21.11.1950
Neðri deild: 25. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í C-deild Alþingistíðinda. (3120)

26. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Frsm. (Emil Jónsson) [frh.] :

Herra forseti. Ég var kominn þar, þegar fundi var frestað áðan, að gera grein fyrir 6 fyrstu brtt. iðnn. 7. brtt. er við 13. gr. og gerir ráð fyrir, að 3. málsliður 1. mgr. falli niður, því að þar er tekið upp atriði, sem heldur á heima í reglugerð, og var n. sammála um að fella þetta niður úr frv.

Næsta brtt. er við 32. gr., en það er ein af veigamestu greinum frv. og fjallar um hámarksvinnutíma við sérstaka vinnu, svo sem akstur fólksflutningsbifreiða og stjórn ýmissa véla. Það varð ekki samkomulag um þetta atriði innan n., og ber hv. þm. V-Húnv. fram brtt. um að fella niður öll þessi ákvæði, en það tel ég stórskemmd á frv. og til hins mesta skaða. En n. var sammála um að bera fram þá brtt. við frv., ef það gæti leitt til samkomulags, að setja, að bifreiðarstjórar, sem að staðaldri flytja fólk, og stjórnendur þeirra véla, sem mönnum getur stafað sérstök hætta af, skuli ekki hafa lengri vinnutíma en 12 klst. á sólarhring.

9. og síðasta brtt. n. er, að á eftir 46. gr. frv. komi ný grein, svo hljóðandi: „Þar, sem starfsemi fer fram við gildistöku laga þessara, er að einhverju leyti fer í bága við ákvæði þeirra, skal öryggismálastjóra með samþykki öryggisráðs heimilt að veita frest um ákveðinn tíma til að koma því í lag, sem ábótavant kann að reynast.“ Hér er aðeins verið að gefa þeim, sem kunna að hafa starfrækslu, sem brýtur í bága við ákvæði laga þessara, kost á að koma því í lag.

Þessar eru þá till. iðnn., og eins og ég sagði í upphafi, þá fara þær flestar í þá átt að þrengja ákvæði þau, sem í frv. eru, þó að þær séu ekki allar þannig. Eins og ég tók fram áðan, þá ber hv. þm. V-Húnv. fram nokkrar brtt. við frv., en þær eru raunar aðeins tvær, sem máli skipta, og mun hann að sjálfsögðu gera grein fyrir till. sínum hér á eftir, en ég tel till. hans til skemmda á frv., og hefði ég viljað óska, að þær væru ekki fluttar.

Ég held, að ég þurfi þá ekki að segja fleira um brtt. þær, sem iðnn. flytur sameiginlega. Ég vil undirstrika það, að þegar frv. þetta, eða frv. svipaðs eðlis, hefur verið flutt hér, hefur það stöðvazt í Ed. En þessum málum er nú svo háttað, að ekki má stöðva frv. þetta hér í þinginu. Slys eru nú orðin svo mörg og mikið um atvinnusjúkdóma, að grípa verður í taumana, og eins er mjög ábótavant um hreinlæti og hollustuhætti á vinnustöðum. Ég vona, að hv. þm. taki frv. og brtt. iðnn. vel, svo að frv. fái afgreiðslu á þessu þingi.