, lyfsölulög

Frsm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Eins og segir í nál. um mál þetta á þskj. 612, hefur n., jafnframt því sem hún hefur haft þetta frv. til meðferðar, einnig haft til meðferðar annað frv. um sama efni, sem er frv. til lyfjalaga, 71. mál. Þessi frv. eru — eins og segir í nál. — í aðalatriðum um sama efni, þau fjalla sem sé um reglur um lyfjasölu, en um hana gilda nú l. frá 1672, svo að eiginlega má segja, að þau l. séu komin til ára sinna og að ekki sé annað sæmandi en að hér verði innan tíðar sett ný l. um þessi efni. Hins vegar eru viss atriði í báðum þessum frv., sem mikill mismunur er á og mikill ágreiningur er um.

Það kom fram í heilbr.- og félmn., að mikil nauðsyn væri á að fá sem fyrst l. um þessi efni, en hins vegar virtist n., úr því að ekki væru líkur til að geta lagt aðeins annað þessara frv. til grundvallar, það ekki vera á færi hennar að semja frv. til l. um þessi mál, úr því sem fyrir lá. En ég má segja, að það hafi verið samróma álit n., að hvað sem því líður, sem kalla má sérstakan ágreining um milli frv., að hina tæknilegu hlið málsins verður að leysa, með hvaða hætti sem það annars má verða. — Þess vegna leggur n. til, að þetta mál, frv. til lyfsölul., verði afgr. með rökst. dagskrá, eins og segir á þskj. 112, að „í trausti þess, að ríkisstj. láti undirbúa frv. um lyfjasölu og leggi það fyrir næsta þing, telur d. ekki ástæðu til að afgreiða málið að þessu sinni, en tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“ Og er þetta — eins og áður er sagt — sammála álit n.